Skip to main content

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Jóhanna Gísladóttir

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Jóhanna Gísladóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
22. apríl 2022 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 22. apríl 2022 ver Jóhanna Gísladóttir doktorsritgerð sína í umhverfis- og auðlindafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og landfræði við Landfræðideild Stokkhólmsháskóla. Doktorsritgerð Jóhönnu er til sameiginlegrar doktorsgráðu Háskóla Íslands og Stokkhólmsháskóla. Titill ritgerðarinnar er Kerfisfræðileg nálgun á spillingu og náttúruauðlindum í samhengi sjálfbærni (A systems thinking approach to corruption and natural resources in the context of sustainability). Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin. Vörninni verður einnig streymt.

Tengill á streymi.

Leiðbeinendur eru dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir prófessor við Háskóla Íslands, dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og dr. Ingrid Stjernquist lektor við Stokkhólmsháskóla. Dr. Tina Søreide prófessor við NHH Norges Handelshøjskole sat í doktorsnefnd.

Andmælendur eru dr. Robert Klitgaard prófessor við Claremont Graduate University og dr. Birgit Kopainsky við University of Bergen.

Vörninni stjórnar Maximilian Conrad, deildarforseti Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands.

 

 

Um doktorsefnið

Jóhanna Gísladóttir fæddist árið 1989 og ólst upp á Akranesi. Hún er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og M.Phil gráðu í kvikum kerfislíkönum (e. system dynamics) frá University of Bergen í Noregi. Hún hóf störf sem umhverfisstjóri Landbúnaðarháskóla Íslands fyrr á þessu ári samhliða stundakennslu við Háskóla Íslands.

Ágrip

Meginmarkmið doktorsritgerðarinnar var að rannsaka gangverk þeirra þátta sem stuðla að spillingu við stjórnun náttúruauðlinda, með áherslu á stjórnunarkerfi endurnýjanlegra auðlinda í Evrópu, og hvernig greina megi og draga úr spillingarhættum í slíku samhengi. Betri skilningur á því gangverki gefur tækifæri á að bera kennsl á lykilþætti hugsanlegra endurbóta, sem gætu nýst við stefnumótun sem miðar að því að draga úr spillingarhættum í auðlindastjórnunarkerfum.
Meginniðurstöður benda til þess að breytingar í átt að stærðarhagkvæmni hafi átt sér stað innan þeirra auðlindakerfa sem voru til rannsóknar fyrir tilstilli aukinnar kröfu um hagkvæmni, sem auðvelduðu samþjöppun fyrirtækja innan greinanna. Það hefur leitt til vaxandi misrétti milli stórra fyrirtækja og smærri aðila, sem virðist gera það að verkum að talin er vera aukin hætta á spillingu og ósjálfbærri nýtingu auðlinda. Stofnanir sem framfylgja lögum og reglum, auk þess að sinna eftirliti innan auðlindageiranna, þurfa að hafa getu og bjargráð til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Ófullnægjandi eftirlit getur aukið spillingarhættur.
Niðurstöður gefa einnig til kynna að gagnsæi í nýtingu auðlinda getur leitt af sér aukna ábyrgðaskyldu og stuðlað að sjálfbærni. Samt sem áður getur verið varhugavert að einblína á gagnsæi sem stefnumótunartæki í tilfellum þar sem þörf er á íhlutunarpunktum á hærra stigi til að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda, þar sem hafa ber í huga að lausnir eru háðar samhengi.

Jóhanna Gísladóttir

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Jóhanna Gísladóttir