Skip to main content

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Conor Byrne

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Conor Byrne - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. nóvember 2021 11:00 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal og í beinu streymi

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 12. nóvember kl. 11:00 mun Conor Byrne verja doktorsritgerð sína Innsýn í frammistöðu íslenska kvótakerfisins í samhengi sjálfbærrar þróunar (Insights in the performance of Iceland´s ITQ system in the context of Sustainable Development). Vörnin er opin öllum og fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands en henni verður einnig streymt.

Hlekkur á streymi: 

https://livestream.com/hi/doktorsvornconorjosephbyrne

Vörnin fer fram á ensku (the docoral defence will be held in English).

Leiðbeinendur voru dr. Brynhildur Davíðsdóttir prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og dr. Sveinn Agnarsson, prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd var dr. Jón Steinsson, prófessor í hagfræði við University of California, Berkeley.

Andmælendur verða Frank Asche, prófessor við University of Florida og dr. Quentin Grafton, prófessor við Australian National University.

Doktorsvörn stýrir dr. Birgir Þór Runólfsson deildarforseti Hagfræðideildar.

Um doktorsefnið

Conor Byrne er fæddur og uppalinn í Bretlandi en flutti til Íslands árið 1999. Conor er með BA próf í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði frá University of Oxford og MBA próf frá London Business School. Conor hóf doktorsnám í umhverfis- og auðlindafræði við Hagfræðideild árið 2015 og var rannsókn hans hluti af GreenMAR verkefninu. Conor hefur áður unnið í fjármálum og viðskiptaþróun bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi í rúmlega 20 ár.

Ágrip

Notkun framseljanlegra, einstaklingsbundinna kvóta (FEK) hefur verið hampað sem leið til að auka skilvirkni með því að draga úr líffræðilegri og hagfræðilegri ofveiði. Hins vegar hefur slíkt kerfi verið gagnrýnt á grundvelli samfélagslegra- og umhverfissjónarmiða, auk þess sem skilvirkni hefur aukist minna en áætlað var að hún gæti gert að hámarki. Í ritgerðinni er þetta viðfangsefni skoðað í samhengi við íslenskt kvótakerfi til þess að varpa ljósi á mögulegt framlag FEK til sjálfbærrar þróunar. Það er gagnlegt að skoða íslenska kerfið því það hefur verið einna lengst við lýði í heiminum og er víða talið hafa gefist vel, en sögulegt mikilvægi fiskveiða á Íslandi veldur því að áhrif kvótakerfisins hafa verið efni til ítarlegrar skoðunar hjá þjóðinni.

Ritgerðin samanstendur af fimm greinum sem leggja áherslu á tiltekin atriði sem eru talin helstu áskoranir í sjávarútvegi og notkun FEK. Þar má nefna rentusóun vegna ofveiða, samþjöppun aflaheimilda, svigrúm til þess að endurskoða dreifingu auðlindarentu, minnkun útblásturs gróðurhúsaloftstegunda vegna olíunotkunar fiskiskipa og hagkvæmar leiðir til þess að innleiða bann við brottkasti.

Niðurstöður gefa til kynna að íslenska kvótakerfið hafi að einhverju marki mætt sumum lykiláskorunum með góðum árangri. Kerfið hefur  einnig reynst búa yfir nauðsynlegum sveigjanleika til að taka á ýmsum málum sem hafa komið upp. Bent er á tvö viðfangsefni til frekari rannsókna; annars vegar leiðir að kolefnis-hlutlausum fiskveiðum og hins vegar ályktanir sem draga má af mismunandi aðferðum við úthlutun kvóta. Einkum er ástæða til rannsókna á síðarnefnda viðfangsefninu en þar má einnig leita  í smiðju annarra fræðagreina til að smíða ramma um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda þar sem takmörkuðum og verðmætum réttindum er úthlutað með einhverjum hætti.

 

Föstudaginn 12. nóvember kl. 11:00 mun Conor Byrne verja doktorsritgerðin sína Innsýn í frammistöðu íslenska kvótakerfisins í samhengi sjálfbærrar þróunar (Insights in the performance of Iceland´s ITQ system in the context of Sustainable Development). Vörnin er opin öllum og fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands en henni verður einnig streymt.

Doktorsvörn í umhverfs- og auðlindafræði - Conor Byrne