Skip to main content

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Bryndís Woods

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Bryndís Woods - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
3. september 2020 12:00 til 14:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 3. september ver Bryndís Woods doktorsritgerð sína Climate and Farmer Adaptation in Denmark: Hidden Adaptations (Loftslag og aðlögun bænda í Danmörku: dulin aðlögun).

Vörnin fer fram á netinu og er öllum opin. Tengill á streymið. 

Andmælendur eru dr. Anthony G. Patt, prófessor við Umhverfiskerfisvísindadeild ETH Zürich, og dr. Hafdís Hanna Ægisdóttir, fyrrum forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Leiðbeinandi er dr. Daði Már Kristófersson, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands. Að auki situr í doktorsnefnd dr. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og dr. Egil Ferkingstad, rannsóknarfræðingur við deCODE genetics, Inc.

Doktorsvörn stýrir Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs.

Athygli er vakin á því að doktorsefnið og andmælendur munu taka þátt í athöfninni í gegnum fjarfundarbúnað en gestum er velkomið að fylgjast með úr Hátíðasal Háskóla Íslands en athöfnin hefst kl. 12:00 að íslenskum tíma.

Um doktorsefnið
Bryndís er fædd árið 1987 í Ann Arbor, Michigan, Bandaríkin. Hún lauk BA gráðu í félagsfræði frá University of Michigan og meistaragráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Bryndís starfar nú sem greinandi á Applied Economics Clinic í Arlington, Massachusetts í Bandaríkjunum.
Bryndís veitir nánari upplýsingar um doktorsverkefnið í netfanginu bryndis.woods@gmail.com.

Ágrip
Ritgerðin byggir á þremur greinum sem fjalla um aðlögun bænda að loftslagsbreytingum í Danmörku, með áherslu á val á nytjajurtum. Rannsóknarspurningarnar eru: i) hvert er viðhorf bænda til loftslagsbreytinga, hvert er viðhorf til áhættu og hindrana til aðlögunar ii) hvort og að hvaða marki hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á val bænda á nytjajurtum og iii) hvert er samband milli lýðfræðilegra breyta og raunverulegu vali á nytjajurtum annars vegar og hins vegar hvernig bændur sjálfir lýsa athöfnum sínum þegar kemur að slíku vali. Það er, er samband milli orða og athafna bænda? Til þess að svara þessum rannsóknarspurningum er byggt á spurningakönnun frá 2014 meðal danskra bænda (1053 svör), og gagnasettum um danskan landbúnað og um loftslag og veður í Danmörku frá 2000 til 2010, ordered probit líkana, línulegra logratio aðhvarfsgreininga og chi-square prófa.

Niðurstöður gefa innsýn í viðhorf og aðlögun bænda. Bændur virðast ekki hafa áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga og eru í meðallagi líklegir til að aðlagast í framtíðinni. Aðallega er ráðist í aðlögun til að nýta tækifæri sem felast í loftslagsbreytingum. Þegar bændur eru spurðir um aðlögun í fortíðinni, með áherslu á val á nytjajurtum, sést að loftslag hefur ekki bein áhrif á ákvarðanatöku. Breytur svo sem stærð býlis og tekjur, hins vegar hafa áhrif. Niðurstöður einnig sýna að ræktun plantna svo sem “winter cereals” og repju er jákvætt tengd lofthita, regni og sólardögum, og að bændur hafa lagt aukna áherslu á að rækta “winter cereals” og maís, á kostnað “spring cereals”. Því virðist sem jurtir sem bregðast á jákvæðan hátt við breytingum í lofthita að vetri hafi orðið samkeppnishæfari.

Niðurstöðurnar veita innsýn í val og hönnun á aðferðafræði þegar aðlögun í landbúnaði er rannsökuð, sem og innsýn í stefnumótun sem tengist loftslagsbreytingum og landbúnaði. Þegar vísindamenn rannsaka aðlögun er mikilvægt að þeir geri sér grein fyrir því hversu miklu máli rammi rannsóknar (framing) skiptir þegar bændur eru spurðir um viðbrögð þeirra við loftslagsbretytingum. Mögulegt er að vanmeta raunverulega aðlögun vegna “dulinnar aðlögunar”, sem skv bændum er ekki tengd loftslagsbreytingum, en er þó marktækt tölfræðilega tengd breytum sem lýsa loftslagi. Það mikilvægt fyrir þá sem vinna að stefnumótun að hvetja til aðlögunar sem nýtir jákvæð áhrif betri vaxtarskilyrða sem og að ráðast í aðgerðir sem auka viðnámsþrótt gagnvart breyttu loftslagi. Niðurstöðurnar benda til þess að til að hvetja bændur til aðlögunar sé best að leggja áherslu á annan ávinning en loftslagstengdan ávinning.

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Bryndís Woods

Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Bryndís Woods