Skip to main content

Doktorsvörn í þjóðfræði - Júlíana Þóra Magnúsdóttir

Doktorsvörn í þjóðfræði - Júlíana Þóra Magnúsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
16. júní 2023 10:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 16. júní ver Júlíana Þóra Magnúsdóttir doktorsverkefni sitt í þjóðfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Með eigin röddum: Sagnahefðir íslenskra kvenna undir lok nítjándu aldar og í byrjun tuttugustu aldar (In Their Own Voices: Legend Traditions of Icelandic Women in the Late Nineteenth and Early Twentieth Centuries).

Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 10:00 og er öllum opin.

Leiðbeinandi verkefnisins er dr. Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands og dr. Timothy R. Tangherlini, prófessor í þjóðfræði við Berkeleyháskóla í Kaliforníu.

Andmælendur eru dr. Mirjam Mencej, prófessor í þjóðfræði við háskólann í Ljubljana og dr. Ulf Palmenfelt prófessor í þjóðfræði við háskólann í Uppsölum.

Vörninni stýrir dr. Ólafur Rastrick, deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.

Um doktorsefnið
Júlíana Þóra Magnúsdóttir er fædd á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu  árið 1972 og ólst þar upp. Hún lauk BA prófi í þjóðfræði  frá Háskóla Íslands árið 2004 og MA prófi í þjóðfræði frá sama skóla árið 2008.

Í meistaraverkefninu tók hún til rannsóknar sagnafólk og sagnahefð í Skaftárhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu og rakst þar meðal annars á ákveðin kynbundin mun á sagnahefðinni sem kveikti áhugan á að skoða nánar sagnahefðir íslenskra kvenna á breiðari grunni og kynjamun í sagnahefðunum.

Samhliða doktorsnáminu hefur hún starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands þar sem hún kennir meðal annars námskeið um íslenska sagna- og þjóðtrúarhefð.

Ágrip
Rannsóknin beinist að því að draga fram helstu þætti munnlegra þjóðsagnahefða kvenna í gamla íslenska torfbæjarsamfélaginu. Heimildir rannsóknarinnar eru hljóðrituð viðtöl þjóðfræðasafnarans Hallfreðar Arnar Eiríkssonar (1932-2005) við 200 heimildakonur fæddar á síðustu áratugum 19. aldar, auk 25 karla úr sama heimildasafni sem mynda samanburðarhóp fyrir ákveðna þætti rannsóknarinnar. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast innsýn inn í hvernig rými, upplifun og aðstæður kvenna í fortíðinni höfðu áhrif á þjóðsagnahefðir þeirra og sagnasjóði.

Rannsóknin skiptist í nokkra meginþætti. Einn tengist hlutdeild kvenna í ýmsum gerðum þjóðfræðisafna, annar tengslum sagnahefða þeirra við félagsleg rými og landslag torfbæjarsamfélagsins og sá þriðji helsta muninum sem greina má á formi og inntaki sagna kvennanna þegar litið er til sagna karla í samfélagi þeirra. Fjórði þáttur rannsóknarinnar beinir sjónum að þremur sagnakonum sem eiga stóra sagnasjóði í heimildasafninu þar sem leitast er við að draga betur fram samband aðstæðna, umhverfis og reynslu kvennanna við mótun sagnasjóða þeirra.

Rannsóknin leiðir meðal annars í ljós að konurnar voru mun hreyfanlegri landfræðilega en búist var við og margar þeirra áttu í mjög miklum félagslegum samskiptum við fólk í nærsamfélaginu. Þessi hreyfanleiki skapaði þeim mikilvægt hlutverk í munnlegum sagnahefðum heimabyggða þeirra og fyrir miðlun sagna á milli ólíkra landshluta. Konur gegndu einnig mikilvægu hlutverki í sagnaskemmtunum rökkranna sem voru undanfarar kvöldvökunnar á íslenska torfbænum. Þá reynast ýmsir þættir sagnahefðar algengari í sagnasjóðum kvenna en karla, svo sem persónuleg nálgun á yfirnáttúrulega hefð, áhersla á kvenhlutverk og kvenpersónur og á ákveðin frásagnaefni.

Föstudaginn 16. júní ver Júlíana Þóra Magnúsdóttir doktorsverkefni sitt í þjóðfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands

Doktorsvörn í þjóðfræði - Júlíana Þóra Magnúsdóttir