Skip to main content

Doktorsvörn í þjóðfræði - Dagrún Ósk Jónsdóttir

Doktorsvörn í þjóðfræði - Dagrún Ósk Jónsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
7. júní 2022 14:00 til 16:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Fyrirlestrarsalurinn

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þriðjudaginn 7. júní ver Dagrún Ósk Jónsdóttir doktorsverkefni sitt í þjóðfræði Fangar hefðarinnar: Konur og kvenleiki í íslenskum þjóðsögum. Vörnin fer fram í fyrirlestrasalnum í Veröld – Húsi Vigdísar kl. 14:00 og er öllum opin.

Leiðbeinandi verkefnisins er dr. Terry Gunnell prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands, auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Gyða Margrét Pétursdóttir prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands og dr. Ülo Valk prófessor í þjóðfræði við Háskólann í Tartu.

Andmælendur eru Laura Stark prófessor í þjóðfræði við University of Jyväskylä og Timothy R. Tangherlini prófessor í þjóðfræði við Berkley University.

Vörninni stýrir Jónína Einarsdóttir prófessor og deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.

Vörninni verður streymt: https://livestream.com/hi/doktorsvorndagrunoskjonsdottir

Um doktorsefnið:
Dagrún Ósk Jónsdóttir er fædd árið 1993 og að mestu uppalin á Kirkjubóli á Ströndum. Dagrún hefur unnið að margvíslegum verkefnum meðfram náminu, sem tengjast til dæmis ferðaþjónustu, sýningagerð, fyrirlestrahaldi og viðburðastjórnun.

Hún hefur í mörg ár séð um Náttúrubarnaskólann á Ströndum. Hún hefur einnig ritstýrt og gefið út bækur tengdar Ströndum og heldur úti hlaðvarpi um rannsóknir og miðlun á þjóðfræði. Áhuginn á að flétta saman þjóðfræði og kynjafræði kviknaði strax í BA náminu þegar Dagrún skrifaði um mannát í íslenskum þjóðsögum og rakst þar á athyglisverðan kynjavinkil.

Ágrip:
Rannsóknin snýr að birtingarmyndum kvenna og kvenleika í íslenskum þjóðsögum. Þjóðsagnir geta sagt okkur margt um það samfélag sem þær tilheyra og endurspegla þann hugmyndaheim og jarðveg sem þær spretta úr. Í rannsókninni er unnið með sagnir í íslenskum þjóðsagnasöfnum frá 19. og 20. öld og gerð er grein fyrir þeim boðskap sem sagnirnar innihalda varðandi hlutverk kvenna og æskilega hegðun þeirra út frá þjóðfræði og kynjafræðilegum sjónarhornum. Sjónum er sérstaklega beint að óhlýðni, uppreisn og andófi kvenna og ofbeldi gagnvart konum og viðhorfum til þess. Markmið rannsóknarinnar er að varpa nýju ljósi á það hversu rótgrónar hugmyndir um hlutskipti kvenna eru í raun og veru og að vera mikilvægt innlegg í jafnréttisumræðuna.

Fjallað er um birtingarmyndir kvenna út frá fjórum ólíkum vinklum í rannsókninni. Skoðaðar eru konur sem hafa eiginleika og sinna störfum sem voru talin karllæg, kynbundið ofbeldi, konur sem hafna móðurhlutverkinu og yfirnáttúrulegar konur, huldukonur og skessur, sem virðast ógna körlum og jafnvel samfélagsskipaninni með hegðun sinni.

Rannsóknin sýnir að þrátt fyrir konurnar í sögnunum séu oft í uppreisn við það sem talið er kvenlegt, dugir það ekki til. Sagnirnar styðja yfirleitt við ríkjandi hugmyndir um hvað þóttu vera æskileg hlutverk og hegðun kvenna og þegar konurnar fara gegn þessum hugmyndum í sögnum birtast þær oft í neikvæðu ljósi, sem „mengandi“ eða hættulegar eða er refsað, oftast af körlum eða kirkjunni

Mikið af þeim hugmyndum sem sjá má í þjóðsögunum eru enn til staðar í dag og á rannsóknin því mikið erindi við samtímann.

Þriðjudaginn 7. júní ver Dagrún Ósk Jónsdóttir doktorsverkefni sitt í þjóðfræði Fangar hefðarinnar: Konur og kvenleiki í íslenskum þjóðsögum.

Doktorsvörn í þjóðfræði - Dagrún Ósk Jónsdóttir