Skip to main content

Doktorsvörn í sálfræði - Vaka Vésteinsdóttir

Doktorsvörn í sálfræði - Vaka Vésteinsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. apríl 2018 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 12. apríl ver Vaka Vésteinsdóttir doktorsritgerð sína í sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Aðferðir til að fást við félagslega æskilega svörun í netkönnunum: MCSD-kvarðinn og QHR-aðferðin. On methods for dealing with Socially Desirable Responding in Internet Surveys: The Marlowe-Crowne Social Desirability Scale (MCSDS) and the Questions on Honest Responding (QHR) technique.

Andmælendur eru dr. Caroline Roberts assistant prófessor við Institute of Social Sciences, Universite de Lausanne,  og dr. Sif Einarsdóttir, prófessor við Félags og mannvísindadeild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Fanney Þórsdóttir, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Auk hennar sátu í doktorsnefnd Adam Joinson, prófessor við Information Systems, University of Bath, á Englandi og Ulf-Dietrich Reips, prófessor við Faculty of Sciences, University of Konstanz, í Þýskalandi.

Daníel Ólason, prófessor og forseti Sálfræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Ágrip af rannsókn

Fjöldi rannsókna hefur sýnt að missvörun dregur úr gæðum gagna sem safnað er með sjálfsmatskvörðum og þar af leiðandi einnig úr gildi tölfræðilegra niðurstaðna er byggja á slíkum gögnum. Eitt aðaláhyggjuefnið í þessu sambandi er félagslega æskileg svörun (FÆS), sem annað hvort er talin vera birtingarmynd tilhneiginingar svaranda til að fegra sig eða sem viðbragð svaranda við innihaldi atriðis eða öðrum utanaðkomandi áhrifum. Rannsakendur hafa reynt með ýmsum aðferðum að mæla og/eða draga úr FÆS en ekki er sátt um hver sé besta aðferðin til að mæla FÆS og/eða draga úr slíkri svörun. Staðan í dag er því sú að ekki er mælt með einni aðferð umfram aðra til að fást við FÆS í netkönnunum. Markmið verkefnisins var að rannsaka aðferðir til að fást við FÆS í netkönnunum og leggja til hagnýtar leiðir til að fást við vandann. Til þessa var þekkt mæling á FÆS (MCSDS) metin og styttri útgáfa af kvarðanum hönnuð fyrir netfyrirlagnir. Í sama tilgangi var einnig hönnuð aðferð til að draga úr FÆS á netinu. Í ritgerðinni eru settar fram tvær aðferðir til að fást við vandann sem skapast vegna FÆS í netkönnunum: Stutt útgáfa af MCSDS (MCSD-SF) og QHR-aðferðin. Niðurstöður prófana á báðum aðferðum lofa góðu og báðar aðferðir er auðvelt að nota í netkönnunum.

Abstract

Numerous studies have shown that misreporting compromises the accuracy of self-reported data. One of the main concerns in this respect is socially desirable responding (SDR), either seen as a display of a tendency of the respondent (socially desirable response style: SDRS), or as a reaction to the item content and/or influence of the situation. There are several ways in which researchers have attempted to measure and/or reduce SDR. No consensus about the best strategy to measure SDRS and/or reduce SDR has been reached and there is currently no recommended method for dealing with SDR in Internet surveys. The general aim of the research project was to study methods for dealing with SDR in Internet surveys and present practical approaches to the problem, by evaluating a previously developed measure of SDRS and creating a short form suited for Internet administration, as well as developing a practical method for reducing SDR in Internet surveys. The thesis presents two approaches to the problems posed by SDR in Internet surveys: the MCSD-SF and the QHR method. Promising results were obtained for both the MCSD-SF and the QHR and both are easy to implement in Internet surveys.

Um doktorsefnið

Vaka Vésteinsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1980. Hún lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut Menntaskólans við Hamrahlíð árið 2000, BA-prófi frá Sálfræðideild Háskóla Íslands árið 2004 og MA-prófi frá sömu deild árið 2008. Meðfram doktorsnámi hefur hún meðal annars starfað sem aðstoðarkennari og stundakennari við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Vaka tekur við postdoc stöðu við Háskólann í Konstanz frá og með maí 2018. Foreldrar Vöku eru þau Harpa Karlsdóttir og Vésteinn Rúni Eiríksson. Sonur Vöku er Loki Robert Huemer.

 

Vaka Vésteinsdóttir

Doktorsvörn í sálfræði - Vaka Vésteinsdóttir