Skip to main content

Doktorsvörn í sagnfræði: Sólveig Ólafsdóttir

Doktorsvörn í sagnfræði: Sólveig Ólafsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
10. júní 2022 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 10. júní 2022 fer fram doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Þá ver Sólveig Ólafsdóttir doktorsritgerð sína í sagnfræði, „Vald og vanmáttur. Eitt hundrað og ein/saga á jaðri samfélagsins 1770-1936“. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 14:00.

Andmælendur við vörnina verða dr. Íris Ellenberger, dósent við Háskóla Íslands, og Páll Björnsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Sigurðar Gylfa Magnússonar, prófessors við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Guðrún V. Stefánsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, Ólafur Rastrick, dósent við Félagsvísindasvið, og Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra.

Steinunn Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Í rannsókninni Sólveigar er grafist fyrir um lífsþræði alþýðufólks sem myndi flokkast sem fatlað fólk í okkar samtíma. Það var gert með því að rýna í alls kyns opinberar heimildir, sem varðveittar eru á skjalasöfnum á Íslandi. Tímabilið sem rannsóknin nær til er 1770–1936 og fjallar um eitt hundrað og einn einstakling. Heimildir, sem urðu til hjá opinberum yfirvöldum, eru margvíslegar og afar umfangsmiklar. Í þeim var leitað svara við því hvernig hið opinbera tungutak mismunandi heimilda speglar hversdagslíf einstaklinganna, líkamlega og félagslega stöðu þeirra, samhengi og tilfinningalíf. Leitað er fanga úr fórum sagnfræði og þá sérstaklega aðferðafræði einsögunnar (e. microhistory) og fötlunarfræði (e. disability studies) og einkum út frá sjónarhorni gagnrýninnar fötlunarfræði (e. critical disability studies). Hugmyndin er að samþætta þessi tvö fræðasvið því þannig mætti leitast við að draga fram á sjónarsviðið nær ósýnilega fatlaða einstaklinga úr íslenskri fortíð. Helstu atriðin, sem þarf að hafa í huga við slíka rannsókn, eru einstaklingarnir sjálfir, æviferill þeirra, hvað þeir lögðu til samfélagsins og viðhorf samfélagsins til þeirra. Kvillar sem hrjáðu þá skilgreina þá ekki í samhengi þessarar rannsóknar. Slík nálgun kemur úr smiðju fötlunarfræðinnar. Þar sem þeir eru ekki lengur á lífi þarf að beita ýmsum aðferðum einsögunnar til að nálgast þessar upplýsingar úr fortíðinni.

Um doktorsnefnið

Sólveig Ólafsdóttir lauk BA-prófi í sagnfræði og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands, MA-prófi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sólveig var starfsmaður Íslendingabókar um árabil og síðar framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar ses. Hún gegnir nú stöðu nýdoktors innan rannsóknarverkefnis RANNÍS: Bíbí í Berlín.

Sólveig Ólafsdóttir.

Doktorsvörn í sagnfræði: Sólveig Ólafsdóttir