Skip to main content

Doktorsvörn í norrænni trú - Felix Lummer

Doktorsvörn í norrænni trú - Felix Lummer - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. mars 2021 14:00 til 16:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 15. mars næstkomandi mun Felix Lummer verja doktorsritgerð sína í norrænni trú við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.

Doktorsritgerðin ber heitið Lost in Translation: Adapting Supernatural Concepts from Old French Chivalric Literature into the Old Norse riddarasǫgur (Týnt í þýðingu: Aðlögun yfirnáttúrulegra hugtaka úr fornfrönskum riddarabókmenntum í forníslenskum riddarasǫgum).

Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 14:00 og verður henni streymt.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd sátu dr. Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og dr. Rudolf Simek, prófessor í þýskum fræðum fornra alda við Rheinische Friedrich-Wilhelms-Universität, Bonn.

Andmælendur við vörnina verða dr. Marianne E. Kalinke, prófessor emerita í germönskum tungumálum og bókmenntum við University of Illinois at Urbana-Champaign, og dr. Stephen Mitchell, prófessor í norrænum fræðum ásamt þjóðfræði og goðafræði við Harvard University.

Doktorsvörn stýrir dr. Jónína Einarsdóttir, prófessor og deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.

 

Um doktorsefnið
Felix Lummer lauk B.A.-prófi í norðurlandafræði og sagnfræði við Georg-August-Universität Göttingen árið 2013 og M.A.-prófi í norrænni trú árið 2017 við Háskóla Íslands. Felix hefur verið styrkþegi Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands frá 2018 til 2020.

Hægt er að hafa samband við Felix í netfanginu fel2@hi.is

Ágrip
Rannsóknir fræðimanna á þýðingum riddarasagna hafa eflst til muna eftir aldamótin en hið sama gildir ekki um rannsóknir á sjálfum efniviðni sagnanna, svo sem hvernig birtingarmynd kvenna er sýnd gegnum tilfinningar þeirra í sögunum. Hingað til hefur lítið verið kannað hvort og þá hver áhrif þýðingar efnis um yfirnáttúrulega hluti og atburði sem snúa að norrænni trú hafa verið. Markmið þessarar ritgerðar er að sýna fram á áhrif fornra franskra riddarasagna á hugmyndaheim norrænna manna um umhverfi sitt og landlýsingu, auk þess að sýna fram á áreiðanleika riddarasagna að því er varðar hugmyndir norrænna manna um hið yfirnáttúrlega.

Ritgerðin greinir slíkar hugmyndir í hinum forn-frönsku bókmenntum og skoðar áhrif þeirra og innblástur í norrænum bókmenntum og goðafræði og sýnir þannig hvernig skilningur manna á yfirnáttúrulegum atburðum hefur þróast í aldanna rás. Í ritgerðinni er athyglinni einkum beint að hinum norrænu þýðingum tólftu og þrettándu aldar ástarsagna fornfranskra bókmennta og skoðað sérstaklega hvaða hlutverki hinn mannlegi þáttur og þeirra tíma þýðingarhefðir gegna. Yfirnáttúrulegar verur, svo sem álfar, dvergar og jötnar, auk ýmissa galdrahugtaka, sem fram koma í þessum frásögnum eru teknar til ítarlegrar skoðunar, og fjallað er um hverja áðurnefnda tegund í sérstökum kafla. Með samanburði við seinni tíma fornaldarsögur, upprunalegar riddarasögur og íslenskar þjóðsögur eru þessar þýðingar skoðaðar í þeim tilgangi að greina áhrif á hin yfirnáttúrulegu fyrirbæri í þeim.
Í fyrsta hluta þessarar ritgerðar er fjallað um álfa í norrænum heimildum og goðsögulega tengingu þeirra við forn-franska hugtakið fées (eint. fée), annar hlutinn fjallar um dverga og hliðstæða tengingu þeirra við fornfranska hugtakið nains (eint. nain) með bókmenntafræðilegri nálgun. Meginkafli ritgerðarinar fjallar á sama hátt um jötna og hlistæða tengingu þeirra við fornfranska hugtakið jaiants (eint. jaiant). Í síðasta kaflanum er svo fjallað um norrænar galdrahefðir og galdratrú með hliðsjón af birtingarmynd þeirra í fornfrönskum bókmenntum.
Með ritgerð þessari vonast höfundur til að opna gátt inn á lítt kannað fræðasvið sem getur eflt og víkkað rannsóknarhugmyndir og -aðferðir fræðimanna í fornnorrænum rannsóknum.

Mánudaginn 15. mars næstkomandi mun Felix Lummer verja doktorsritgerð sína í norrænni trú við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.

Doktorsvörn í norrænni trú - Felix Lummer