Skip to main content

Doktorsvörn í næringarfræði - Ellen Alma Tryggvadóttir

Doktorsvörn í næringarfræði - Ellen Alma Tryggvadóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
7. júní 2022 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þriðjudaginn 7. júní ver Ellen Alma Tryggvadóttir doktorsritgerð sína í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Næringartengd lífmerki hjá barnshafandi konum og tengsl við meðgöngusykursýki. Assessment of nutritional biomarkers in pregnant women and associations with gestational diabetes.

Andmælendur eru dr. Kirsi Laitinen, dósent við Háskólann í Turku í Finnlandi, og dr. Sigríður Sía Jónsdóttir, dósent og forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri.

Leiðbeinendur voru Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor og Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessor, Hildur Harðardóttir, dósent og Helle Margrete Meltzer, rannsóknastjóri við Folkehelseinstituttet, Noregi.

María Guðjónsdóttir, prófessor og deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Vörninni verður streymt:

https://livestream.com/hi/dotorsvornellenalmatryggvadottir

Ágrip

Markmið doktorsverkefnisins í heild var að a) rannsaka fæðuval og bætiefnanotkun kvenna snemma á meðgöngu, með notkun á fæðutíðnispurningalista auk mælinga á lífmerkjum (greinar I-IV) og b) kanna tengsl við meðgöngusykursýki (greinar I-III). Þátttakendur voru barnshafandi konur sem mættu í fósturskimun á Landspítala við 11.-14. viku meðgöngu á tímabilinu október 2017 til mars 2018. Konurnar svöruðu fæðutíðnispurningalista auk almennra spurninga við þátttöku auk þess að veita þvag- og blóðsýni fyrir rannsóknina.

Í heild greindust 127 konur (14,9%) með meðgöngusykursýki. Um þriðjungur þátttakenda mældist með ófullnægjandi styrk 25OHD <50 nmol/L í blóði, þar af voru 5% með D-vítamínskort (25OHD <30 nmól/L). Engin skýr tengsl sáust á milli styrk 25OHD í upphafi meðgöngu og hættu á því að greinast síðar með meðgöngusykursýki. Tíðni heilkornaneyslu var lægri hjá þeim konum sem síðar greindust með meðgöngusykursýki, borið saman við þær sem greindust ekki (miðgildi 5 sinnum/viku sbr. 6 sinnum/viku, P=0,02). Þessi munur endurspeglaðist í lægri miðgildum á styrk heildar-alkylresorcinola (AR) hjá þeim konum sem greindust með meðgöngusykursýki (163 sbr. 209 nmol/L, P<0,01). Hlutfallsleg áhætta (relative risk) þess að greinast með meðgöngusykursýki var 50% (95% CI: 0,27, 0,90) lægri hjá þeim konum sem tilheyrðu efsta fjórðungi í styrk AR í blóðvökva borið saman við þær sem tilheyrðu fjórðungnum með lægstu gildi AR. Leiðréttur meðalmunur á styrk fitusýra í blóðvökva kvenna sem greindust með meðgöngusykursýki og ekki var 133 μg/mL (95% CI: 33 - 233). Jákvæð fylgni sást á milli tíðni neyslu á fiski ásamt bætiefnum sem innihalda ómega 3 fitusýrur við styrk ómega 3 fitusýra í blóðvökva (r=0,34). Neysla á vinsælli tegund meðgöngu fjölvítamíns, sem inniheldur ómega 3, tengdist hins vegar ekki styrk EPA og DHA í blóðvökva.

Niðurstöðurnar sýna að það eru tækifæri til að bæta fæðuval og D-vítamínstöðu barnshafandi kvenna á Íslandi. Tengsl heilkornaneyslu við áhættu á meðgöngusykursýki voru sannreynd með mælingum lífmerkja í blóðvökva, en það hafði ekki áður verið gert í rannsókn meðal barnshafandi kvenna. Um þriðjungur kvennanna fylgdi ráðleggingunni varðandi það að borða fisk að minnsta kosti tvisvar í viku. Um 50% tóku bætiefni sem innihalda ómega 3 fitusýrur daglega. Neysla á fiski og bætiefnum sem innihalda langar ómega-3 fitusýrur endurspeglaðist almennt í hærri styrk þeirra í blóðvökva, að undanskilinni einni tegund af meðgönguvítamíni.

English abstract

This PhD thesis aimed to (a) examine dietary intake and nutritional status in early pregnancy by means of a subjective diet screening questionnaire as well as objective biomarkers (papers I-IV) and (b) explore associations with gestational diabetes mellitus (GDM) (papers I-III). Subjects were women attending ultrasound screening at Landspítali - National University Hospital in their 11th to 14th week of pregnancy, from October 2017 to March 2018. During their visits, the women answered a diet screening questionnaire as well as background questions in addition to providing blood and spot urine samples.

GDM was diagnosed in 127 women (14.9%). Approximately one-third of the cohort had S-25OHD concentrations below adequate levels (< 50 nmol/L) during the first trimester of pregnancy, thereof 5% had deficient concentrations (25OHD <30 nmol/L). However, no clear association was observed between S-25OHD and GDM. Frequency of wholegrain intake was lower among the women who were later diagnosed with GDM, compared to those who were not (median 5 times/week vs. 6 times/week, P=0.02). This difference was reflected in lower median concentrations of alkylresorcinols (AR) among the women diagnosed with GDM (163 vs. 209 nmol/L, P<0.01). The relative risk of being diagnosed with GDM was 50% (95% CI: 0.27, 0.90) lower among individuals in the highest quartile compared to those in the lowest quartile of plasma ARs. The mean adjusted difference for total fatty acids between the women with and without GDM was 133 μg/mL (95% CI 33 to 233). There was a positive correlation between the women’s intake of all fish and total omega-3 supplements and the concentrations of plasma omega-3 fatty acids (r=0.34). No correlations were observed between a popular type of omega-3-containing multivitamin supplement and concentrations of plasma EPA and DHA (r=0.03).

These results indicate several opportunities to improve dietary quality and vitamin D status of pregnant women in Iceland. The associations of whole grain intake to GDM risk were established by measuring plasma AR concentration, something that has not been done previously in a pregnancy cohort. One third of the women followed the recommendation of eating fish at least twice weekly. About 50% had a daily intake of supplements containing omega-3 fatty acids. The intake of fish and omega-3 supplements was positively correlated with plasma EPA and DHA concentrations, except for a maternal multivitamin supplement containing omega-3.

Um doktorsefnið

Ellen Alma Tryggvadóttir er fædd árið 1980 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu árið 2009, BS-prófi í næringarfræði frá Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands árið 2012 og hlaut meistaragráðu í næringarfræði við sömu deild árið 2014. Meðfram doktorsnáminu hefur hún starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands og verkefnastjóri við Rannsóknastofu í næringarfræði. Í dag starfar Ellen sem verkefnastjóri matarstefnu hjá Reykjavíkurborg. Foreldrar Ellenar eru Tryggvi Jóhannsson tölvunarfræðingur og Guðrún Schiöth skurðtæknir. Ellen er gift Herði Skúla Daníelssyni og eiga þau dæturnar Helenu Rut og Rebekku Lind.

Ellen Alma Tryggvadóttir ver doktorsritgerð sína í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands þriðjudaginn 7. júní.

Doktorsvörn í næringarfræði - Ellen Alma Tryggvadóttir