Skip to main content

Doktorsvörn í næringarfræði

Doktorsvörn í næringarfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
11. janúar 2018 9:00 til 11:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Laufey Hrólfsdóttir ver doktorsritgerð sína í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Rannsókn á tengslum mataræðis á meðgöngu, þyngdaraukningar og heilsu barna seinna á ævinni. Examining the link between maternal nutrition, gestational weight gain, and later offspring health.

Andmælendur eru dr. Keith Godfrey, prófessor við Háskólann í Southampton, og dr. Þóra Steingrímsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Umsjónarkennarar og leiðbeinendur voru dr. Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessor við sömu deild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Sjúrdur Fróði Olsen, prófessor við Harvard School of Public Health, og dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.

Dr. María Guðjónsdóttir, dósent við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni. 

Ágrip af rannsókn Markmið doktorsverkefnisins var að bæta vísindalega þekkingu hvað varðar tengsl næringar verðandi móður, þyngdaraukningar á meðgöngu og efnaskiptaþátta barna. Enn fremur var markmiðið að greina fæðuþætti sem hafa forspárgildi þegar kemur að óhóflegri þyngdaraukningu á meðgöngu. Notast var við tvær ólíkar framvirkar ferilrannsóknir. Greinar I-III voru byggðar á gögnum frá áhorfsrannsókninni Danish Fetal Origins Cohort (DaFO88), sem hófst 1988-1989 í Árósum (n=965) og var með 20 ára eftirfylgni. Grein IV var aftur á móti byggð á nýlegum gögnum frá íslensku þýði, þ.e. PREgnant Women of ICEland (PREWICE) (n=2113). Það getur verið erfitt að nýta niðurstöður áhorfsrannsókna í klínískum aðstæðum. Að hluta til vegna þess að aðferðir sem eru notaðar til að meta fæðuval í þessum rannsóknum eru oft mjög ítarlegar og tímafrekar. Upplýsingum um mataræði í íslensku PREWICE-rannsókninni var því safnað með því að nota stuttan skimunarlista fyrir fæðuval sem gaf mynd af almennu fæðuvali þátttakenda. Niðurstöðurnar benda til þess að næring kvenna á meðgöngu og þyngdaraukning umfram ráðleggingar geti mögulega haft áhrif á gildi bólguþátta á meðgöngu og efnaskiptaþætti barna snemma á fullorðinsaldri. Þrátt fyrir að tengsl við langtímaútkomur barna væru hófleg er ekki hægt að útiloka að þessar lítilvægu breytingar geti orðið greinilegri síðar á ævinni. Niðurstöðurnar frá PREWICE-þýðinu benda einnig til þess að með því að spyrja einfaldra spurninga um fæðuval í upphafi meðgöngu, sé mögulega unnt að finna konur sem þurfa aukinn stuðning og ráðgjöf til að þyngjast í samræmi við ráðleggingar og finna konur í aukinni áhættu á því að fæða þungbura.

Um doktorsefnið
Laufey Hrólfsdóttir er fædd á Akureyri árið 1984. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri árið 2004, BS-prófi í líftækni frá Háskólanum á Akureyri fjórum árum síðar og MS-prófi í næringarfræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Meðfram doktorsnáminu hefur hún starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Laufey hefur nú verið ráðin sem forstöðumaður deildar mennta, vísinda og gæða við Sjúkrahúsið á Akureyri. Foreldrar Laufeyjar eru Hrólfur Skúlason og Hallveig Stefánsdóttir. Laufey er búsett á Akureyri ásamt sambýlismanni sínum Friðriki Ragnari Friðrikssyni og sonum þeirra, Kristófer Kató og Franz Hrólfi.

Laufey Hrólfsdóttir

Doktorsvörn í næringarfræði