Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum - Katrín Ólafsdóttir

Doktorsvörn í menntavísindum - Katrín Ólafsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. nóvember 2022 9:00 til 12:00
Hvar 

Hátíðarsalur aðalbygging Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 25. nóvember fer fram doktorsvörn við Deild menntunar og margbreytileika, Háskóla Íslands. Þá ver Katrín Ólafsdóttir doktorsritgerð sína í menntavísindum: 

Kynjað og kerfisbundið ofbeldi: Orðræðan um ofbeldi í nánum samböndum á Íslandi: Kerfislæg vandamál og þróun sjálfsmyndar

Gendered and Structural Violence: The discourse on intimate partner violence in Iceland: Structural problems and the development of the self

Andmælendur eru dr. Lisa Lazard prófessor við Open University í London og dr. Eyja Margrét Jóhönnu Brynjarsdóttir prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands.

Aðalleiðbeinandi var dr. Jón Ingvar Kjaran prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Annadís Greta Rúdólfsdóttir dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Jeff Hearn prófessor emeritus við Hanken School of Economics í Finnlandi.

Dr. Ólafur Páll Jónsson, starfandi forseti Deildar menntunar og margbreytileika stjórnar athöfninni.

Vörnin fer fram föstudaginn 25. nóvember kl. 9.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt

https://livestream.com/hi/doktorsvornkatrinolafsdottir

Öll velkomin!

---

Um verkefnið:

Kynjað og kerfisbundið ofbeldi
Orðræðan um ofbeldi í nánum samböndum á Íslandi: Kerfislæg vandamál og þróun sjálfsmyndar

Almenn umræða um ofbeldi í nánum samböndum snýst gjarnan um það hversu vel tiltekið ofbeldisatvik fellur að viðteknum hugmyndum samfélagsins um slíkt ofbeldi, sem um leið rennir frekari stoðum undir steríótýpískar hugmyndir um hvað felist í „alvöru“(þ.e. samfélagslega viðurkenndu) ofbeldi.
Markmið rannsóknarinnar er að öðlast skilning á því hvernig ofbeldi í nánum samöndum þrífst og er viðhaldið í íslensku samfélagi, með áherslu á hið gagnkynhneigða regluverk og karlkyns gerendur ofbeldis. Rannsóknin byggir á yfir 35 klukkustundum af einstaklingsviðtölum við gerendur ofbeldis, þolendur ofbeldis og hópviðtölum við ungt fólk um sambönd og samþykki. Sjónum er beint að þeim orðræðum og hrifum sem birtast í frásögnum þátttakenda, og þeir nýta sér til þess að skilja og greiða úr reynslu sinni, en rannsóknin leggur áherslu á að skoða menningarlegt og samfélagslegt samhengi ofbeldis í nánum samböndum.
Niðurstöður rannsóknaverkefnisins sýna í fyrsta lagi að skilningur ungs fólks á samþykki í kynlífi í nánum samböndum litast af kynjuðum viðmiðum og normatífri gagnkynhneigðri orðræðu. Í öðru lagi sýnir rannsóknin skýran mun á upplifun og skilningi gerenda og þolenda á ofbeldi í nánum samböndum. Gerendur einblína gjarnan á einstök (ólögleg) ofbeldisatvik á meðan þolendur greina frá sambandi sem einkennist af stöðugu ofbeldi. Að lokum kom orðræðan um menn sem beita ofbeldi í nánum samböndum sem „skrímsli“ ítrekað fram hjá þátttakendum sem skilgreina sig sem gerendur ofbeldis. Skrímslið er fulltrúi hins óþekkta og verður því fyrir öðrun. Þetta gerir það að verkum að gerendur eru tregir til að líta í eigin barm, horfast í augu við hugmyndir sínar um karlmennsku og taka ábyrgð á ofbeldisfullri hegðun sinni.
Rannsóknarverkefnið sýnir glöggt dulin valdatengsl og kynjaðar víddir gagnkynhneigðra sambanda og ofbeldis í nánum samböndum, í landi sem gjarnan er álitið skara fram úr í kynjajafnrétti.

Um doktorsnefnið:
Katrín Ólafsdóttir er fædd í Reykjavík 1982. Hún lauk BA og MA gráðu í sagnfræði frá Háskólanum í Stokkhólmi, 2006 og 2008. Árið 2010 lauk Katrín kennsluréttindanámi sem framhaldsskólakennari frá Háskóla Íslands.
Katrín starfaði sem framhaldsskólakennari frá 2010-2018. Frá árinu 2018 hefur Katrín gegnt stöðu aðjúnkts og sinnt rannsóknum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands á sviði gagnrýninna fræða með áherslu á kyngervi, valdasamspil, ofbeldi í nánum samböndum og hrifkenningar. Katrín var formaður FEDON 2020-2022. Katrín er gift Vigni Hafsteinssyni og saman eiga þau tvö börn, Styrkár Bjarna og Flóka Hrafn.