Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum: Karen Elizabeth Jordan

Doktorsvörn í menntavísindum: Karen Elizabeth Jordan - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. apríl 2022 12:30 til 14:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Streymi: https://livestream.com/hi/doktorsvornkarenelizabethjordan

Doktorsefni: Karen Elizabeth Jordan

Heiti ritgerðar: Að flétta saman skapgerðarmenntun og mikilvægi gilda innan umhverfis- og  sjálfbærnimenntunar: Þverfræðileg rannsókn á sameiginlegum flötum, átakapólum og möguleikum

Aðalleiðbeinandi: dr. Ólafur Páll Jónsson prófessor við Menntavísindasvið og meðleiðbeinandi dr. Stephen Gough prófessor við Háskólann í Bath í Englandi.

Andmælendur eru dr. Randall Curren prófessor við Háskólann í Rochester í Bandaríkjunum og dr. Elsa Lee dósent við Cambridge háskólann í Englandi.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Kristján Kristjánsson prófessor við Háskólann í Birmingham í Englandi.                                                

Dr. Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, forseti Deildar menntunar og margbreytileika stjórnar athöfninni.

Um verkefnið:

Þótt lögð sé rækt við gildi innan umhverfis- og sjálfbærnimenntunar, og breytt gildismat talið forsenda sjálfbærrar framtíðar, hafa kennarar oft óljósar eða mótsagnakenndar hugmyndir um hvort og hvernig ætti að vinna með gildi í menntun. Í þessari þverfræðilegu rannsókn er skoðað hvernig hugmyndir frá skapgerðarmenntun geti stutt við gildamenntun innan umhverfis- og sjálfbærnimenntunar. Rannsóknin skiptist í þrjá hluta: Fyrsti hlutinn er heimspekileg rannsókn innan aristótelískrar dygðasiðfræði. Annar hlutinn er tilviksrannsókn sem unnin var í grunnskóla í Skotlandi sem vinnur í anda heilstæðrar menntunar. Þriðji hlutinn er Delfí-rannsókn þar sem tólf sérfræðingar í umhverfis- og sjálfbærnimenntun annars vegar og skapgerðarmenntun hins vegar tóku þátt í stýrðri hópsamræðu í gegnum tölvupóst.

Niðurstöður benda til að leggja megi sameiginlegan grunn að umhverfis- og sjálfbærnimenntun og skapgerðarmenntun með því að vinna með skólamenningu og fyrirmyndir, byggja á menntun í tengslum við sjálfboðaliðastarf, nota reynslunáms, líta á manneskjuna sem eina heild (höfuð, hönd og hjarta), beina athygli að tengslum manns og náttúru, og með því að taka markmið menntunar til skoðunar, ekki síst í gegnum andóf gegn áhrifum tæknihyggju og nýfrjálshyggju. Niðurstöður leiða einnig í ljós átakapóla á milli umhverfis- og sjálfbærnimenntunar annars vegar og skapgerðarmenntunar hins vegar. Sjá má að áhersla á lýðræði og fjölhyggju valdi núningi við gildagrunn sviðanna tveggja auk þess sem einstaklingshyggja sem oft virðist einkenna skapgerðarmenntun rekist á samfélagsáherslur umhverfis- og sjálfbærnimenntunar. Sameiginlegir fletir vísa til möguleika á samþættingu á meðan átakapólarnir skapa hindrani.

Um doktorsefni:

Karen Elizabeth Jordan fæddist í Devon, Englandi, árið 1980. Hún útskrifaðist með BS-gráðu í umhverfislíffræði frá Aberystwyth Háskólanum árið 2003, diplómu í kennslufræði frá Oxford Brookes Háskólanum árið 2008, og meistaragráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Hún hefur starfað við ýmis verkefni á sviði sjálfbærni í yfir 20 ár, allt frá skýrslugerð fyrir NGO Global Justice Now í Skotlandi, og þróun skólaverkefna fyrir Hvalasafnið á Húsavík. Frá árinu 2012 hefur Karen stundað rannsóknir og kennslu á sviði umhverfis- og sjálfbærnimenntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Doktorsefni: Karen Elizabeth Jordan Heiti ritgerðar: Að flétta saman skapgerðarmenntun og mikilvægi gilda innan umhverfis- og  sjálfbærnimenntunar: Þverfræðileg rannsókn á sameiginlegum flötum, átakapólum og möguleikum

Doktorsvörn í menntavísindum: Karen Elizabeth Jordan