Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum: Ingólfur Gíslason

Doktorsvörn í menntavísindum: Ingólfur Gíslason - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. mars 2023 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur, Aðalbygging.

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Ingólfur Gíslason ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild menntunar og margbreytileika.

Vörnin fer fram mánudaginn 6. mars kl. 13.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt hér 

Heiti ritgerðar:  Merkingarsköpun nemenda í stærðfræði í framhaldsskóla með kennara sem leggur áherslu á samræður og notkun tölvutækni.

Andmælendur: Dr. Núria Planas prófessor við Universitat Autònoma de Barcelona á Spáni og dr. Ann-Sofi Röj-Lindberg dósent við Åbo Akademi í Finnlandi. 

Aðalleiðbeinandi: Dr. Ólafur Páll Jónsson prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Meðleiðbeinandi: Dr. Simon Goodchild, prófessor við Háskólann í Agder í Noregi.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Bharath Sriraman, prófessor við University of Montana í Bandaríkjunum. Dr. Berglind Rós Magnúsdóttir forseti Deildar menntunar og margbreytileika stjórnar athöfninni.

Um verkefnið: 

Margir nemendur upplifa stærðfræði sem tilgangslausa og óviðkomandi lífi sínu utan skólakerfisins. Því hafa stærðfræðimenntafræðingar kallað eftir meiri áherslu á merkingarsköpun og samræður í stærðfræði og sumir hafa rökstutt að tölvutækni geti umbreytt stærðfræðikennslu. Hefðbundnar aðferðir eru þó enn ríkjandi og tækni hefur haft takmörkuð áhrif á kennslu.

Doktorsrannsóknin beinist að merkingarsköpun íslenskra framhaldsskólanema á fyrsta ári í stærðfræðitímum. Flestir nemendur í hópnum höfðu ekki náð góðum árangri í stærðfræði áður samkvæmt viðmiðum skólakerfisins. Kennslufræði kennarans byggði á því að draga nemendur inn í samræður um stærðfræðiverkefnin. Slíkar samræður ganga út á að rannsaka saman spurningar, setja fram tilgátur og sannfæra aðra um þær. Sum verkefnin voru sérstaklega hönnuð í samstarfi kennara og rannsakanda til að stuðla að merkingarsköpun í samræðum, sér í lagi verkefni þar sem nemendur notuðu kvikt rúmfræðiforrit.

Hópurinn var tekinn upp á myndband yfir eina önn og samskipti og athafnir nemenda voru greind út frá samræðusjónarmiði (dialogism) til að túlka þá merkingu sem nemendur sköpuðu saman í verkefnavinnunni. Greiningin sýnir hvernig kennari getur dregið nemendur inn í stærðfræðilega samræðu þar sem nemendur upplifa ánægju af því að skapa stærðfræðilega merkingu jafnvel þó að nemendur hafi haft neikvæða reynslu af stærðfræði áður. Hún sýnir einnig að slík merkingarsköpun er langt frá því að vera línulegt ferli heldur einkennist hún af ýmsum togstreitum.

Meðal annars takast á sjónarhorn hlutfirringar (abstraction) og sjónarhorn „raunveruleikans“, viðmið stærðfræðinnar um skýrleika togast á við hversdagsleg viðmið, þar sem ætlast er til að viðmælendur geti í eyðurnar til að skilja hvað aðrir eiga við, hugmyndir um stærðfræði sem ferli könnunar-tilgátna-sannfæringar takast á við markmið nemenda um að ljúka skylduverkefnum, og tilhneiging fólks til að álykta út frá því sem virðist sjónrænt ljóst togast á við viðmið stærðfræðinnar um að rökstyðja ályktanir út frá skilgreindum eiginleikum.

Samkvæmt niðurstöðum skiptir sköpum fyrir kennara að taka afstöðu með samræðunni. Þeirri afstöðu verður að fylgja næmni á það flókna ferli sem það er að tileinka sér stærðfræðilega orðræðu. Það ferli felur í sér að nemendur þróa sínar eigin leiðir til að lýsa venslum á sífellt nákvæmari hátt vegna þess að þeir þurfa að gera hugsunina öðrum ljósa. Einnig þarf kennari að tengja leiðir nemenda við hefðbundnar leiðir stærðfræðinnar til að tjá tengsl, þar á meðal þær sem hægt er að nota til að búa til grafísk líkön með stærðfræðihugbúnaði.

Um doktorsefni:

Ingólfur Gíslason fæddist í Reykjavík árið 1974. Hann lauk B.S. prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands 1998 og M.Paed. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands 2006. Ingólfur er aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands síðan 2016, en kenndi áður stærðfræði, einkum á framhaldsskólastigi. Foreldrar Ingólfs eru Arnheiður Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur og Gísli Sigurkarlsson lögfræðingur (1942-2013). Eiginkona Ingólfs er dr. Guðrún Sif Friðriksdóttir mannfræðingur. Dóttir þeirra er Vaka og sonur Ingólfs er Flóki.

Öll velkomin / Fylgjast með doktorsvörn í streymi hér

Ingólfur Gíslason

Doktorsvörn í menntavísindum: Ingólfur Gíslason