Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum: Björk Ólafsdóttir

Doktorsvörn í menntavísindum: Björk Ólafsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
3. október 2023 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Björk Ólafsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði við Háskóla Íslands.

Vörnin fer fram þriðjudaginn 3. október kl. 13.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.

Hlekkur á streymi hér

Heiti ritgerðar: Uppruni, notkun og áhrif ytra mats á skólastarf grunnskóla á Íslandi.

Andmælendur: Dr Melanie Ehren við Vrije Universiteit Amsterdam og Elisabet Nihlfors prófessor emerita við Uppsalaháskóla.  

Aðalleiðbeinandi: Dr. Jón Torfi Jónasson prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Meðleiðbeinandi: Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Rúnar Sigþórsson prófessor emeritus við Háskólann á Akureyri.

Dr. Kristín Jónsdóttir, forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði stjórnar athöfninni.

Verið öll velkomin.

Um verkefnið:

Doktorsverkefnið var langtímarannsókn unnin með blönduðu rannsóknarsniði (e. mixed method design) og stuðst var við viðhorfakannanir, viðtöl og greiningu fyrirliggjandi gagna. Markmið rannsóknarinnar voru tvíþætt. Annars vegar að varpa ljósi á hvernig ytra mat á grunnskólastarfi er tilkomið og hvernig það hefur þróast til dagsins í dag. Hins vegar að hvaða marki væntingar til skólanna um að nýta niðurstöður matsins til umbóta hafa orðið að veruleika og hvaða áhrif matsendurgjöfin hefur haft á breytingar á námi og kennslu, stjórnun og innra mati að mati kennara og skólastjóra.

Niðurstöður sem lúta að fyrra markmiðinu sýndu að upphaf hugmynda og mótun stefnu um ytra mat á grunnskólum megi rekja til umbótaaðgerða í opinberri stjórnsýslu sem áttu sér stað víða um heim frá níunda áratug síðustu aldar. Það var þó ekki fyrr en í byrjun annars áratugar tuttugustu og fyrstu aldar sem farið var af stað með reglubundið ytra mat á grunnskólum utan Reykjavíkur. Niðurstöður sem snúa að síðara markmiðinu gáfu til kynna að endurgjöf ytra matsins hafi nýst skólunum í ýmsum tilgangi og hafi stuðlað að umbótum á starfsháttum kennara og skólastjóra og einnig á innra mati í flestum skólanna. Viðhorf meðal bæði kennara og skólastjóra til endurgjafarinnar var að jafnaði jákvætt og þeir voru almennt samþykkir henni―en samþykkt endurgjafar reyndist vera sá þáttur sem hafði mest áhrif á hvort niðurstöður væru nýttar til umbóta innan skólanna.

Með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarinnar og fræðilegum grunni hennar eru settar fram ábendingar til miðlægra og staðbundinna stjórnvalda og til skólanna sjálfra um þætti til að hafa í huga í því skyni að auka notkun og áhrif ytra mats. Rannsóknin er fræðilegt og hagnýtt innlegg í yfirstandandi umræðu um aukin gæði í skólastarfi í þágu farsældar barna.

Um doktorsefnið

Björk er fædd á Akranesi 1965. Hún lauk prófi frá Fósturskóla Ísland 1986, B.A. prófi í þýsku frá Háskóla Íslands 1998, M.A.prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá sama skóla 2006 og diplóma í gæðastjórnun frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2010. Björk hefur starfað sem matssérfræðingur hjá Menntamálastofnun frá 2015 og stundaði doktorsnámið samhliða því starfi. Áður hafði hún starfað sem matssérfræðingur hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, verið stundakennari við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, rekið eigið matsfyrirtæki og starfað sem kennari og deildarstjóri á leikskóla. Björk er gift Kristjáni Zophoníassyni og eiga þau synina Inga Þór, Arnar Breka og Huga Snæ, tengdadótturina Ewelinu og barnabarnið Díönu Líf.   

.

Doktorsvörn í menntavísindum: Björk Ólafsdóttir