Skip to main content

Doktorsvörn í matvælafræði - Stefán Þór Eysteinsson

Doktorsvörn í matvælafræði - Stefán Þór Eysteinsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
29. apríl 2020 13:30 til 16:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur/streymi

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Miðvikudaginn 29. apríl ver Stefán Þór Eysteinsson doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Vörninni verður streymt: https://livestream.com/hi/stefanthoreysteinsson

Ritgerðin ber heitið: 

Eiginleikar rauðátu (Calanus finmarchicus) og nýtingarmöguleikar úr hliðarstraumum frá vinnslu uppsjávarfiska

Andmælendur eru dr. Ragnar Ludvig Olsen, prófessor við Norges fiskerihögskole, og dr. Hjörleifur Einarsson, prófessor og deildarformaður auðlindadeildar við Háskólann á Akureyri.

Leiðbeinendur og umsjónarkennarar voru dr. María Guðjónsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, dr. Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, og dr. Sigrún Jónasdóttir, prófessor við Danmarks Tekniske Universitet í Kaupmannahöfn. Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Ástþór Gíslason, prófessor hjá Hafrannsóknastofnun.

Ólöf Guðný Geirsdóttir, prófessor og forseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:30.

Ágrip  

Aukin eftirspurn sjávarafurða hefur síðustu 40 ár valdið aukinni ofveiði fiskstofna í höfum heimsins. Því er leitað í auknum mæli að öðrum hráefnum úr hafinu sem hægt er að nýta með sjálfbærum hætti. Hafa augu manna beinst að mögulegri notkun á dýrasvifi til framleiðslu á næringarefnum eins og fjölómettuðu ómega-3 fitusýrunum eikósapentaensýru (EPA, C20:5n3) og dókósahexaensýru (DHA, C22:6n3). Rauðáta finnst í gríðarlegu magni í hafinu í kringum Ísland og er meginuppistaðan í fæðu makríls sem verður til þess að mikið magn af rauðátu berst á land við vinnslu á honum. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að rannsaka eiginleika rauðátu við Ísland og meta fýsileika þess að nýta hana þegar hún er veidd sem meðafli með uppsjávarfiski, s.s. makríl á sjálfbæran hátt. Fitusamsetning rauðátu gerir hana t.d. verðmæta fyrir fiskiolíuframleiðslu til manneldis, auk þess sem hún er rík af astaxanthíni og kítíni. Með því að skoða fitusýrur sem líffræðileg sporefni (e. fatty acid trophic markers) var áætlað að rauðáta væri mikilvægasta einstaka dýrasvifstegundin í fæðu makríls. Áturíkt hliðarhráefni sem einangra má við vinnslu á makríl í landi einkenndist af háu magni fjölómettuðu ómega-3 fitusýrana EPA og DHA. Fitustöðugleiki og -gæði áturíka hráefnisins var mikill en var háður tímanum frá veiðum að vinnslu. Rauðáta sem berst á land sem hliðarhráefni hefur mikla möguleika fyrir áframhaldandi vinnslu í afurðir til manneldis þar sem hún er rík af fjölómettuðu ómega-3 fitusýrunum EPA og DHA, auk astaxanthíns og kítíns.   

Abstract

The demand for marine-derived nutrients has caused an increase in the overexploitation of fishery stocks in the past 40 years. These circumstances have led to a search for alternative sources of marine nutrients that can be sustainably utilized. One of the alternative sources now being utilized in the production of marine nutrients, such as the omega-3 polyunsaturated fatty acids (n-3 PUFA) eicosapentaenoic acid (EPA, C20:5n3) and docosahexaenoic acid (DHA, C22:6n3), is zooplankton. C. finmarchicus is the most abundant zooplankton in Icelandic waters and is the main prey of mackerel, and as a result, is present in large quantities in pelagic processing plants. The objective of the study was to examine C. finmarchicus in Icelandic waters and to estimate the feasibility of utilizing it when caught as a side-catch during pelagic fishing in a sustainable manner. The lipid composition of C. finmarchicus makes it valuable for oil production due to its high concentrations of EPA and DHA, astaxanthin, and chitin. Using the fatty acid trophic marker (FATM) method, C. finmarchicus was identified as an important food in the diet of mackerel in Icelandic waters. A zooplankton rich side-stream within the pelagic processing plant was characterized as having high amounts of EPA and DHA. The lipid stability of the zooplankton rich side-stream was relatively high but was highly dependent on the time that elapsed from catching until processing. Overall, the zooplankton rich side-stream was identified as a promising raw material capable of providing high amounts of EPA and DHA for human consumption.                           

Um doktorsefnið

Stefán Þór Eysteinsson er fæddur í Neskaupstað árið 1987. Hann lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskóla Austurlands árið 2006, BA-prófi í líffræði árið 2011 frá Gonzaga University í Bandaríkjunum og meistaragráðu í matvælafræði árið 2016 frá Háskóla Íslands. Stefán hefur samhliða doktorsnáminu starfað sem sérfræðingur hjá Matís ohf. sem og sinnt kennslu og leiðbeinslu nemenda við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Faðir Stefáns er Eysteinn Þór Kristinsson og móðir er Hjördís Stefánsdóttir. Kona Stefáns er Freyja Viðarsdóttir efnaverkfræðingur og sonur þeirra er Garðar Þór Stefánsson, þriggja ára gamall.

Stefán Þór Eysteinsson ver doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands miðvikudaginn 29. apríl

Doktorsvörn í matvælafræði - Stefán Þór Eysteinsson