Skip to main content

Doktorsvörn í mannfræði - Björk Guðjónsdóttir

Doktorsvörn í mannfræði - Björk Guðjónsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
19. september 2019 10:00 til 12:00
Hvar 

Hátíðasalur Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni: Björk Guðjónsdóttir 

Heiti ritgerðar: „Kjarkur til að breyta“: Mótun breyttrar sjálfsmyndar kvenna við langvarandi þátttöku í Al-Anon fjölskyldusamtökunum á Stór-Reykjavíkur svæðinu (e. “Courage to Change“: The Transformation of Personal Identity in Long-Term Female Participants of the Al-Anon Family Group in the Greater Reykjavik Area).

Andmælendur: Dr. Kristín Björnsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði við Háskóla Íslands og dr. Guðrún Haraldsdóttir frá háskólanum í Cambridge, Englandi.

Leiðbeinandi: Dr. Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Félagsfræði- mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd: Dr. Erica Prussing, prófessor í mannfræði við University of Iowa. USA, dr. Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði við Félagsfræði- mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands og dr. Hildigunnur Ólafsdóttir, hjá Reykjavíkur Akademíunni.

Doktorsvörn stýrir Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs.

Um doktorsefnið

Björk Guðjónsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1941. Hún lauk prófi frá Hjúkrunarkvennaskóla Íslands árið 1963. Lauk sérnámi í geðhjúkrun frá Nýja hjúkrunarskólanum árið 1981. Hún hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur við geðdeildir Landspítala frá árinu 1967 til 2003, þar af um 25 ár á Göngudeild fyrir áfengissjúklinga við Hringbraut, Reykjavík. Björk lauk BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og MA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands 2010.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um rannsóknina með því að senda póst á bjorkgu@hi.is.

Efniságrip

Al-Anon fjölskyldusamtökin eru fyrir aðstandendur alkóhólista og grundvölluð á hugmyndafræði Alcoholics Anonymous (AA). Í ritgerðinni er leitast við að skýra hvernig sjálfsmynd aðstandanda breytist við lang-tíma þátttöku í Al-Anon samtökunum og hvaða áhrif tengsl þátttakenda innan samtakanna hefur á þessa breytingu. Ritgerðin er mikilvægt framlag til þróunar þekkingar á Al-Anon samtökunum og hvernig samkennd er búin til og viðhaldið hjá langtíma þátttakendum. Ritgerðin gefur einnig innsýn í uppruna og sögu Al-Anon á Íslandi.

Ritgerðin er mannfræðileg og byggir á eigindlegum rannsóknarhefðum. Hún notar klassiskar kenningar úr félagsvísindum til að greina og skilja það ferli sem leiðir til breytingar á sjálfsmynd þátttakenda Al-Anon, þá sérstaklega kenningar Pierre Bourdieu, Emile Durkheims og Marcel Mauss.

Til að útskýra sjálfsmyndarbreytinguna hjá langtíma þátttakendum er habitus hugtak mannfræðingsins Bourdieu frá 1977 notað, en hugtakið lýsir ómeðvitaðri formgerð sem einkennir hugsun, skynjun, gildum, hegðun og mati þeirra sem alast upp við svipuð lífskilyrði. Þátttakendur lýsa því að við upphaf þátttöku í Al-Anon hafi sjálfsmynd þeirra verið þeim þungbær, en að áframhaldandi þátttaka leiddi til jákvæðrar breytingar á sjálfsmynd, breyttu viðhorfi til lífsins og til vímuefnaneytandans, sem er langtímaverkefni.

Ennfremur lýstu þátttakendur þeirri samkennd sem einkennir starfið og því hvernig hugmyndafræði, formgerð og siðir Al-Anon samtakanna stuðla að félagslegri samvitund og samfélagslegum tengslum meðal þátttakenda, sem leiðir til hægfara breytinga á sjálfsmynd þeirra og hægt er að útskýra með hugmyndum félagsfræðingsins Durkheim um samvitund hópa (e. collective conscience) sem byggist á því að félagsleg sjálfsýn einstaklingsins sé samnefnari heildarinnar.

Á fundum hjá Al-Anon miðla þátttakendur lífsreynslu sögum, sem eru sagðar á mjög formfastan hátt, og endursagðar aftur og aftur, til uppgjörs við fortíðina og hæga endurbyggingu sjálfsmyndar. Þetta ferli er hægt er að túlka með hugtaki mannfræðingsins Mauss (2011) um gagnkvæm gjafaskipti (e. the reciprocal gift) og er einn af aðal þáttum í því breytingaferli sem þátttakendur upplifa á sjálfsmynd sinni. Með þessum svokölluðum gjafaskiptum er ekki aðeins formgerð, siðum og hugmyndafræði samtakanna viðhaldið, heldur leiða gjafaskiptin til virkrar hlustunar (e. listening that is a doing).  

Doktorsefni: Björk Guðjónsdóttir 

Doktorsvörn í mannfræði - Björk Guðjónsdóttir