Skip to main content

Doktorsvörn í lyfjavísindum - Eydís Einarsdóttir

Doktorsvörn í lyfjavísindum - Eydís Einarsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
18. ágúst 2017 13:00
Hvar 

Askja

N-132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Eydís Einarsdóttir ver doktorsritgerð sína í lyfjavísindum við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Ritgerðin ber heitið: Leit að lyfjavirkum efnasamböndum úr íslenskum sjávarhryggleysingjum (e. Searching for bioactive secondary metabolites from Icelandic marine invertebrates).

Andmælendur eru dr. Deniz Tasdemir, prófessor við Geomar Helmholtz for Ocean Research í Kiel, Þýskalandi, og Guðmundur G. Haraldsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari og aðalleiðbeinandi var dr. Sesselja Ómarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, og leiðbeinandi með henni var dr. Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við sömu deild. Að auki sátu í doktorsnefnd dr. Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og  Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Dr. Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor og forseti Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í sal 132 í Öskju og hefst kl. 13.00.

Ágrip af rannsókn

Lyfjavirk efnasambönd úr sjávarhryggleysingjum hafa vakið áhuga vísindamanna vegna fjölbreytileika efnasambanda sem þar er að finna. Mörg þessara efna hafa reynst lífvirk og jafnvel haft notagildi gegn hinum ýmsu sjúkdómum.

Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka hvort íslenskir sjávarhryggleysingjar hefðu að geyma ný lífvirk efnasambönd sem gætu reynst áhugaverð til frekari þróunar á nýjum lyfjum.

Áhersla var lögð á að skima eftir hamlandi áhrifum misskautaðra úrdrátta á brjóstakrabbameinsfrumur í rækt, auk þess að skima eftir ónæmistemprandi áhrifum á angafrumur í rækt, með því að meta áhrif á sérhæfingu angafrumnanna. Úrdrættir sem sýndu jákvæðar niðurstöður voru þáttaðir niður og einangraðir í hrein efnasambönd og efnabyggingar þeirra skilgreindar.

Rannsóknir voru gerðar á efnainnihaldi 28 svampa sem safnað var á strýtunum í Eyjafirði og samhliða var framkvæmd skimun fyrir hemjandi áhrifum þeirra á krabbameinsfrumur. Efnagreining með vökvagreini tengdum massagreini (LC-MS/MS) og frumþáttargreining (principal component analysis – PCA) voru notaðar til þess að flokka efnaþætti í hverjum úrdrætti fyrir sig. Niðurstöðurnar voru síðan bornar saman við niðurstöður úr lífvirkniprófunum á brjóstakrabbameinsfrumur. Átta úrdrættir úr fimm tegundum svampa (Haliclona rosea, Halichondria sitiens, Halichondria panicea, Myxilla incrustans and Lissodendoryx fragilis) reyndust hemja frumulifun meira en 50%.

Þar að  auki, voru þrjú ný  efnasambönd einangruð úr svampinum Myxilla incrustans og voru þau nefnd myxillin A, B og C. Þessi efni sýndu ónæmisstýrandi áhrif í in vitro angafrumulíkani.

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru þær fyrstu sem rannsaka annars stigs efnasambönd úr íslenskum sjó og benda til þess að íslenskir sjávarhryggleysingjar og þá sérstaklega svampar hafi að geyma áhugaverð efnasambönd sem gætu reynst lyfjasprotar framtíðarinnar. Hverastrýturnar í Eyjafirði voru sérstakur söfnunarstaður í þessu verkefni.

Um doktorsefnið

Eydís Einarsdóttir lauk BSc-gráðu í lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og MSc-gráðu í lyfjavísindum frá sama skóla þremur árum síðar. Eydís, sem starfar hjá Alvotech, á tvö börn - þau Agnesi Sjöfn 15 ára og Hrafnkel Loga 11 ára.