Skip to main content

Doktorsvörn í lyfjafræði

Doktorsvörn í lyfjafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
22. nóvember 2017 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sunna Jóhannsdóttir ver doktorsritgerð sína í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Sýklódextrínöragnir sem augnlyfjaferjur fyrir litlar lyfjasameindir, peptíð og prótein. Cyclodextrin nanoparticles in ocular drug delivery for small molecular weight drugs as well as for peptide and protein drugs.        

Andmælendur eru dr. Lajos Szente, framkvæmdastjóri CycloLab Ltd í Ungverjalandi, og dr. Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild. Að auki sátu í doktorsnefnd Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild, Auður Magnúsdóttir, deildarforseti við Landbúnaðarháskóla Íslands, dr. Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor og deildarforseti við Lyfjafræðideild, og dr. Kim Lambertsen Larsen, dósent við Álaborgarháskóla.

Dr. Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor og forseti Lyfjafræðideildar, stjórnar athöfninni.

Ágrip af rannsókn
Verkefnið fjallar um hönnun augndropa sem innihalda hjálparefnið sýklódextrín. Lyfjameðhöndlun augnsjúkdóma getur reynst erfið vegna flókinna lífeðlisfræðilegra eiginleika augans. Ef hefðbundin lyfjagjöf, þ.e. í formi augndropa, á að reynast árangursrík þarf lyfið að búa bæði yfir vatnsleysanlegum eiginleikum, svo lyfið komist yfir táravökvann að yfirborði augans, og fituleysanlegum eiginleikum, til að frásogast yfir vefi augans. Varnareiginleikar augans, aukin táraframleiðsla og tíðni blikka, gera það að verkum að lyfið nær einungis að haldast á auganu í stuttan tíma áður en því er skolað í burtu en það leiðir til minna frásogs lyfsins.  
Sýklódextrín eru hjálparefni sem notuð eru við lyfjagerð til að auka leysanleika og stöðugleika lyfja í vatni. Sýklódextrín geta myndað fléttur við fitusækin torleysanleg lyf og aukið leysni þeirra, en flétturnar geta hópað sig saman og myndað nanóagnir.  
Í verkefninu var leitast við að sýna hvernig dexametasón (augnlyf) í sýklódextrín/dexametasón nanóögnum berst frá yfirborði augans til bakhluta þess í kanínum, en slík lyfjaferja gæti t.d. komið í stað inngripsmeiri lyfjagjafa með sprautu.
Þá fjallar verkefnið einnig um þróun sýklósporín augnlyfs (peptíð lyf) með notkun sömu tækni og áður hefur verið lýst auk prófunar þess á kanínum. Að lokum fjallar verkefnið un þróun lýsósým (prótein) augndropa, en ekki reyndist unnt að nota áðurnefnda tækni við þróun slíkra augndropa.

Um doktorsefnið
Sunna Jóhannsdóttir er fædd 1985. Hún lauk BS-gráðu í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og MS-gráðu í lyfjafræði frá sama skóla þremur árum síðar. Sunna starfar hjá Oculis Pharma ehf. og sambýlismaður hennar er Ívar Már Ottason.