Skip to main content

Doktorsvörn í lyfjafræði

Doktorsvörn í lyfjafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
21. nóvember 2017 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Maonian Xu ver doktorsritgerð sína í lyfjavísindum við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Þróunarsögulegur og efnafræðilegur skyldleiki hjá íslenskum jöfnum og fjallagrasalíkum tegundum íslenskra fléttna. Phylogeny and phytochemistry of Icelandic cetrarioid lichens and club mosses.

Andmælendur eru dr. Thomas Ostenfeld Larsen, prófessor við Danmarks Tekniske Universitet – DTU, og  dr. Ólafur Andrésson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari og aðalleiðbeinandi var dr. Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, og leiðbeinandi með henni var dr. Sesselja Ómarsdóttir, prófessor við sömu deild. Að auki sátu í doktorsnefnd dr. Starri Heiðmarsson, grasafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands,   Margrét Þorsteinsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands,  og Nina Rønsted, prófessor við Botany  Natural History Museum of Denmark og Kaupmannahafnarháskóla.

Dr. Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor og forseti Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

  

Ágrip af rannsókn

Plöntur, auk ýmissa annarra lífvera, eru mikilvæg uppspretta nýrra efnabygginga til lyfjaþróunar. Sum þessara lyfjaefna hafa uppgötvast við rannsóknir á hefðbundinni notkun planta í alþýðulækningum. Samanburður á nýtingu lækningajurta í ólíkum samfélögum hefur leitt í ljós að þær eru algengari á ákveðnum greinum þróunarsögutrésins og sú þekking gæti auðveldað leitina að nýjum lyfjaefnum í jurtum og gert hana markvissari. Cetraria islandica, eða fjallagrös, er fléttutegund sem er nýtt í hefðbundnum lækningum til að meðhöndla bólgukvilla, s.s. í lungum og meltingarvegi. Kínverski jafninn Huperzia serrata er notaður gegn Alzheimerssjúkdómi en Huperzia tegundir framleiða lífvirka alkalóíðann huperzine A.

Markmið verkefnisins var að kanna tengsl á milli þróunarsögulegs og efnafræðilegs skyldleika hjá jöfnum og fjallagrasalíkum fléttum á Íslandi. DNA strikamerking og þróunarsögulegar greiningar voru nýttar til að afhjúpa innbyrðis skyldleika tegundanna og umbrotsefnasamsetning var greind með UPLC-ESI-QToF-massagreiningu.

Marktæk tengsl milli þróunarsöguskyldleika og umbrotsefnasamsetningar fundust í fjallagrösum og skyldum Cetraria tegundum þar sem paraconicsýrur eru helstu fléttusýrurnar. PCA fjölbreytugreining á umbrotsefnasamsetningu aðgreindi ólíkar fléttutegundir, nema hvað paraconicsýruframleiðendur mynduðu óuppleyst hneppi. OPLS-DA greining leiddi í ljós breytur sem eru marktækar við aðgreiningu sýna. Í fléttutegundinni Cetrariella delisei fundust tvær nýjar tegundir Trebouxia þörungs. Þróunarsögugreiningar á íslenskum jöfnum í alþjóðlegu samhengi sýndu tilvist einætta ættkvísla og undirætta en greindi ekki allar tegundir af ættkvíslinni Huperzia. Magn huperzine A var ákvarðað í Huperzia selago og fannst meira magn í útlitsafbrigði með útstæð blöð. Samkeyrsla þróunarsögulegs og efnafræðilegs skyldleika í þessu verkefni bendir til gagnsemi þess við leit að lyfjafræðilega áhugaverðum tegundum eða afbrigðum meðal flétta og jafna.

  

Um doktorsefnið

Maonian Xu lauk BS-gráðu í matvælafræði frá Northwest Agriculture & Forestry University í Kína árið 2010 og MS-gráðu í matvælafræði frá Háskólanum í Helsinki þremur árum síðar. Maonian, sem er kvæntur Yuetuan Zhang doktorsnema, hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2014.