Skip to main content

Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum - Álfheiður Haraldsdóttir

Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum - Álfheiður Haraldsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
21. febrúar 2020 9:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 21. febrúar ver Álfheiður Haraldsdóttir doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Tengsl vaxtarhraða á unglingsárum og mataræðis á lífsleiðinni við brjóstakrabbameinsáhættu. The role of adolescent growth rate and diet across the lifespan in breast cancer risk.

Andmælendur eru dr. Heather Eliassen, dósent við Harvard T.H. Chan School of Public Health í Bandaríkjunum, og dr. Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari var dr. Laufey Steingrímsdóttir, prófessor emerita við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, og leiðbeinandi var dr. Jóhanna Eyrún Torfadóttir, aðjunkt við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Heilbrigðisvísindasvið. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Heilbrigðisvísindasvið, Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands og Hans-Olov Adami, prófessor emeritus við Karolinska Institutet í Svíþjóð.

Ólöf Guðný Geirsdóttir, prófessor og forseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands og hefst kl. 9:00.

Ágrip

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein meðal kvenna í dag. Helstu áhættuþættir tengjast æxlunarþáttum en einnig hreyfingu, áfengisneyslu og líkamsþyngd. Mataræði er einnig talið tengjast áhættunni við að greinast með meinið þótt niðurstöður rannsókna séu misvísandi og óljósar. Fáar rannsóknir hafa verið birtar um tengsl brjóstakrabbameins og mataræðis og vaxtar á unglingsárum, þegar brjóstvefurinn er að vaxa og þroskast. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var því að efla þekkingu á tengslum vaxtarhraða í æsku og mataræðis á lífsleiðinni við brjóstakrabbameinsáhættu.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að bæði mataræði á unglingsárum og vaxtarhraði tengist brjóstakrabbameinsáhættu síðar á ævinni. Rífleg neysla á fiski og haframjöli tengdust minni áhættu en mikil rúgbrauðsneysla á unglingsárum sem og á miðjum aldri tengdist aukinni áhættu að greinast með meinið. Þá reyndist hraður vöxtur á unglingsárum auka áhættuna og einnig voru vísbendingar um að fæðumynstur á efri árum sem einkenndist af sætmeti tengdist aukinni áhættu. Þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi lífshátta, bæði á fyrri hluta ævinnar en einnig síðar á ævinni, í þróun brjóstakrabbameins og eru mikilvægt framlag til aukinnar þekkingar á flóknum tengslum mataræðis og brjóstakrabbameins.

Abstract

Breast cancer is currently the most common cancer among women. Risk factors mostly involve host, reproduction and lifestyle factors, like physical activity, alcohol consumption and body weight. Diet is also thought to influence breast cancer development although studies on the subject have been inconclusive. However, studies on diet during adolescence, a sensitive period when the breast tissue is growing and maturing, are scarce. Therefore, the aim of this study was to advance knowledge on the association of growth rate in early life and lifelong dietary habits on breast cancer later in life.

The results of the study suggest that both diet and rapid growth rate in adolescence are associated with the risk of breast cancer later in life. While high consumption of fish and oatmeal seem to reduce the risk og breast cancer, fast growth rate and high consumption of rye bread in adolescence, and midlife, are associated with increased risk. In addition, high adherence in late life to a dietary pattern characterized by pastries, sweets and soda in late life were associated with higher risk of breast cancer. These results highlight the importance of environmental exposures throughout the life course in the development of the disease, particularly in early life. This work is also an important contribution to the extending base of knowledge on dietary causes of cancer.

Um doktorsefnið

Álfheiður Haraldsdóttir er fædd árið 1976. Hún lauk BS-prófi í hjúkrunarfræði 2003 frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í lýðheilsuvísindum við sama skóla árið 2011. Álfheiður hefur samhliða doktorsnámi sinnt kennslutengdum verkefnum við Miðstöð í lýðheilsuvísindum. Faðir Álfheiðar var Haraldur Karlsson og móðir er Aldís Jónsdóttir. Maki Álfheiðar er Jóhann Páll Ingimarsson og dætur þeirra eru Freyja Bjarnveig 11 ára og Bríet Björk 6 ára.

Álfheiður Haraldsdóttir ver doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands föstudaginn 21. febrúar kl. 9:00.

Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum - Álfheiður Haraldsdóttir