Skip to main content

Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum: Agnes Gísladóttir

Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum: Agnes Gísladóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
29. september 2017 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Agnes Gísladóttir ver doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum föstudaginn 29. september næstkomandi. Ritgerðin ber heitið: Meðganga og fæðing hjá konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Pregnancy and childbirth among women previously exposed to sexual violence.

Andmælendur eru dr. Berit Schei, prófessor við NTNU í Þrándheimi, og dr. Ólöf Ásta Ólafsdóttir, dósent í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Auk hennar sátu í doktorsnefnd dr. Berglind Guðmundsdóttir, dósent við sömu deild og yfirsálfræðingur á Landspítala, dr. Bernard L. Harlow, prófessor við Boston-háskóla, dr. Ragnheiður I. Bjarnadóttir, sérfræðilæknir, og dr. Sven Cnattingius, prófessor við Karolinska Institutet.

Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Ágrip af rannsókn

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lítur á kynferðisofbeldi sem lýðheilsuvá á heimsvísu, en það er bæði algengt og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Markmið doktorsverkefnisins var að skoða hugsanlegt samband á milli kynferðisofbeldis á unglings- eða fullorðinsárum og áhættu á óæskilegum þáttum tengdum meðgöngu og fæðingu síðar á lífsleiðinni.

Rannsóknirnar byggja á samkeyrslu gagna. Í útsettum hópi voru konur sem höfðu leitað til Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis og að meðaltali sex árum síðar fætt barn. Í óútsettum hópi voru konur sem höfðu ekki leitað til Neyðarmóttökunnar og voru valdar af handahófi úr fæðingaskrá. Notast var við Poisson aðhvarfsgreiningu til að meta áhættuhlutfall (RR) með 95% öryggisbili (95% CI).

Útsettar konur voru yngri, síður á vinnumarkaði, síður í sambúð og reyktu oftar á meðgöngu (41.4% vs. 13.5%; aRR 2.59, 95% CI 2.19-3.07) en óútsettar konur. Samanborið við óútsettar konur voru útsettar konur í aukinni áhættu á að fá greiningarnar móðurnauð í hríðum og fæðingu (RR 1.68, 95% CI 1.01-2.79) og lengt fyrsta stig fæðingar (RR 1.40, 95% CI 1.03-1.88) og að beita þyrfti áhöldum eða bráðakeisaraskurði (RR 1.16, 95% CI 1.00-1.34). Nýburar útsettra mæðra voru léttari að meðaltali (3.573,6 g vs. 3.675,6 g, p<0.01), í aukinni áhættu á að fæðast fyrir tímann (RR 1.49, 95% CI 1.13-1.97) og vera fluttir á vökudeild (RR 1.35, 95% CI 1.05-1.73) en nýburar óútsettra mæðra.

Niðurstöðurnar benda til þess að konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi reyki frekar á meðgöngu en óútsettar konur og séu í aukinni áhættu á lengri útvíkkunartíma, inngripum í fæðingu og fyrirburafæðingu. Flestar fæðingarnar gengu þó vel.

Um doktorsefnið

Agnes Gísladóttir fæddist í Vestmannaeyjum árið 1983. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ árið 2002, BS-prófi frá Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands árið 2006 og MPH-prófi frá Læknadeild Háskóla Íslands fjórum árum síðar.

Foreldrar hennar eru Elín Alma Arthursdóttir, viðskiptafræðingur, og Gísli Sigurgeirsson, múrari. Agnes er í sambúð með Þórði Inga Guðmundssyni, framhaldsskólakennara. Þau eiga soninn Arthúr Inga, eins árs.

Agnes Gísladóttir ver doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum föstudaginn 29. september í hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands.