Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Ragnhildur Guðmundsdóttir

Doktorsvörn í líffræði - Ragnhildur Guðmundsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
9. október 2020 13:00 til 15:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Stofa 023

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Streymi:https://www.youtube.com/user/HIvarp/live

Doktorsefni: Ragnhildur Guðmundsdóttir

Heiti ritgerðar: Örverur og grunnvatnsmarflóin Crangonyx islandicus í lindaruppsprettum á Íslandi (Microbes and the groundwater amphipod Crangonyx islandicus in spring sources in Iceland)

Andmælendur: Dr. Owen S. Wangensteen, vísindamaður við Háskólann í Tromsø, Noregi
Dr. Oddur Vilhelmsson, prófessor við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri

Leiðbeinandi: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd
Dr. Bjarni Kristófer Kristjánsson, prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum
Dr. Viggó Þór Marteinsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og faglegur leiðtogi hjá Matís

Doktorsvörn stýrir:  Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip

Íslandsmarflóin, Crangonyx islandicus, er grunnvatnsmarflóartegund sem finnst eingöngu á Íslandi. Erfðarannsóknir hafa sýnt að hún hefur aðgreinst hér á landi í um 4,8 milljónir ára sem bendir til þess að hún hafi lifað af undir ísaldarjökli en á þessu tímabili hefur Ísland endurtekið verið þakið jöklum. Líklega hefur tegundin verið á Íslandi allt frá því að forveri Íslands varð að eyju, þegar landbrúin til Grænlands rofnaði fyrir um 15 milljónum ára. Núverandi þekkt útbreiðsla tegundarinnar er í grunnvatni hraunalinda á flekaskilum landsins. Þessar lindir eru eins konar náttúrulegur gluggi inn í grunnvatnskerfið en þar má finna vistkerfi á mótum grunnvatns, yfirborðsvatns og yfirliggjandi jarðvegs. Í þessari ritgerð er örverusamfélag þessa svæðis og marflónna skoðað, bæði til að kanna frekara líf í þessu lítt þekkta kerfi og til að skoða þá ferla sem hafa mótað samfélögin. Niðurstöðurnar benda til þess að á marflónum finnist nokkrar tegundir af bifdýrum og bakteríum sem ekki finnast í uppsprettunum nema að litlu leyti. Bæði slembiferlar og umhverfisþættir reyndust stýra tegundasamsetningunni fyrir örveruhópana í uppsprettunum. Þættir eins og sýrustig, hitastig, tilvist fiska og landfræðileg staðsetning mótuðu bakteríusamfélögin á meðan hitastig og far réðu mestu um samsetningu bifdýrasamfélaganna. Meðal bakteríanna var að finna ýmsa efnatillífandi hópa sem bendir til þess að frumframleiðni á sér stað í grunnvatnskerfinu. Það gæti því mögulega útskýrt hvernig marflærnar gátu lifað af jökulskeið í grunnvatni landsins.

Um doktorsefnið

Ragnhildur Guðmundsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1982. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2002 og BSc-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2005. Eftir BSc-próf starfaði Ragnhildur við áturannsóknir á Hafrannsóknarstofnun áður en hún hóf svo meistaranám í sjávarvistfræði við Háskólann í Tromsø í Noregi og við Háskólasetrið á Svalbarða (UNIS), sem lauk með MSc-gráðu í nóvember 2008. Ragnhildur lauk viðbótardiplómu í kennslufræðum og starfaði við kennslu náttúrufræðigreina við Verzlunarskóla Íslands. Ragnhildur hóf vinnu við doktorsverkefni sitt árið 2013.

Meðfram námi hefur hún sinnt kennslu við Háskóla Íslands, tekið þátt í fræðslugöngum á vegum Háskólans og Ferðafélags Íslands, þjálfað ólympíuliðið í líffræði, setið í vísindanefnd fyrir ráðstefnu Norræna vistfræðifélagsins (Oikos) og í stjórn Líffræðifélags Íslands.

Ragnhildur er gift Olgeiri Örlygssyni. Þau búa í Reykjavík ásamt þremur börnum sínum, þeim Örlygi Dýra (f. 2008), Þuríði Ingu (f. 2010) og Bergsteini (f. 2015).

Ragnhildur Guðmundsdóttir

Doktorsvörn í líffræði - Ragnhildur Guðmundsdóttir