Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Quentin Horta-Lacueva

Doktorsvörn í líffræði - Quentin Horta-Lacueva - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
3. júní 2022 13:00 til 15:00
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Streymi

Doktorsefni: Quentin Horta-Lacueva

Heiti ritgerðar: Þróun æxlunartálma milli samsvæða afbrigða bleikju (Salvelinus alpinus). Evolution of reproductive isolation in sympatric Arctic charr morphs (Salvelinus alpinus)

Andmælendur:
Dr. Felicity Jones, rannsóknastjóri hjá Friedrich Miescher Laboratory, Max Planck Society, Þýskalandi
Dr. Benedikt Hallgrímsson, prófessor við University of Calgary, Kanada

Leiðbeinendur: Dr. Kalina Hristova Kapralova, rannsóknasérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindastofnun HÍ og dr. Sigurður Sveinn Snorrason, prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Micheal Morrissey, dósent við University of St. Andrews, Skotlandi
Dr. Neil Metcalfe, prófessor við University of Glasgow, Skotlandi
Dr. Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum

Doktorsvörn stýrir: Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ.

Ágrip
Fjölbrigðni tengd fæðu- og búsvæðavali er talin geta verið mikilvæg í ferli afbrigða- og tegundamyndunar meðal hryggdýra. Nýlega hafa komið fram heildstæðari hugmyndir um þessi ferli sem taka til samspils þroskunar-, vistfræði- og þróunarferla, en bagalegt er að þær sniðganga mikilvægi þróunar æxlunareinangrunar. Hér eru færð rök fyrir því að bleikjuafbrigðin í Þingvallavatni séu einstaklega vel til þess fallin að rannsaka þróun æxlunareinangrunar í ljósi fyrrgreindra hugmynda. Um þetta er fjallað í fimm greinum í ritgerðinni. Í fyrstu beindist athyglin að tveimur afbrigðanna, dvergbleikju og murtu. Niðurstöður staðlaðra eldistilrauna með afkvæmi afbrigðanna og kynblendinga þeirra gáfu til kynna að kynblöndun hefði takmörkuð áhrif á mynstur samdreifni svipfarsþátta er tengjast líkamslögun, tímasetningu þroskunarferla og fæðuatferli (1. grein) og persónuleikaþáttum (2. grein). Á hinn bóginn sýndu athuganir á breytileika í tjáningu gena á fósturskeiði að kynblöndun afbrigðanna gæti haft áhrif á möguleika til þróunar (3. grein). Þá var lagt mat á nokkra þætti sem stuðlað geta að æxlunareinangrun milli afbrigðanna, t.d. þætti sem tengjast vali á hrygningarsvæðum, vali á maka og þroskun kynblendinga (4. grein). Að lokum var samspil vals á hrygningarstað og fósturþroskunar hjá kuðungableikju rannsakað sérstaklega, en hún hrygnir miklu fyrr en hin afbrigðin og er þannig æxlunarlega einangruð frá þeim (5. grein). Athuganir á hrygningarslóð og eldistilraunir með afkvæmi kuðungableikju benda til þess að hún velji að hrygna á stöðum þar sem hitastig er lágt og þroski hægur. Rannsóknir þessar gefa gagnlegt yfirlit um æxlunareinangrun meðal bleikjuafbrigðanna í Þingvallavatni, auk þess að vera vegvísir frekari rannsókna á tegundamyndun í ljósi samhengis þroskunar-, vist- og þróunarfræði.

Um doktorsefnið
Quentin Horta-Lacueva fæddist 1993 í Haute-Marne í Norðaustur-Frakklandi þar sem hann kynntist náttúrunni með því að stunda fiskveiðar, gönguferðir og skógrækt með fjölskyldu sinni. Hann lauk A-stigs prófi við landbúnaðarskóla og BS-prófi í líf- og umhverfisfræði við Háskólann í Lorraine árið 2014. Hann lagði síðan stund á meistaranám í lífveru- og stofnalíffræði við Búrgúndarháskóla í Dijon en rannsóknaverkefnið vann hann við Lajuma-rannsóknastöðina í Suður-Afríku þar sem hann lagði áherslu á atferlisvistfræði og verndun prímata í útrýmingarhættu. Quentin hefur verið virkur í samtökum stúdenta um náttúruvernd og stóð fyrir yfirlitskönnun á varpstöðum úfa í Dijon. Eftir að hafa lokið meistaraprófi árið 2016 vann hann fyrir LPO (Birdlife France) að málefnum tengdum vernd svana, svo og sem aðstoðarmaður við ýmis verkefni tengd verndun fugla, froskdýra og fiðrilda. Hann er enn virkur í þessum samtökum. Quentin hóf doktorsnám sitt við Háskóla Íslands haustið 2017.

Quentin Horta-Lacueva

Doktorsvörn í líffræði - Quentin Horta-Lacueva