Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Hildur Magnúsdóttir

Doktorsvörn í líffræði - Hildur Magnúsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
14. október 2020 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Streymi: https://livestream.com/hi/doktorsvornhildurmagnusdottir

Doktorsefni: Hildur Magnúsdóttir

Heiti ritgerðar: Svipfars - og erfðabreytileiki beitukóngs Buccinum undatum (Phenotypic and genotypic variation in the subtidal gastropod Buccinum undatum)

Andmælendur:
Dr. Rémy Rochette, prófessor við Háskólann í New Brunswick í Saint John, Kanada
Dr. Karl Gunnarsson, líffræðingur á Hafrannsóknastofnun

Leiðbeinandi: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum
Dr. Kristen Marie Westfall, vísindamaður við DFO, Kanada
Dr. Zophonías O. Jónsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Doktorsvörn stýrir: Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip

Svæðisbundinn útlitsbreytileiki sjávarkuðunga ber oft vitni um lítinn samgang milli stofna og getur endurspeglað þróun aðskilinna stofna eða mismunandi vaxtarskilyrði í mismunandi umhverfi. Þar sem sjávarsniglategundir eru oft skilgreindar eingöngu út frá einkennum kuðungsins, getur slíkur útlitsbreytileiki leitt til óljósrar flokkunarfræði og vanmats á raunverulegum tegundafjölbreytileika. Það er því þörf á að skilgreina tegundir bæði á viðamiklum gögnum sem ná yfir bæði erfða- og útlitsupplýsingar.

Beitukóngur (Buccinum undatum L.) er algengur sjávarsnigill í Norður-Atlantshafi sem er þekktur fyrir talsverðan svæðisbundinn breytileika í lögun og lit kuðunga. Markmið þessa verkefnis var að framkvæma yfirgripsmikla greiningu á útlitsbreytileika beitukóngs í Norður- Atlantshafi og bera saman við upplýsingar um hvatberabreytileika tegundarinnar.

Greining á hvatberabreytileika leiddi í ljós einættaða beitukóngsstofna í austur- og vesturhluta Norður-Atlantshafs, sem hafa verið aðgreindir síðan snemma á Pleistocene jökulskeiðinu (fyrir 2,1 milljón árum síðan). Tegundaaðgreiningarviðmið bentu til þess að um dultegundir (e. cryptic speciation) væri að ræða, sem afleiðing af sögulegum aðskilnaði (e. allpatric divergence). Erfðafjarlægðir milli stofna í heimsálfunum tveimur voru svipaðar eða meiri en erfðafjarlægðir milli nokkurra Buccinum tegunda í Norður-Kyrrahafi og Norður-Atlantshafi. Munur á útliti beitukónga beggja vegna Norður-Atlantshafs endurspeglar þessa erfðafræðilegu aðgreiningu. Sömuleiðis endurspeglaðist þessi munur í ungviði beitukónga frá Kanada og Íslandi sem alið var upp við staðlaðar aðstæður á rannsóknarstofu.

Að lokum leiddi nákvæm greining á svipgerðabreytileika beitukóngs í Breiðafirði í ljós að litabreytileiki, lögun og hlutfall röndóttra einstaklinga voru háð dýpi.

Um doktorsefnið

Hildur er fædd í Reykjavík árið 1981. Hún útskrifaðist með stúdentspróf af náttúrufræðibraut Menntaskólans við Hamrahlíð árið 2001 og lauk BS-prófi í líffræði frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands árið 2007.
Sama ár hóf Hildur meistaranám í líffræði, einnig við Háskóla Íslands, og í samstarfi við Vör – Sjávarrannsóknarsetur við Breiðafjörð þar sem hún einbeitti sér að lífsögu og erfðabreytileika beitukónga í Breiðafirði. Árið 2010 brautskráðist hún úr meistaranámi og á árunum 2011-2014 sinnti hún rannsóknum hjá Vör og starfaði sem leikskólaleiðbeinandi í Dalskóla, Reykjavík. Hún hóf doktorsnám við Líf– og umhverfisvísindadeild HÍ árið 2014 í samstarfi við Háskólann á Hólum.

Ásamt doktorsnáminu hefur Hildur sinnt aðstoðarkennslu við Háskóla Íslands, verið leiðsögumaður í gönguferðum á vegum Ferðafélags barnanna og Háskóla Íslands, undirbúið menntaskólanema fyrir þátttöku í Ólympíuleikunum í líffræði, skipulagt föstudagsfyrirlestra Líffræðistofu og sinnt stjórnarstörfum innan Arkímedesar, félags doktorsnema og nýdoktora við HÍ.

Hildur hefur þegar hafið störf við áframhaldandi rannsóknir á fjölbreytileika beitukónga í Norður-Atlantshafi við HÍ.

Foreldrar Hildar eru Magnús Marísson og Sigríður Sigurðardóttir. Hildur er gift Fannari Ríkarðssyni og eiga þau þrjú börn: Snædísi (f. 2005), Viljar (f. 2010) og Sóldísi Maríu (f. 2019). Þau búa í Reykjavík.

Hildur Magnúsdóttir

Doktorsvörn í líffræði - Hildur Magnúsdóttir