Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Gotje Katharina Gisela von Leesen

Doktorsvörn í líffræði - Gotje Katharina Gisela von Leesen - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. júní 2021 14:00 til 16:00
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Streymi:  https://livestream.com/hi/doktorsvorngotjekatharinagvonleesen

Doktorsefni: Gotje Katharina Gisela von Leesen

Heiti ritgerðar: Fylgni hitastigs og búsvæðavals hjá íslenskum og norðaustur-heimskautsþorski (Temperature selectivity in Icelandic and Northeast-Arctic cod)

Andmælendur: Dr. Karin Hüssy, rannsakandi, við Danmarks Tekniske Universitet
Dr. Arild Folkvord, prófessor við Háskólann í Bergen, Noregi

Leiðbeinandi: Dr. Steven E. Campana, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Audrey J. Geffen, prófessor við Háskólann í Bergen, Noregi
Dr. Steffen Mischke, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands
Dr. Sigurður Sveinn Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Doktorsvörn stýrir: Dr. Arnar Pálsson, prófessor og varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip

Hækkandi sjávarhita er nú spáð um allan heim og á norðurslóðum er auk þess búist við meiri hitasveiflum en annars staðar. Betri skilningur á viðbrögðum Atlantshafsþorsks (Gadus morhua) við breyttum umhverfisaðstæðum á liðnum áratugum opnar möguleika á að spá fyrir um mögulega breytta dreifingu þorsksins á tímum loftslagsbreytinga. Hér er greint frá rannsóknum þar sem leitast var við að skýra hvort og hvernig þorskar af íslenska stofninum og norðaustur-heimskautsstofninum bregðast við breytingum á hitastigi sjávar og stofnstærð. Línuleg líkön með blönduðum áhrifaþáttum voru notuð til að greina hvort samhengi væri milli hundrað ára gagnaraða um hitastig sjávar og sveiflur í stofnstærð þorskstofnanna annars vegar og sambærilegra mælinga á stöðugum ísótópum súrefnis í árhringjum kvarna úr íslenska og norðaustur-heimskautsstofninum hins vegar, en vitað er að nota má mælingar á ísótópum súrefnis í árhringjum kvarna sem metil á hitastig sem einstaklingurinn lifði við þegar árhringurinn myndaðist. Marktæk fylgni fannst milli δ18O gilda íslenska þorsksins og sjávarhita yfir tíma, sem bendir til þess að þorskurinn hafi verið útsettur fyrir sveiflukenndum sjávarhita síðastliðin 100 ár en virðist ekki hafa hörfað að marki frá hækkandi hitastigi. Aukinn stofnþéttleiki á svæðum með kjörhita getur leitt til aukinnar samkeppni og minnkandi hæfni einstaklinga en slíkt getur valdið því að sumir einstaklingar leiti á svæði þar sem hitastig er ekki eins hagstætt. Gögn okkar benda til þess að slíkt hafi átt sér stað í báðum stofnunum en viðbrögðin hafi samt verið ólík. Til frekari staðfestingar á notagildi kvarna til að sýna hitastig sjávar á mismunandi stigum lífsferils voru ísótópar súrefnis mældir í kvörnum þorska sem á voru fest gagnasöfnunarmerki (DST-tag) sem mæla hitastig og dýpi. Í þessu tilfelli voru ísótópar í vaxtarhringjum kvarna mældir með meiri upplausn í nákvæmum massalitrófsgreini (SIMS) og staðfest að þessar aðferðir eru vel til þess fallnar að meta hitastig sjávar sem fiskar hafa dvalið í aftur í tímann, þó svo að hámarkshiti sé gjarnan ofmetinn. Rannsóknirnar sýna hvernig nota má mælingar á ísótópum súrefnis í árhringjum kvarna ásamt sambærilegum langtímagögnum um hitastig sjávar og stofnsveiflur til þess að greina hvernig þessir þættir hafa áhrif á hitastigsval þorsks. Slíkar upplýsingar geta reynst hjálplegar við að spá fyrir um hvernig þorskstofnar bregðast við hnattrænni hlýnun og stofnsveiflum.

Um doktorsefnið

Gotje von Leesen er fædd og uppalin í Þýskalandi. Hún útskrifaðist með BSc-gráðu í líffræði í Bremen árið 2014 og tveimur árum seinna með alþjóðlega MSc-gráðu í líffræðilegum fjölbreytileika sjávar og verndun hans (EMBC). Um nokkurt skeið, áður en hún hóf doktorsferil sinni við Háskóla Íslands í ágúst 2017, starfaði hún sem rannsóknaraðstoðarmaður við Alfred-Wegener-Institute í Bremerhaven í Þýskalandi. Hún er núna starfandi sem nýdoktor við Háskólann í Árósum þar sem hún hyggst halda rannsóknum sínum á stöðugum súrefnis- og kolefnisísótópum úr kvörnum þorska áfram.


 

Gotje Katharina Gisela von Leesen

Doktorsvörn í líffræði - Gotje Katharina Gisela von Leesen