Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði – Aldís Erna Pálsdóttir

Doktorsvörn í líffræði – Aldís Erna Pálsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
28. júní 2022 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Streymi

Doktorsefni: Aldís Erna Pálsdóttir

Heiti ritgerðar: Áhrif breytinga á landnotkun á norðurslóðum á þéttleika vaðfugla (Effects of land conversion in sub-arctic landscapes on densities of ground-nesting birds)

Andmælendur: Dr. David Douglas, rannsóknasérfræðingur hjá Konunglega breska fuglaverndarfélaginu
Dr. Ása L. Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands

Leiðbeinandi: Dr. Tómas Grétar Gunnarsson, vísindamaður og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi

Einnig í doktorsnefnd:  Dr. Jennifer A. Gill, prófessor við University of East Anglia í Bretlandi
Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ
Dr. José A. Alves, rannsóknasérfræðingur við University of Aveiro í Portúgal

Doktorsvörn stýrir: Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ

Ágrip

Líffræðilegum fjölbreytileika fer hnignandi á heimsvísu, og meginástæður þessa eru aukin umsvif manna og breytingar á landnotkun. Á láglendi Íslands hafa umsvif manna aukist töluvert undanfarna áratugi, en því fylgir aukinn fjöldi nývirkja. Lítið er vitað um áhrif þessara breytinga á þá mikilvægu líffræðilegu fjölbreytni sem þessi landsvæði búa yfir. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort og hvernig fjórar gerðir nývirkja (vegir, sumarhús, raflínur og ræktaðir skógar) hefðu áhrif á þéttleika og tegundasamsetningu mófugla í nánasta umhverfi. Svæði voru valin á láglendi Íslands þar sem þessar gerðir nývirkja voru til staðar í mismunandi fjölda og stærð, og fuglar taldir. Tvær tegundir (skógarþröstur og hrossagaukur) fundust ávallt í hærri þéttleika nálægt nývirkjum eða sýndu engan mun með fjarlægð frá nývirki, en sex tegundir (þúfutittlingur, jaðrakan, heiðlóa, tjaldur, spói og stelkur) fundust í lægri þéttleika nálægt a.m.k. einni gerð nývirkja. Í kringum vegi og skóga náðu þessi áhrif 200 m út fyrir jaðar nývirkisins. Heiðlóa og spói sýndu sterkustu áhrifin, en milli 40-52% af heimsstofnum þessara tegunda verpa á Íslandi. Breytingar á landnotkun á láglendi Íslands, sem hljótast af því að nytjaskógum, raflínum, vegum og húsum er komið fyrir í opnum búsvæðum, geta haft afgerandi áhrif á stofna þessara tegunda. Fuglar hafa verið taldir á sömu punktum á Suðurlandi á hverju ári síðan 2011, þar sem miklar breytingar hafa orðið á landnotkun, og niðurstöðurnar benda til þess að meðan skógarþresti fjölgar og hrossagaukur sýnir engar breytingar, fari öllum hinum tegundunum sem voru hér til rannsóknar fækkandi. Staðsetning og umfang nývirkja á láglendi Íslands þarf að skipuleggja með það í huga að lágmarka þessi áhrif á mófugla, en Ísland ber alþjóðlega ábyrgð á mörgum þessara tegunda og ætti verndun þeirra stóru opnu búsvæða sem eru enn til staðar að vera í forgangi.

Um doktorsefnið

Aldís Erna Pálsdóttir er fædd árið 1990 og ólst upp í Hafnarfirði. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut II frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2010, BSc-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og meistaraprófi í líffræði frá sama skóla árið 2016, en tók einnig ár af meistaranáminu í Gautaborgarháskóla. Aldís starfaði sem kennari í verklegum tímum í líffræði hjá Háskóla Íslands samhliða doktorsnámi sínu og tók nýverið við stöðu verkefnastýru í verkefninu Patterns of nest mortality in ground-nesting birds across land-use and climate gradients, við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Foreldrar hennar eru Páll Ólafsson eðlisverkfræðingur og Elínborg Guðmundsdóttir augnlæknir. Aldís er gift Hilmari Þór Birgissyni tölvuverkfræðingi og eiga þau börnin Sigrúnu Elfu og Pál Fannar.

Aldís Erna Pálsdóttir

Doktorsvörn í líffræði – Aldís Erna Pálsdóttir