Skip to main content

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Maríanna Þórðardóttir

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Maríanna Þórðardóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. febrúar 2019 9:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 15. febrúar ver Maríanna Þórðardóttir doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Obesity and dietary habits across the lifespan and risk of multiple myeloma and its precursor. Holdafar og mataræði á mismunandi æviskeiðum og tengsl við mergæxli og forstig þess.

Andmælendur eru dr. Emily Sonestedt, dósent í faraldsfræði við háskólann í Lundi, og Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Vilmundur Guðnason prófessor, dr. Laufey Steingrímsdóttir, dr. Sigrún Helga Lund og dr. Ola Landgren.

Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 09:00.

Ágrip af rannsókn

Mergæxli er ólæknandi krabbamein í beinmerg sem upprunnið er í mótefnamyndandi plasmafrumum. Forstig mergæxlis kallast góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) og einkennist af hækkun á einstofna mótefni í blóði án þess að skilmerkjum um mergæxli eða aðra tengda sjúkdóma sé að ræða. Orsök MGUS og mergæxlis er að miklu leyti óþekkt en þekktir áhættuþættir eru aldur, kyn, kynþáttur og fjölskyldusaga. Mergæxli bættist nýlega í hóp þeirra krabbameina sem talið er að offita hafi áhrif á en rannsóknir á áhrifum annarra lífsstílstengdra þátta á mergæxli eru fáar og eru niðurstöður þeirra ekki afgerandi. Meginmarkmið þessarar ritgerðar var að kanna áhrif offitu og mataræðis á MGUS og framþróun yfir í mergæxli og tengda sjúkdóma.

Niðurstöður benda til þess mataræði spili hlutverk bæði í þróun MGUS og framþróun yfir í mergæxli og tengda sjúkdóma. Einnig benda þær til þess að líkamsþyngdarstuðull á miðjum aldri sé áhættuþáttur fyrir framþróun úr MGUS/LC-MGUS yfir í mergæxli og tengda sjúkdóma. Þessar niðurstöður gefa til kynna að hegðunar- og umhverfisþættir eigi þátt í þróun mergæxlis og undirstrika mikilvægi þess að taka heilsusamlegar ákvarðanir er varða lífsstíl.

Abstract

Multiple myeloma is a malignant chronic B-cell disorder characterized by a monoclonal proliferation of plasma cells in the bone marrow. Almost all multiple myeloma cases are preceded by the premalignant state, monoclonal gammopathy of undetermined significance (MGUS). The etiology of multiple myeloma and MGUS is to a large extent unknown, with age, sex, race, and family history as the most established risk factors. Obesity was recently acknowledged as the first identified modifiable risk factor for multiple myeloma, but results on other lifestyle-related factors, such as diet, are scarce and inconclusive. The overall aim of this thesis was to examine the impact of obesity and diet on MGUS as well as its effect on progression from MGUS to multiple myeloma and other lymphoproliferative diseases. 

The results suggest that diet plays a role in the etiology of MGUS and multiple myeloma. They additionally suggest that BMI is a risk factor for progression from MGUS/LC-MGUS to multiple myeloma and related diseases. These findings indicate a potential role of behavioral and environmental factors in myelomagenesis and that the risk of multiple myeloma can be modified by taking favorable lifestyle related decisions.

Um doktorsefnið

Maríanna Þórðardóttir er fædd árið 1983. Hún lauk BS-prófi í Global Nutrition and Health frá Metropol University College í Kaupmannahöfn árið 2010 og meistaragráðu í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands árið 2013. Maríanna hefur samhliða doktorsnámi sinnt kennslu við Miðstöð í lýðheilsuvísindum ásamt því að vinna að ýmsum rannsóknartengdum verkefnum við Háskóla Íslands. Hún er nú að hefja störf sem verkefnisstjóri á sviði sóttvarna hjá Embætti landlæknis. Foreldrar Maríönnu eru Þórður Ólafsson og Kristín Bára Alfredsdóttir. Maki Maríönnu er Þráinn Fannar Gunnarsson og dætur þeirra eru Elena Margrét 17 ára, Rebekka 9 ára og Eyja Kristín 5 ára

Maríanna Þórðardóttir ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 15. febrúar kl. 09:00

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Maríanna Þórðardóttir