Skip to main content

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Lilja Þorsteinsdóttir

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Lilja Þorsteinsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
20. maí 2020 11:00 til 14:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Fjöldatakmörkun: Einungis 45 manns geta verið í salnum á meðan dokorsvörninni stendur

Miðvikudaginn 20. maí ver Lilja Þorsteinsdóttir doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Vörninni verður streymt: 

https://livestream.com/hi/doktorsvornliljathorsteinsdottir

Ritgerðin ber heitið: Herpesveirur í hestum á Íslandi: Smitferlar og ónæmissvörun gegn gammaherpesveirum af gerð 2 og 5, og einangrun á alfaherpesveiru af gerð 3. Equine herpesviruses in Iceland: Course of infection and immune response against gammaherpesviruses type 2 and 5, and isolation of an alphaherpesvirus, type 3.

Andmælendur eru dr. Timm Harder, yfirmaður rannsóknastofu í veirufræði, við Friedrich-Loeffler-Institut í Þýskalandi, og dr. Ólafur Andrésson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari var Vilhjálmur Svansson, dýralæknir, og leiðbeinandi var Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, ónæmisfræðingur, bæði við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Aðrir í doktorsnefnd voru: Einar G. Torfason, veirufræðingur, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, sérfræðingur í barnalækningum, ofnæmis- og ónæmislækningum, og Valgerður Andrésdóttir, sameindalíffræðingur.

Ingibjörg Harðardóttir, prófessor og varaforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 11.00.

Ágrip af rannsókn

Íslenski hesturinn er eini hestastofninn á Íslandi, hreinræktaður frá landnámi. Vegna landfræðilegrar einangrunar er stofninn berskjaldaður fyrir mörgum sjúkdómsvöldum sem herja á hesta í öðrum löndum. Grunnþekking á stöðu veirusýkinga í stofninum er því mikilvæg. Markmið verkefnisins var að rannsaka herpesveirur (equine herpesvirus, EHV) hjá íslenska hestinum og hanna tól til áframhaldandi hestaveirurannsókna.

Gerðar voru frumulínur úr hestafósturnýrna- og lungnafrumum með því að innleiða æxlisgen. Frumulínurnar hafa um fjórum sinnum lengri líftíma en upprunalegu frumurnar. Framleidd voru sértæk fjölstofna EHV-2 og EHV-5 mótefni. Hönnuð var grænflúrljómandi EHV-2, rEHV2-gB-egfp, sem tjáir EGFP prótein samhliða glýkópróteini B. Þessi tól geta nýst í áframhaldandi rannsóknum.

Gerð var ítarleg skoðun á sýkiferli EHV-2 og EHV-5 veiranna og mótefnasvar gegn þeim skoðað með því að fylgja eftir folöldum frá köstun fram að 22 mánaða aldri. Mæðrum þeirra var fylgt eftir í 6 mánuði. EHV-2 var einangruð frá 5 daga gömlu folaldi og EHV-5 á degi 12, fyrr en áður hefur fundist. Veirusértækt mótefnasvar var ekki mælanlegt hjá folöldunum áður en þau komust á spena, en hækkaði nokkrum dögum síðar. Mótefnin frá móður lækkuðu síðan fram að 2-4 mánaða aldri og samhliða jókst EHV-2 magn. EHV-5 magn náði hins vegar ekki hámarki fyrr en folöldin voru eins árs. Greinileg fylgni var milli magns mótefna hjá móður og veirumagns og mótefnaframleiðslu folaldanna. Niðurstöðurnar gefa innsýn í hvernig flutningur á mótefnum frá móður hefur áhrif á EHV-2 og 5 sýkingar og mótefnaframleiðslu afkvæmis en eykur einnig þekkingu á sýkiferli EHV-2 og EHV-5 fyrstu tvö æviárin. Ennfremur var EHV-3 veiran staðfest í fyrsta skipti hjá íslenska hestastofninum með ræktun frá klínísku tilfelli. Rannsóknirnar gefa okkur gleggri innsýn í stöðu herpesveira hjá íslenska hestastofninum.

Abstract

The native Icelandic horse is the only breed in Iceland, purebred since the settlement. Due to geographic isolation the horses are immunologically naive to various agents known to infect horses in other countries. General knowledge about viral infections in the breed is important. The aim of the research was to study equine herpesviruses (EHV) in Iceland and construct tools for further research on equine viruses.

Equine cell lines, both kidney and lung, with extended life span were established by transfection primary cells with an retroviral vector containing oncogenes. The cell lines can be passages approximately four times more oftan than the comparable primary cells. Specific EHV-2 and EHV-5 polyclonal antibodies were produced. Infectious fluorescent recombinant EHV-2 was constructed, rEHV2-gB-egfp, that expresses EGFP protein as a fusion protein with glycoprotein B. These tools can be of use in further research.

The course of EHV-2 and EHV-5 infections and the antibody response against EHV-2 and EHV-5 was studied in details by following foals from birth to 22 months of age and their dams during the first 6 monts postpartum. Both EHV-2 and EHV-5 were isolated earlier than previously reported on day 5 and 12, respectively. Virus  specific antibodies were not detected before colostrum intake but peaked a few days after birth. The maternal antibodies declined when the foals were 3-4 months of age, followed by a peak in the EHV-2 viral load, whereas the EHV-5 viral load peaked when the foals were one years old. There was a notable correlation between the level of maternal antibodies on the one hand and the viral load and induction of endogenous antibody production in the foals on the other hand. These results provide information on how maternal antibody transfer affects EHV-2 and EHV-5 shedding and antibody production of the offspring, and also extends our knowledge on the EHV-2 and EHV-5 infection in foals during the first two years of life. Furthermore we isolated and confirmed, from a clinical sample, EHV-3 for the first time in our native population. Overall, the study provides deeper understanding of the EHV status in the Icelandic horse population.

Um doktorsefnið

Lilja Þorsteinsdóttir er fædd á Akureyri þann 30. október 1982. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans við Akureyri árið 2002, BS-prófi í líffræði af braut sameindalíffræði, frumulíffræði og örverufræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og MS-prófi í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands árið 2009. Árið 2006 hóf Lilja störf við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum við rannsóknir á herpesveirum í hestum. Frá árinu 2018 hefur Lilja starfað á bakteríu-, sníkjudýra- og meinafræðideild Keldna m.a. við rannsóknir á sýklalyfjaónæmum bakteríum. Foreldrar Lilju eru Þorsteinn G. Gunnarsson og Svanhvít Vatnsdal Jóhannsdóttir. Lilja er gift Magnúsi Erni Sölvasyni. Dæturnar eru tvær, Þórdís Erla 15 ára og Vigdís Hrefna 6 ára.

 

Lilja Þorsteinsdóttir ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands miðvikudaginn 20 maí

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Lilja Þorsteinsdóttir