Skip to main content

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. september 2017 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Notkun útrunninna blóðflaga til fjölgunar á mesenkímal stofnfrumum. Expired human platelets for mesenchymal  stromal cell propagation.          Andmælendur eru dr. Thierry Burnouf, prófessor við Taipei Medical University í Taiwan, og dr. Guðmundur L. Norddahl, frumulíffræðingur hjá Decode genetics. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, klínískur prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Að auki sátu í doktorsnefnd dr. Guðrún Valdimarsdóttir, lektor við sömu deild,  dr. Martina Seifert, prófessor í ónæmisfræði við Charité-háskólann í Berlín, dr. Hilmar Viðarsson, sérfræðingur í frumulíffræði, og dr. Þorbjörn Jónsson, sérfræðilæknir í ónæmis- og blóðbankafræðum. Dr. Ingibjörg Harðardóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.Ágrip af rannsókn Mesenkímal stofnfrumur úr beinmerg (MSC) lofa góðu fyrir notkun í vefjalækningum sökum hæfni þeirra til að mynda vefi stoðkerfisins og til að stýra ónæmissvari. Notkun þeirra er þó vandasöm vegna þess að kálfasermi þarf til að rækta þær. Kálfasermi er óæskilegt því það getur haft skaðleg áhrif í för með sér. Nauðsynlegt er að finna aðra lausn sem er ekki upprunnin úr dýrum, leysir kálfasermi af hólmi og styður við MSC frumur í rækt. Blóðflögulausnir úr blóðflögum manna hafa verið ræddar í þessu samhengi sökum þess hve ríkar þær eru af vaxtarþáttum og frumuboðum sem finnast í seytiögnum þeirra.

Í þessari rannsókn var hæfni útrunnina blóðflagna, og útrunnina smithreinsaðra blóðflagna frá Blóðbankanum, skoðuð til að styðja við MSC og hES-MP frumur í rækt. Frumuvöxtur, tjáning á yfirborðssameindum, þátttaka í ónæmissvari og hæfni þeirra til að mynda vefi stoðkerfisins var skoðuð sérstaklega.

Blóðflögulausnir úr útrunnum blóðflögum voru jafngildar eða betri en kálfasermi og blóðflögulausnir úr ferskum blóðflögum þegar frumuvöxtur, tjáning á yfirborðssameindum og vefjamyndun var skoðuð hjá MSC og hES-MP frumum. Blóðflögulausnir hentuðu sérstaklega vel til að styðja við beinmyndun sem sást með aukinni virkni alkalísks fosfatasa, útfellingu steinefna í vef og aukinni genatjáningu fyrir beinmyndun. Sambærilegar niðurstöður komu fram við notkun á blóðflögulausnum úr útrunnum smithreinsuðum blóðflögum.

Blóðflögulausnir úr útrunnum blóðflögum, smithreinsuðum eður ei, henta sem ræktunarlausnir fyrir MSC og hES-MP frumur án þess að draga úr hæfni þeirra til frumufjölgunar, þátttöku í ónæmissvari eða vefjamyndun. Útrunnar blóðflögur eru því ákjósanlegur efniviður fyrir blóðflögulausnir sem nota má í stað kálfasermis.

Um doktorsefnið Sandra Mjöll Jónsdóttir lauk BS-gráðu í lífeindafræði frá Háskóla Íslands árið 2011. Hún lauk viðbótardiplómanámi til starfsréttinda í sama fagi ári síðar og hóf þá jafnframt MS nám við Læknadeild sem hún síðan útvíkkaði í doktorsnám. Sandra starfar sem aðjúnkt við námsbraut í lífeindafræði við Háskóla Íslands og er jafnframt framkvæmdastjóri Platome Líftækni. Í gegnum doktorsrannsókn sína hefur Sandra sérhæft sig á sviði vefjaverkfræði og stofnfrumufræða auk þess sem hún kennir erfðafræði við Háskóla Íslands. Sandra hefur hlotið þó nokkrar viðurkenningar fyrir störf sín en hún var meðal annars valin ,,Ungur og efnilegur vísindamaður ársins 2017“ og tilnefnd sem „Framúrskarandi ungur Íslendingur ársins 2016“. Þar fyrir utan var Sandra fyrsta íslenska konan til að hljóta aðalverðlaun heimssamtaka uppfinninga- og nýsköpunarkvenna sumarið 2017 sem „Inventor of the Year“. Doktorsrannsókn Söndru hafnaði jafnframt í þriðja sæti í keppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands árið 2014.

Sandra stofnaði, ásamt Dr. Ólafi E. Sigurjónssyni, nýsköpunarfyrirtækið Platome Líftækni sem byggt er á doktorsrannsókninni. Undir stjórn Söndru hefur fyrirtækið vakið mikla athygli og var valið Sprotafyrirtæki ársins 2017.

Sandra Mjöll er gift Þór Friðrikssyni, lækni og verkfræðingi. Saman eiga þau tveggja ára dóttur, Birtu Þórsdóttir.

Hér vantar að setja inn myndatexta í Uglu