Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Oddur Ingimarsson

Doktorsvörn í læknavísindum - Oddur Ingimarsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
10. apríl 2018 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Oddur Ingimarsson ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Aukaverkanir geðrofslyfja – gögn og gildi til að varða bestu leiðir til notkunar clozapine í geðklofa sem svarar illa meðferð. Adverse drug reactions of antipsychotic drug treatment – how to balance evidence and values in relation to the use of clozapine in treatment-resistant schizophrenia.

Andmælendur eru dr. Dan Siskind, dósent við University of Queensland, og dr. Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir réttar- og öryggisgeðlækninga við geðsvið Landspítala.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Engilbert Sigurðsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Halldóra Jónsdóttir, dr. Hreinn Stefánsson, dr. Magnús Haraldsson og dr. James H. MacCabe.

Dr. Ingibjörg Harðardóttir, prófessor og varadeildarforseti við Læknadeild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 14.00.

 

Ágrip af rannsókn

Um 20-30% sjúklinga með geðklofa svara ekki hefðbundinni meðferð með geðrofslyfjum og eru þeir sagðir vera með meðferðarþráan geðklofa. Eina meðferðin sem hefur sannað sig sem gagnreynd meðferð hjá þeim hópi er geðrofslyfið clozapín.  Markmið rannsóknarinnar var að lýsa notkun clozapíns á Íslandi og aukaverkunum sem tengjast lyfinu og þá sérstaklega, kyrningafæð, sykursýki týpu 2 og blóðfituröskun. Síðast en ekki síst að þróa frekar gagnreynda og gildismiðaða meðferð og sameiginlega ákvarðanatöku í langtíma meðferð meðferðarþrás geðklofa.

Gerð var textaleit í sjúkraskrá sjúklinga sem höfðu samþykkt þátttöku í rannsókn á erfðabreytileika og geðrofssjúkdómum að orðum sem tengjast clozapínnotkun og helstu aukaverkunum. Samtals fannst 201 sjúklingur með geðklofa þar sem hægt var að staðfesta notkun á clozapíni og 410 sjúklingar með geðklofa sem höfðu aldrei notað lyfið.

Meðalaldur við upphaf clozapínsnotkunar reyndist 37,8 ár á tímabilinu. Um 71,2% sjúklinga sem hófu meðferð með clozapíni voru enn á clozapín meðferð 20 árum síðar. Enginn munur kom fram á tíðni alvarlegrar kyrningafæðar (kyrningar á bilinu 0-1400/mm3) hjá sjúklingum á clozapíni og sjúklingum með geðklofa sem höfðu aldrei farið á clozapín meðferð. Líklega tengist stór hluti af kyrningafæð hjá sjúklingum á clozapine ekki clozapínmeðferð.  Því þarf að ígrunda vel ákvarðanir um að hætta clozapínmeðferð einstaklinga með meðferðarþráan geðklofa á grundvelli miðlungs alvarlegrar kyrningafæðar hafi meðferð skilað góðum árangri. Hafa verður í huga að almennt er ekki í boði meðferð með sambærilega virkni. Læknar þurfa að vera vel vakandi fyrir efnaskiptavillu af völdum clozapíns og þá sérstaklega sykursýki týpu 2 hjá konum.

 

Um doktorsefnið

Oddur Ingimarsson er fæddur árið 1978. Foreldrar hans eru Ingimar Jóhannsson, fyrrverandi skrifstofustjóri í atvinnuvegaráðuneyti, og Lillý Valgerður Oddsdóttir, fyrrverandi ritari í Ráðhúsi Reykjavíkur. Oddur er kvæntur Soffíu Sigríði Valgarðsdóttur, sérfræðingi hjá ríkisskattstjóra, og eiga þau saman Tinnu Katrínu 9 ára og Ara 7 ára. Auk þess á Oddur dótturina Ólöfu 15 ára.

Oddur lauk embættisprófi í læknisfræði árið 2005 og MS prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands þremur árum síðar. Hann lauk sérnámi í geðlækningum árið 2015 og hefur starfað síðan sem geðlæknir á Landspítala. Áður starfaði Oddur sem læknir á sjúkrahúsinu Vogi, sem sérfræðingur hjá Landsbankanum, við hugbúnaðarþróun hjá CIS-Theriak og sem formaður stjórnar Almenna lífeyrissjóðsins. 

Oddur Ingimarsson

Doktorsvörn í læknavísindum - Oddur Ingimarsson