Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Kristín Leifsdóttir

Doktorsvörn í læknavísindum - Kristín Leifsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
3. júní 2022 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 3. júní ver Kristín Leifsdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Lífefni í mænuvökva nýbura; forspárgildi fyrir heilaskaða: Tengsl við lifun og röskun á taugaþroska. Biomarkers in cerebrospinal fluid of neonates at risk of brain injury: Association with death and disability.

Andmælendur eru dr. Deirdre Murray, prófessor við University College í Cork, Írlandi og dr. Frances Cowan, gestaprófessor/klínískur dósent við Imperial College í London.

Umsjónarkennari var Ásgeir Haraldsson, prófessor og leiðbeinandi var Eric Herlenius, prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Þórður Þórkelsson, sérfræðingur, Ingileif Jónsdóttir, prófessor og Staffan Eksborg, prófessor emeritus.

Þórarinn Guðjónsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Vörninni verður streymt:

https://livestream.com/hi/doktorsvornkristinleifsdottir

Ágrip

Börn sem verða fyrir súrefnisskorti í fæðingu og börn sem fæðast fyrir fulla meðgöngu eiga á hættu að lifa ekki af eða hljóta varanlega heilaskaða. Hættan á þessum fylgikvillum hefur ekki minnkað á síðustu áratugum þrátt fyrir miklar læknisfræðilegar framfarir. Sýkingar eru algengur fylgikvilli fyrirburaskapar og geta haft áhrif á taugaþroska. Markmið þessa verkefnis var að finna lífefni í mænuvökva til að greina heilaskaða og meta áhættu á taugaþroskaröskun hjá nýburum. Lífefni voru mæld í mænuvökva hjá fullburða börnum sem uppfylltu skilyrði fyrir heilakvilla af völdum súrefnisskorts í fæðingu og hjá fyrirburum og fullburða börnum sem höfðu einkenni um blóðsýkingu. Rannsóknarhópurinn voru börn som voru innlögð á nýburagjörgæsludeild Karolinska sjúkrahússins á tímabilinu 2000 til 2004.

Niðurstöður rannsóknanna benda í fyrsta lagi til að magn bólguefna aukist í mænuvökva, bæði við blóðsýkingar og fósturköfnun, og hafi notagildi við greiningu á sjúkdómsástandi og forspárgildi um horfur sjúklinga. Í öðru lagi að ýmis prótein sem tengjast efnaferlum í meingerð heilaskaða af völdum súrefnisskorts safnist upp í mænuvökva eftir fósturköfnun. Að aukið magn þessara próteina tengist verri heilaskaða og magn þeirra í mænuvökva hafi tengsl við framtíðarhorfur barnanna. Í þriðja lagi var sýnt að prótein-svipgerð í mænuvökva er ekki eins hjá fyrirburum og hjá fullburða börnum. Einnig sást að hjá fyrirburum sem greindust með taugaþroskaraskanir fyrir tveggja ára aldur var skortur á ýmsum próteinum sem taka þátt í þroska heilans.

Út frá þessum niðurstöðum var ályktað að ýmis bólguefni og önnur lífefni í mænuvökva sem tengjast heilanum geti verið gagnleg við mat á ástandi og horfum nýbura sem eru í hættu á heilaskaða og taugaþroskaröskun.

English abstract

Prematurity with its complications, including infections, and hypoxic-ischemic encephalopathy (HIE) following birth asphyxia in full-term infants are the most important contributors to a high incidence of early neonatal mortality and lifelong neurodevelopmental disabilities originating in the neonatal period. Devastating long-term outcomes have not decreased markedly within the last decades despite extensive medical advances. The focus of this thesis was to discover biomarkers in cerebrospinal fluid (CSF) that would diagnose perinatal brain injury and identify infants at risk of adverse neurodevelopmental outcomes.

We analyzed CSF from term infants who fulfilled the criteria of perinatal asphyxia and preterm and term infants with suspected infection. The infants were cared for at the neonatal intensive care unit at the Karolinska Hospital in Stockholm between 2000 and 2004. Our main findings were, firstly, that inflammatory biomarkers were increased in CSF in response to both asphyxia and sepsis and that they had diagnostic and prognostic values. Secondly, unique brain-specific proteins were increased in CSF of asphyxiated infants and correlated with the extent of brain injury and clinical outcome. Thirdly, decreased levels of neurodevelopmentally related proteins correlated with unfavorable neurodevelopmental outcomes of preterm infants.

From these results, it may be concluded that several inflammatory- as well as structural and functional brain-specific biomarkers could serve as diagnostic tools in infants at risk of brain injury.

Um doktorsefnið

Kristín Leifsdóttir er fædd árið 1966 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi af eðlisfræðibraut frá Menntaskólanum við Sund árið 1986 og útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands árið 1994. Hún lauk framhaldsnámi í barnalæknisfræði og nýburalækningum frá Karolinska Institutet í Stokkhólmi árið 2004 þar sem hún vann einnig hluta af doktorsverkefninu. Kristín hefur starfað sem sérfræðingur á Vökudeild Barnaspítala Hringsins frá árinu 2005. Hún hefur einnig verið stundakennari við læknadeild Háskóla Íslands og kennt um heilaskaða nýbura. Frá 2012 hefur hún tekið þátt í þverfaglegri teymisvinnu um eftirlit með fyrirburum á Íslandi. Kristín á tvo drengi, Kristján Júlían sem nemur húkrunarfræði við Háskóla Íslands og Jóhann Hauk sem er í Verzló. Foreldrar hennar eru Regína Viggósdóttir leikskólakennari og Leifur Teitsson pípulagningameistari, en hann lést árið 2014.

Kristín Leifsdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 03. júní.

Doktorsvörn í læknavísindum - Kristín Leifsdóttir