Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Hólmfríður Helgadóttir

Doktorsvörn í læknavísindum - Hólmfríður Helgadóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. september 2019 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 27. september ver Hólmfríður Helgadóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Prótónupumpu-hemlar: Þróun og forspárgildi fyrir offramleiðslu á gastríni og kynjabundin skömmtun. Proton pump inhibitors: Acid rebound, development and predictors of gastrin elevation and dosage based on gender.

Andmælendur eru dr. Peter Bytzer, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og dr. Gunnar Guðmundsson, prófessor við Læknadeild.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Einar S. Björnsson, prófessor við Læknadeild.

Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. David C. Metz, prófessor við læknadeild Háskólans í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, Elín I. Jacobsen, klínískur lyfjafræðingur á Landspítala, dr. Helge Waldum, prófessor við Háskólann í Þrándheimi í Noregi og Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Ingibjörg Harðardóttir, prófessor og varaforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Ágrip af rannsókn

Prótónu-pumpuhemlar (PPI) hindra seytingu á magasýru og eru meðal mest notuðu lyfja í heiminum í dag m.a. við brjóstsviða og vélindabólgu. Gastrínhækkun er þekkt afleiðing meðferðar með PPI-lyfjum. Gastrín er hormón sem leikur lykilhlutverk í stjórnun á sýruframleiðslu magans. Gastrínhækkun er áhyggjuefni þar sem hún er talin geta valdið aukinni sýruframleiðslu þegar lyfjatöku er hætt. Það er einnig hugsanleg ástæða vaxandi tíðni langtíma PPI-lyfjameðferðar.

Markmið rannsóknarverkefnisins var að kanna mikilvægi klínískra þátta er varða notkun PPI-lyfja hjá sjúklingum með vélindabakflæði á langtíma PPI-lyfjameðferð. Sérstök áhersla var lögð á tengsl gastríns við kyn þar sem fyrsta rannsóknin sýndi að konur á PPI-lyfjum höfðu marktækt hærra gastríngildi en karlar (Rannsókn I). Þessar mikilvægu niðurstöður urðu kveikjan að framkvæmd tvíblindrar slembirannsóknar til að ákvarða hlutfall sjúklinga sem getur minnkað PPI skammtinn sinn um helming (Rannsókn II). Að auki var gerð þversniðsrannsókn (Rannsókn III) til að ákvarða mikilvæga þætti sem spá fyrir um gastrínhækkun. Ennfremur voru borin saman lyfjahvörf PPI-lyfs hjá heilbrigðum einstaklingum (Rannsókn IV) og gerð rannsókn á örvun á  gastríni eftir einungis fjögra daga PPI-lyfjameðferð.

Rannsóknirnar leiddu í ljós að konur á langtíma PPI-lyfjameðferð höfðu marktækt hærri örvun á gastríni samanborið við karla og voru líklegri en karlar til að þola skammtalækkun um helming. PPI-lyfjaskammtur og kvenkyn virðast gegna lykilhlutverki í þróun offramleiðslu á gastríni. Þessar niðurstöður benda til aukins næms kvenna fyrir PPI-lyfjum. Niðurstöðurnar eru mikilvægar þar sem konur með vélindabakflæði gætu náð árangursríkri einkennastjórnun með lægri skömmtum en karlar.

Abstract

In this research project the aim was to investigate important clinical aspects of the use of proton pump inhibitors (PPIs) in patients with gastroesophageal reflux disease. The study had a particular focus on the association of gastrin levels and gender since the first study, a cross-sectional study found significantly higher gastrin values among female PPI users than males (Study I). This novel observation led to a double blind randomized trial to determine the proportion of patients who could reduce their prior dosage by half with the hypothesis that females might be more sensitive to PPIs and therefore more likely to have a successful step down (Study II). As only a proportion of PPI users develops hypergastrinemia, we also wanted to determine the most important predictors of hypergastrinemia in long-term users of PPIs (Study III). Furthermore, we aimed to compare serum concentration of the PPI drug esomeprazole in males and females (Study IV).

Um doktorsefnið

Hólmfríður Helgadóttir er fædd í Reykjavík árið 1989. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans við Sund 2009. Hún lauk BS-prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012 og embættisprófi í læknisfræði frá sama skóla þremur árum síðar. Að loknu kandídatsári hóf hún sérnám í almennum lyflækningum við Landspítala þar sem hún starfar enn. Hólmfríður hefur stundað rannsóknarvinnu samhliða læknanámi og starfi undir handleiðslu Einars Stefáns Björnssonar prófessors. Foreldrar Hólmfríðar eru Helgi Jóhannesson og Gunnlaug Einarsdóttir. Dætur Hólmfríðar eru Sigurborg Kristófersdótir 3 ára og Álfhildur Kristófersdóttir 1 árs.

Hólmfríður Helgadóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 27. september.

Doktorsvörn í læknavísindum - Hólmfríður Helgadóttir