Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Andri Leó Lemarquis

Doktorsvörn í læknavísindum - Andri Leó Lemarquis - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
3. júní 2019 13:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Andri Leó Lemarquis ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Clinical, cellular and serologic analysis of selective IgA deficiency. Klínísk mynd og ónæmissvar einstaklinga með sértækan IgA skort.

 

Andmælendur eru dr. Rita Carsetti, prófessor við Ospedale Pediatrico Bambino í Róm, og dr. Valtýr Stefánsson Thors, aðjunkt í barnalækningum við Læknadeild Háskóla Íslands.

 

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor við Læknadeild, og meðleiðbeinandi var dr. Una Bjarnadóttir, lífefnafræðingur.

Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Ásgeir Haraldsson og dr. Ingileif Jónsdóttir, prófessorar við Læknadeild Háskóla Íslands, ásamt dr. René Toes, prófessor við Leiden University Medical Center í Hollandi.

 

Dr. Ingibjörg Harðardóttir, prófessor og varaforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

 

Ágrip af rannsókn

Markmið rannsóknarinnar var að greina klíníska og ónæmisfræðilega mynd sértæks IgA skorts (sIgAD). Notast var við klíníska greiningu, frumugreiningu eitilfrumna, sjálfsónæmismótefna-mælingu og boðefnamælingar til betri skilgreiningar á einstaklingum með gallann. Hjá sIgAD einstaklingum er há tíðni sjálfsónæmis, ofnæmissjúkdóma og sýkinga. Sermismælingar sýna fram á ofseytingu vissra ónæmisþátta sem tengjast B frumuþroskun. Þættirnir aðgreina sIgAD einstaklinga frá heilbrigðum og virðast einnig tengjast sjálfsónæmismyndun. Frumugreining einstaklinga bendir til stöðgunar snemma í B frumuþroska. Hins vegar hafa þeir eðlilegar T frumur hvað varðar fjölda og virkni. Örvun með T frumu óháðu svari B frumna er gallað, en það er mikilvægt í slímhúðum þar sem IgA er hvað mikilvægast. Fyrir utan lækkaða IL-21 svörun B frumna um pSTAT3 boðleiðina eru innanfrumuborðferlar einstaklinganna að mestu eðlilegir. mRNA tjáning einstaklinganna bendir til vanvirkrar svörunar sem tengist röskun í þroskun frá óþroskuðum B frumum til síðari þroskunarstiga. Niðurstöðurnar benda til vanstýringar ónæmissvars B frumna án T frumugalla. Þetta virðist mögulega tengjast hárri seytingu ónæmisþátta sem talið er að leiði til ofvirkni ónæmissvars og aukinnar byrði ofnæmis og ónæmissjúkdóma. Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru því að í sértækum IgA skorti er tenging milli klínískrar myndar sjálfsónæmis, sýkinga, ofnæmissjúkdóma og röskunar ónæmissvars er tengist B frumuþroskun með tilheyrandi ofseytingu ónæmisþátta og sjálfsónæmismótefnaseytingu. Þessir þættir þarfnast frekari rannsókna en gætu orðið að gagni við greiningu og einstaklingsmiðaðri meðferð einstaklinga með mótefnagalla og ónæmistengda sjúkdóma.

 

Abstract

The aim of the research project was to decipher the cellular, serologic and clinical phenotypic specificities of selective IgA deficiency (sIgAD). The research reveals that the defect is associated with an increased risk of diseases related to immune dysregulation such as autoimmunity, atopy and infections, especially the respiratory tract. The serologic analysis of individuals with sIgAD reveals a high autoantibody positivity with high serum concentrations of immune factors related to inflammation. Interestingly these factors cluster together and may be interconnected with autoantibody positivity. The cellular characterisation reveals a defect limited to early developmental stages of B cells. The IgA production defect is not only limited to T cell dependent stimulations but is also seen after T cell independent stimulations. While multiple B cell stimuli have been shown to lead to faulty IgA production, only a lower signalling in STAT3 was seen after IL-21 stimulation. Finally, the transcriptomic signatures of sIgAD B cells seen after CpG stimulation revealed big differences in transcription after stimulation that may be linked by to defects in B cell development. Collectively our data shows a serologically classified disease with immune morbidities that has an early B cell developmental problem, a dysregulated serological profile related to autoantibody production and a transcriptomic signature associated with early B cell dysregulation. These may be of value in the prediction of immune burden in PADs with a possibility for the development of personalised treatment options.

 

Um doktorsefnið

Andri Leó Lemarquis er fæddur í Reykjavík árið 1989. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræði- og málabraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 2009 og BS-prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands þremur árum síðar. Andri Leó hóf doktorsnám samhliða kandídatsnámi í læknisfræði árið 2013 undir handleiðslu Björns Rúnars Lúðvíkssonar prófessors. Veturinn 2014-2015 fékk Andri Leó short term fellowship frá EMBO samtökunum til að stunda rannsóknir undir handleiðslu prófessors Rene E. M. Toes, við Leiden University Medical Center í Hollandi. Auk þessa hefur Andri unnið að skrifum og erfðagreiningu undir handleiðslu prófessors Olovs Ekwall við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Svíþjóð veturinn 2018-2019. Þar heldur hann áfram rannsóknum í ónæmisfræði samhliða sérnámi.

Andri Leó útskrifaðist sem læknir í desember 2015 og lauk kandídatsnámi í janúar 2017. Hann hefur unnið sem deildarlæknir við Landspítalann en er nú búsettur í Svíþjóð þar sem hann sérhæfir sig í barnalæknisfræði við Sahlgrenska sjúkrahúsið.

Andri var valinn Ungur vísindamaður Landspítalans árið 2016, hefur fengið fjölda styrkja og kynnt rannsóknir sínar á alþjóðlegum ráðstefnum, sem og innanlands. Samhliða doktorsnámi hefur Andri Leó leiðbeint bæði BSc- og MSc-nemum og kennt sem stundakennari við Háskóla Íslands.

Foreldrar Andra Leó eru Gérard Lemarquis kennari, og María Sigríður Gunnarsdóttir bókasafnsfræðingur. Sambýliskona Andra er Una Sigtryggsdóttir myndlistarmaður og eiga þau börnin Tristan Emil 7 ára og Eleu Míu 2 ára.

Andri Leó Lemarquis

Doktorsvörn í læknavísindum - Andri Leó Lemarquis