Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum

Doktorsvörn í læknavísindum - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
18. september 2017 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Inga Jóna Ingimarsdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Blöðruhálskirtilskrabbamein hjá þremur norrænum þjóðum – Áhrif greiningar og meðferðarstefnu á nýgengi, þróun klínskra þátta og meðferð. Prostate cancer in three Nordic countries-The impact of diagnostic and therapeutic strategies on incidence, trends in clinical prensentation and management.

                

Andmælendur eru dr. Mats Lambe, prófessor við Karolinska Institutet í Svíþjóð, og dr. Sigurður Guðjónsson, þvagfæraskurðlæknir á Landspítala.

 

Engilbert Sigurðsson, deildarforseti og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

 

Ágrip af rannsókn

Í lok síðustu aldar sýndu faraldsfræðilegar rannsóknir fram á mun verri lifun meðal sjúklinga með  krabbamein í blöðruhálskirtli í Danmörku en á öðrum Norðurlöndum. Með því að afla klínískra upplýsinga um sjúklinga í Danmörku, Svíþjóð og hér á landi á kerfisbundinn hátt kom í ljós að verri lifun sjúklinga í Danmörku mátti rekja til þess að þar voru hlutfallslega mun fleiri með fjarmeinvörp við greiningu. Þegar leiðrétt var fyrir útbreiðslu sjúkdómsins við greiningu og fyrir æxlisvísinum PSA, minnkaði eða hvarf munurinn að mestu. Íslensku sjúklingarnir höfðu tilhneigingu til að vera yngri, fleiri greindust á fyrstu stigum sjúkdómsins auk þess sem uppvinnsla þeirra var ítarlegri. Læknanleg meðferð og hormónameðferð var oftar veitt á Íslandi. Svipuð þróun og hafði átt sér stað á Íslandi sást um fimm árum síðar í Danmörku, þ.e. hækkun á nýgengi blöðruhálskirtilskrabbameins, breytt aldursdreifing og hækkun á hlutfalli staðbundins krabbameins. Upplýsingar tilkynntar til Krabbameinsskrár um stigun og meðferð í Danmörku voru ónákvæmar. Þetta kann að rýra gæði þeirra rannsókna sem byggjast eingöngu á gögnum frá krabbameinsskrám. Lifun danskra sjúklinga með útbreitt blöðruhálskirtilskrabbamein hefur aukist marktækt frá árinu 1997 fram til tímabilsins 2007-2013. Ástæður fyrir því geta að miklu leyti verið vegna greiningarforskotsbjögunar (lead-time bias) en einnig vegna vægis nýrra lífslengjandi meðferða.

 

Um doktorsefnið

Inga Jóna er með mastersgráðu í læknisfræði frá Kaupmannhafnarháskóla, þaðan sem hún lauk læknisprófi í janúar 2007. Hún starfaði á hjartadeild Akademiska Háskólasjúkrahússins í Uppsölum í Svíþjóð árin 2013-2017, varð sérfræðingur í lyflæknisfræði árið 2015 og lauk sérfræðiprófi í hjartalækningum árið 2016. Í Svíþjóð hefur hún unnið við ýmsar klínískar rannsóknir og m.a. sett upp gagnagrunn sem auðveldar mat á stærð á gervilokum við ósæðalokuaðgerðir í gegnum nára með þræðingartækni. Hún starfar nú sem hjartalæknir á hjartadeild Landspítala Háskólasjúkrahúsi.

Foreldrar Ingu Jónu eru Ingimar Einarsson, fyrrv. skrifstofustjóri í Heilbrigðisráðuneytinu, og Stefanía R. Snævarr, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg.

Hér vantar að setja inn myndatexta í Uglu