Skip to main content

Doktorsvörn í jarðfræði - Nína Aradóttir

Doktorsvörn í jarðfræði - Nína Aradóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. apríl 2024 10:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni: Nína Aradóttir

Heiti ritgerðar: Landmótun og virkni fornra ísstrauma á Norðausturlandi

Andmælendur: Anna Hughes, dósent í náttúrulandfræði við Háskólann í Manchester, Dr. Eiliv Larsen, ísaldarjarðfræðingur og vísindamaður emeritus við Jarðfræðistofnun Noregs (NGU) 

Leiðbeinendur: Dr. Ívar Örn Benediktsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Dr. Ólafur Ingólfsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Anders Schomacker, prófessor í ísaldarjarðfræði við Jarðvísindadeild Háskólans í Tromsø (UiT), Dr. Skafti Brynjólfsson, jarðfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands

Stjórnandi varnar: Dr. Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip
Þessi ritgerð fjallar um ummerki og hegðun fornra ísstrauma á Norðausturlandi. Tilgátur hafa áður verið settar fram um ísstrauma í hinum íslenska meginjökli á síðasta jökulskeiði en takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar á landmótun þeirra. Markmið verkefnisins var því að auka skilning á landmótun, útbreiðslu og virkni fornra ísstrauma og þróun þeirra á síðasta jökulskeiði með því að kortleggja og rannsaka jökulræn landform. Rannsóknir á innri byggingu landforma munu auka skilning okkar á tilurð og myndun þeirra ásamt hegðun ísstraumanna. Í rannsókninni er lögð áhersla á straumlínulaga landform (jökulöldur og risakembur), sprungufyllingar og rifjagarða, en malarásar, leysingafarvegir, jökulgarðar og haugaruðningar eru einnig kortlagðir. Útbreiðsla og stefna straumlínulaga landforma benda til nokkurra ísstrauma sem hafa verið virkir á mismunandi tíma og færst til, ásamt ísaskilum. Á hámarki síðasta jökulskeiðs var ísflæði á rannsóknarsvæðinu til norðurs, án tilheyrandi áhrifa af undirliggjandi landslagi, en samhliða þynningu jökulþekjunnar varð ísflæðinu stjórnað æ meir af landslaginu. Sprungufyllingarnar og rifjagarðarnir eru til marks um stöðnun ísstrauma sem voru virkir á síðjökultíma. Breytileika í lögun og dreifingu landformanna er hægt að nýta til að skilja legu og virkni ísstraumanna. Niðurstöðurnar veita nýja innsýn í útbreiðslu og virkni fornra ísstrauma á Íslandi og gagnast til að skorða líkanareikninga af íslenska meginjöklinum. Rannsóknin leggur grunn að áframhaldandi kortlagningu á fornum ísstraumum á Íslandi og eykur skilning á hegðun nútíma og fornra meginjökla og viðbrögðum óstöðugra ísstrauma við hlýnandi loftlagi.

Um doktorsefnið
Nína Aradóttir fæddist í Reykjavík árið 1990 og lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 2010. Hún lauk BSc-gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands í febrúar 2015. Hluta af náminu var hún í skiptinámi við Háskólasetrið á Svalbarða (UNIS). Nína kláraði MS-gráðu í ísaldarjarðfræði frá Háskólanum í Tromsø (UiT) en stundaði námið við Háskólasetrið á Svalbarða þar sem hún var búsett. Að lokinni MS-gráðu starfaði hún sem landvörður hjá Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarði. Hún hóf doktorsnám í jarðfræði við jarðvísindadeild Háskóla Íslands í október 2018. Meðfram náminu hefur Nína sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands og starfað sem landvörður. Nína var í stjórn Landavarðafélags Íslands árin 2019-2023 og þar af formaður í tvö ár. Í dag situr hún í stjórn Jöklarannsóknafélags Íslands og starfar hjá Vatnajökulsþjóðgarði.

Nína Aradóttir

Doktorsvörn í jarðfræði - Nína Aradóttir