Skip to main content

Doktorsvörn í jarðfræði - Maarit Kalliokoski

Doktorsvörn í jarðfræði - Maarit Kalliokoski - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
20. nóvember 2020 15:00 til 17:00
Hvar 
Nánar 
Verður streymt

Streymi

Doktorsefni: Maarit Kalliokoski

Heiti ritgerðar: Gjóskurannsóknir í Finnlandi - möguleikar á nýtingu gjóskulagatímatals til aldursgreininga jarðlaga og umhverfisbreytinga í Finnlandi (An outline for Finnish Holocene tephrochronology – volcanic ash as a dating method in Finland)

Andmælandi
Dr. Nicholas Balascio, dósent í jarðfræði við The College of William & Mary í Williamsburg, Virginíu, Bandaríkjunum

Leiðbeinendur:  Dr. Esther Ruth Guðmundsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands
Dr. Timo Saarinen, prófessor við Háskólann í Turku, Finnlandi

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Stefan Wastegård, prófessor við Háskólann í Stokkhólmi, Svíþjóð

Doktorsvörn stýrir: Dr. Jukka Käyhkö, prófessor í landfræði við Háskólann í Turku, Finnlandi

Um er að ræða sameiginlega gráðu á milli Háskóla Íslands og Háskólans í Turku í Finnlandi

Ágrip

Gjóskulagatímatal er nákvæm aldursgreiningaraðferð þar sem gjóskulög eru notuð til að tengja saman og tímasetja jarðlög og fornleifar. Gjóskulagatímatal á rætur að rekja til eldvirkra svæða jarðarinnar, en þaðan hefur aðferðin dreifst til fjarlægra svæða. Þróun í aðferðafræðinni hefur leitt til nýtingar smásærrar gjósku (cryptotephra eða leynigjóska) sem hefur borist langt frá eldvirkum svæðum og myndar örþunn ósýnileg lög í jarðlögum.

Í þessu doktorsverkefni er leitast við að kanna möguleika á notkun smásærrar gjósku til aldursgreininga í Finnlandi. Þessi rannsókn er hin fyrsta sinnar tegundar á smásærri gjósku í Finnlandi. Meginmarkmiðið með rannsókninni er að byggja upp gjóskulagatímatal í Finnlandi sem myndi nýtast sem aldursgreiningartæki í umhverfisrannsóknum í Fennóskandíu. Í verkefninu voru 30 mýrar og stöðuvötn í Suður- og Mið-Finnlandi könnuð með tilliti til tilvistar leynigjósku, og nær rannsóknarsvæðið frá Álandseyjum í vestri til landamæra Finnlands og Rússlands í austri. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós tilvist leynigjóskulaga frá 19 eldgosum, þar af voru 17 frá íslenskum eldstöðvum og tvö frá eldfjöllum í Alaska. Elsta efnagreinda gjóskan sem borist hefur til Finnlands er 7000 ára gömul Heklugjóska (Hekla 5), en yngsta gjóskan myndaðist hins vegar í Öskjugosinu árið 1875. Finnska gjóskulagatímatalið spannar því síðustu 7000 ár og niðurstöður verkefnisins sýna að gjóska hefur borist tiltölulega oft til Finnlands á þessu tímabili.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að mörg gjóskulög, eins og Askja 1875, Hekla 1845, Hekla 1510, Landnám (Torfajökull), White River Ash, Hekla Ö og Aniakchak hafa dreifst umtalsvert víðar enn áður hefur verið þekkt. Þar að auki er gjóskulaginu Hekla Y lýst í fyrsta sinn utan Íslands.

Niðurstöður þessa verkefnis er mikilvægur grunnur að áframhaldandi rannsóknum á smásærri gjósku í Finnlandi, Fennóskandíu og Vestur-Evrópu. Sá fjöldi gjóskulaga sem fundist hefur í Finnlandi í þessari rannsókn gefur tilefni til og endurspeglar mikla möguleika á frekari gjóskurannsóknum og nýtingu gjóskulaga til að tímasetja jarðlög og umhverfisbreytingar í Finnlandi.

Um doktorsefnið

Maarit Kalliokoski er fædd árið 1978. Hún flutti til Íslands árið 1998 og lauk B.Ph.Isl.-gráðu við Háskóla Íslands árið 2002. Síðan þá hefur hún búið á Íslandi og í Finnlandi á víxl og stundað jarðfræðinám við Háskóla Íslands og Háskólann í Turku, þar sem hún lauk BS-prófi árið 2011 og MS-prófi árið 2013. Maarit hóf doktórsnám í kvarterjarðfræði við Háskólann í Turku árið 2014, en flutti aftur til Íslands árið 2017 til að sinna rannsóknum sem styrkþegi við Norræna eldfjallasetrið innan Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hún hóf doktorsnám árið 2018 og lýkur sameiginlegri gráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Turku. Meðfram námi hefur Maarit unnið sem bókmenntaþýðandi.

Maarit Kalliokoski

Doktorsvörn í jarðfræði - Maarit Kalliokoski