Skip to main content

Doktorsvörn í jarðfræði - Eemu Ranta

Doktorsvörn í jarðfræði - Eemu Ranta - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. febrúar 2022 14:00 til 16:00
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Vörninni verður streymt

Doktorsefni: Eemu Ranta

Heiti ritgerðar: Rannsókn á jarðskorpu og jarðmöttli undir íslenskum eldfjöllum með stöðugum samsætum reikulla efna (Stable isotopes of volatile elements as a window into the crust and mantle beneath Icelandic volcanoes)

Andmælendur:
Dr. Jacqueline E. Dixon, prófessor við College of Marine Science, University of South Florida, Bandaríkjunum
Dr. James Farquhar, prófessor við Department of Geology, University of Maryland, Bandaríkjunum

Leiðbeinendur: Dr. Sæmundur Ari Halldórsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands
Dr. Andri Stefánsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Peter H. Barry, fræðimaður við Woods Hole Oceanographic Institution, Bandaríkjunum

Doktorsvörn stýrir: Dr. Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun og deildarforseti Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip

Reikul efni og sér í lagi samsætur þeirra (t.d. H2O, He, B, CO2, S, Cl), veita margvíslegar upplýsingar um kvikuferli, sem og uppsprettur þeirra í möttli og skorpu. Í þessari ritgerð eru lagðar fram fimm greinar þar sem reikul efni, uppleyst í kviku og í jarðhitavökva, eru könnuð með það að markmiði að auka skilning okkar á skorpuferlum, djúpstæðri og grunnstæðri kvikuafgösun. Sérstök áhersla var lögð á að rannsaka basalt og jarðhitavökva úr Kverkfjalla-eldstöðvakerfniu með tilliti til þessara markmiða.

Niðurstöður eru eftirfarandi: (1) Nota má samsætur klórs í súru íslensku bergi til að varpa ljósi á samspil vökva og bráðar. Sýnt er fram á að áður óþekkt ferli, meltun kvikupækla, er að öllum líkindum grundvallarþáttur við myndun súrs bergs hér á landi sem og annars staðar. (2) Samsætur brennisteins í íslensku basalti bera vott um flókin skorpuferli ásamt margbreytilegum uppsprettum brennisteins í íslenska jarðmöttlinum. (3) Djúpstæð kvikuafgösun gegnum jarðhitakerfi Kverkfjalla og Öskju er helsta uppspretta CO2 og S og er útstreymi þeirra frá möttli til andrúmslofts rakið. (4) Jarðefnafræði bergs úr Kverkfjallakerfinu er best skýrð með hliðsjón af þykku steinhveli sem líklegt er að stjórni lengd bræðslusúlu undir svæðinu sem og ósamhverfu í möttulþáttum eins og þeir birtast okkur í basalti Miðhálendisins. (5) Uppleyst reikulefni í basalti Kverkfjallakerfisins bera keim af möttli sem endurtekið hefur verið auðgaður með vökvum er losa frá sökkvandi úthafsfleka á niðurstreymisflekamótum.

Um doktorsefnið

Eemu Ranta fæddist árið 1989 og ólst upp í Tampere í Finnlandi, Grenoble í Frakklandi og Gautaborg í Svíþjóð. Eemu lauk BSc-gráðu í jarðvísindum frá Stokkhólmsháskóla árið 2015 og MSc-gráðu í jarðfræði frá Háskólanum í Helsinki árið 2017. Eemu hóf störf sem styrkþegi á Norræna eldfjallasetrinu í ágúst 2017. Stuttu seinna hóf hann svo formlegt doktorsnám við Háskóla Íslands. Hann býr í Reykjavík ásamt konu sinni, myndlistarkonunni Pauliinu Jokela, og Neeme,7 ára.

 Eemu Ranta

Doktorsvörn í jarðfræði - Eemu Ranta