Skip to main content

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Gunnvör S. Karlsdóttir

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Gunnvör S. Karlsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. október 2017 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 6. október næstkomandi fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Gunnvör S. Karlsdóttir doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum sem nefnist Guðmundar sögur biskups. Þróun og ritunarsamhengi. Andmælendur eru Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, og Marianne Kalinke, prófessor emeríta við Illinois-háskóla í Bandaríkjunum.

Doktorsritgerðin er unnin undir leiðsögn Ásdísar Egilsdóttur, prófessor emeríta. Aðrir í doktorsnefnd eru Svanhildur Óskarsdóttir og Einar Sigurbjörnsson.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Til rannsóknar eru fjórar mismunandi sögur Guðmundar Arasonar góða Hólabiskps (1161–1237) sem allar voru ritaðar á fyrri hluta 14. aldar. Frásagnarhlutar, bygging, framsetning og stíll hverrar sögu er kannaður með það fyrir augum að bera saman breytingar frá einni gerð til annarrar og rekja þróun. Að því loknu er ritunarsamhengi sagnanna skoðað með hliðsjón af bókmenntasögu ritunartímans og kirkjusögulegum forsendum. Rannsóknin er framlag til bókmenntasögu 14. aldar og er hluti af rannsóknarverkefninu Encounters with the Paranormal sem stýrt hefur verið af Ármanni Jakobssyni.

Doktorsefnið

Gunnvör S. Karlsdóttir lauk BA prófi í íslensku 1998 og MA prófi í íslenskum bókmenntum frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands 2009. Á námstímanum hlaut hún styrk í tengslum við ofangreint rannsóknarverkni, Encounters with the Paranormal, ásamt kennslustyrk skólaárið 2011– 2012 við Íslensku- og menningardeild. Hún var ennfremur þátttakandi í verkefninu Translatio sem laut að þýðingarhugtakinu í víðasta skilningi og var styrkt af Norræna rannsóknasjóðnum.

Gunnvör S. Karlsdóttir