Skip to main content

Doktorsvörn í íslenskri málfræði: Vanessa Isenmann

Doktorsvörn í íslenskri málfræði: Vanessa Isenmann - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
21. desember 2022 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Miðvikudaginn 21. desember 2022 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Vanessa Isenmann doktorsritgerð sína í íslenskri málfræði, Icelandic digital practices on Facebook: Language use in informal online communication. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Andmælendur við vörnina verða dr. Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar, og dr. Andreas Stæhr, dósent við Kaupmannahafnarháskóla.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Kristjáns Árnasonar, prófessor emeritus við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar, og dr. Jannis Androutsopoulos, prófessor við háskólann í Hamburg í Þýskalandi.

Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Doktorsritgerð Vanessu kannar málnotkun Íslendinga á netinu. Nánar tiltekið er fjallað um málnotkun í óformlegum samskiptum á Facebook með tilliti til hvata fólks í vali á tungumáli og málsniði, en einnig er hugað að viðhorfum málnotenda til óformlegrar málnotkunar á netinu. Markmið verkefnisins er að skoða hvaða leiðir málhafar nota til tjáningar á Facebook og af hverju. Í brennidepli rannsóknarinnar er form, hlutverk og félagsmálfræðilegt gildi íslensku í óformlegum netsamskiptum. Rannsóknin er sérstaklega tímabær í ljósi þess að  breytingar virðast eiga sér stað um þessar mundir í málumhverfi og málvenjum meðal (ungra) Íslendinga, ekki síst í stafrænum miðlum, en það hefur vakið áhyggjur um veika stöðu íslenskunnar í stafrænu umhverfi.

Um doktorsefnið

Vanessa Monika Isenmann lauk BA gráðu í þýskri málfræði og norðurlandafræði frá Humboldt háskóla í Berlín árið 2008 og meistaraprófi í þýsku sem erlendu tungumáli (Deutsch als Fremdsprache) frá sama háskóla árið 2011. Hún starfar nú sem aðjúnkt í þýsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.

 

Vanessa Isenmann.

Doktorsvörn í íslenskri málfræði: Vanessa Isenmann