Skip to main content

Doktorsvörn í íslenskri málfræði: Matteo Tarsi

Doktorsvörn í íslenskri málfræði: Matteo Tarsi - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
30. júní 2020 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þriðjudaginn 30. júní 2020 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Matteo Tarsi doktorsritgerð sína í íslenskri málfræði sem nefnist „Loanwords and native words in Old and Middle Icelandic (12th c.-1550), eða „Tökuorð og innlend orð í forn- og miðíslensku (12. öld–1550).“ Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. Hægt verður að fylgjast með vörninni í streymi hér.

Andmælendur við vörnina verða dr. Michael Schulte, prófessor í norrænum fræðum við Háskólann í Ögðum (Agder), og dr. Sara Pons-Sanz, dósent í enskum málvísindum við Háskólann í Cardiff.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Jóns Axels Harðarsonar, prófessors í íslensku við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenkum fræðum, og dr. Veturliði Óskarsson, prófessor í norrænum málum við Uppsalaháskóla.

Torfi H Tulinius, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Rannsóknin beinist að sambýli og samkeppni tökuorða og innlendra samheita þeirra í forn- og miðíslensku (12. öld til 1550) en á þeim tíma var málhreinsunarstefna enn ekki komin til sögunnar.

Aðalmarkmið rannsóknarinnar er að öðlast betri skilning á því hvernig sambandi þessara tveggja orðategunda, tökuorða og innlendra orða, er háttað og jafnframt að leitast við að skýra þá krafta sem liggja sambýli og samkeppni þeirra til grundvallar.

Greiningin beinist einvörðungu að prósa-textum og þá að öllum mismunandi textategundum innan íslenskra bókmennta í lausu máli sem höfðu verið festar á blað á þeim tíma sem rannsóknin tekur til.

Í rannsókninni er komist að endanlegri niðurstöðu um hvernig tökuorð og innlend samheiti þeirra lifa saman í íslenskum orðaforða að fornu.

Niðurstöður rannsóknarinnar segja einnig til um eðli þessa sambýlis og hvernig það tengist þeim textategundum sem rannsakaðar voru. Rannsóknin stingur upp á að niðurstöður um samband milli mismunandi tegunda tökuorða og innlendra samheita þeirra megi alhæfa og nota í rannsóknum á öðrum málum með svipaðri bókmenntahefð og þeirri íslensku.

Að lokum má segja að niðurstöður þessarar rannsóknar víki ekki frá því sem vænta má um samlífi og samkeppni tökuorða og innlendra orða eftir að hreintungustefnan kom til sögunnar. Mikill fjöldi tökuorða, sem hér hafa verið tínd saman, hverfur úr íslenska orðaforðanum eftir 1550 einkum sökum málhreinsunarstefnunnar en innlend samheiti þeirra lifa áfram.

Um doktorsefnið

Matteo Tarsi lauk B.A.-prófi í evrópskum bókmenntum og tungumálum við Háskólann í Pisa (2010) og M.A.-prófi í textafræði frá sama skóla árið 2013. Hann lauk svo B.A.-prófi í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands árið 2014, en hann var styrkþegi Árnastofnunar á skólaárunum 2012-13 og 2013-14. Hans rannsóknasvið eru söguleg málvísindi og saga málvísinda.

Matteo Tarsi.

Doktorsvörn í íslenskri málfræði: Matteo Tarsi