Skip to main content

Doktorsvörn í iðnaðarverkfræði - Helga Guðrún Óskarsdóttir

Doktorsvörn í iðnaðarverkfræði - Helga Guðrún Óskarsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. desember 2022 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni: Helga Guðrún Óskarsdóttir

Heiti ritgerðar: Í átt að kenningu um framleiðni þekkingarstarfsmanna með mjúkri kerfisnálgun (A Soft Systems Approach Towards a Theory of Knowledge Worker Productivity)

Andmælendur:
Dr. Petri Helo, prófessor við  University of Vaasa, Finnlandi
Dr. Nina Helander, prófessor við Tampere University, Finnlandi

Leiðbeinandi: Dr. Guðmundur Valur Oddsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ

Einnig í doktorsnefnd:

Dr. Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ
Dr. Jón Þór Sturluson, deildarforseti Viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík

Doktorsvörn stýrir: Dr. Rúnar Unnþórsson, prófessor og deildarforseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar HÍ

 

Ágrip

Tilgangur þessarar rannsóknar er að byggja upp kenningu um framleiðni þekkingarstarfsmanna. Þegar kemur að framleiðni þeirra er ekki til einn þekkingargrunnur sem er samþættaður og hægt er að hagnýta. Þekking á framleiðni þekkingarstarfsmanna dreifist yfir mörg rannsóknarsvið. Í þessari rannsókn er leitast við að skoða framleiðni þekkingarstarfsmanna á heildrænan hátt með verkfræðilegri nálgun, með því að skoða kerfin sem tengjast slíkum starfsmönnum.

Í rannsókninni eru notaðar fyrstu þrjár athafnirnar í mjúkri kerfisnálgun (Soft Systems Methodology) til að skoða vandamálið hvernig eigi að stýra og bæta framleiðni þekkingarstarfsmanna með því að rýna í ritrýndar greinar á kerfisbundinn hátt. Fyrstu þrjár athafnirnar í mjúkri kerfisnálgun eru: (1) leita upplýsinga um vandasamt ástand, (2) búa til viðeigandi líkön af markvissum athöfnum (Purposeful Activity Models), og (3) ræða um ástand út frá líkönum.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru svo notaðar til að leggja fram tillögu að heildrænum ramma um framleiðni þekkingarstarfsmanna. Rannsóknin samanstendur af þremur greinum: (I) A Soft Systems Approach to KWP - Analysis of the Problem Situation, (II) A Soft Systems Approach to KWP:a Purposeful Activity Model for the Individual og (III) Towards a Holistic KWP framework.

Til þess að þróa heildrænan ramma um framleiðni þekkingarstarfsmanna voru ályktanir dregnar af þeim ritrýndu greinum sem teknar voru fyrir og niðurstöður athafnanna í mjúkri kerfisnálgun túlkaðar til þess að greina aðalatriðin og þá þætti sem hafa áhrif á þau. Aðalatriðin sem mynda huglæga rammann eru ástand einstaklingsins, vinna og útkoma.

Útkoman af viðeigandi vinnu getur verið virði fyrir einstaklinginn, aðra í félagslegu kerfi hans og skipulagsheildina. Það er mannlegt eðli að hneigjast til að búa til virði fyrir sjálfan sig, þess vegna þarf skipulagsheildin að samræma sínar þarfir því sem skapar virði fyrir einstaklinginn, til þess að hámarka framlag  til skipulagsheildarinnar. Þetta er hægt með því að hafa áhrif á ástand einstaklingsins í gegnum ytri þætti eins og verðlaunakerfi, stuðning og sambönd til þess að beina þekkingarstarfsmanninum í áttina að æskilegri hegðun. Einnig eru innri þættir sem hafa áhrif á ástand hans svo sem hegðun þeirra, eiginleikar, heimsmynd og túlkun á umhverfinu og upplifunum. Ástand einstaklingsins hefur áhrif á innsæi hans þegar hann metur vinnu sína og tekur ákvarðanir í ferlinu um að koma hlutum í verk. Þessi rannsókn auðgar þekkingu á framleiðni þekkingarstarfsmanna með því að gefa yfirsýn yfir þá fjölmörgu þætti sem hafa áhrif á framleiðni einstaklingsins og draga þá saman í einfaldan og hnitmiðaðan ramma.

Þessi rannsókn notar einnig nýja nálgun á mjúka kerfisnálgun með því að aðlaga hana til að nota ályktanir sem dregnar eru af ritrýndum greinum frekar en nota viðtöl og umræður við hagsmunaaðila.

 Um doktorsefnið

Helga Guðrún Óskarsdóttir fæddist 1987. Hún lauk BS-prófi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands 2011 og MS-prófi í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 2014. Hún hefur unnið hjá ýmsum hugbúnaðarfyrirtækjum sem vörustjóri, verkefnastjóri og millistjórnandi en hóf doktorsnám árið 2016. Helga Guðrún er í sambúð með Ævari Gunnari Ævarssyni og saman eiga þau tvö börn, með eitt á leiðinni.

 

Helga Guðrún Óskarsdóttir

Doktorsvörn í iðnaðarverkfræði - Helga Guðrún Óskarsdóttir