Skip to main content

Doktorsvörn í hjúkrunarfræði og heilbrigðisvísindum - Rannveig Jóna Jónasdóttir

Doktorsvörn í hjúkrunarfræði og heilbrigðisvísindum - Rannveig Jóna Jónasdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
11. desember 2017 13:00 til 15:30
Hvar 

Askja

Salur 132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Rannveig Jóna Jónasdóttir ver doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði og heilbrigðisvísindum við Hjúkrunarfræðideild og Læknadeild.

 

Ritgerðin ber heitið: Þróun skipulagðrar, hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu til sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild og prófun á áhrifum hennar. Development of a structured nurse-led follow-up for patients after discharge from the intensive care unit and testing of its effectiveness.

 

Andmælendur eru dr. Leanne Aitken, prófessor við City University of London, og dr. Páll Eyjólfur Ingvarsson, taugalæknir við Endurhæfingardeild LSH og klínískur dósent við Læknadeild Háskóla Íslands.

 

Umsjónarkennarar og leiðbeinendur voru dr. Gísli H. Sigurðsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og dr. Helga Jónsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Christina Jones, Honorary Reader við University of Liverpool, og dr. Berglind Guðmundsdóttir, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands.

 

Dr. Herdís Sveinsdóttir, prófessor og deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar, stjórnar athöfninni.

 

Ágrip af rannsókn

 

Rannsóknin snýr að sjúklingum eftir útskrift af gjörgæsludeild. Þróuð var meðferð, byggð á samþættu, kerfisbundnu yfirliti. Meðferðin er skipulögð, hjúkrunarstýrð eftirgæsla og felst í reglubundnu eftirliti gjörgæsluhjúkrunarfræðinga með sjúklingunum frá útskrift af gjörgæsludeild að þremur mánuðum eftir útskrift þaðan. Prófuð eru áhrif meðferðarinnar á líkamlegt og sálrænt heilsufar sjúklinganna samanborið við sjúklinga sem fá hefðbundna þjónustu. Rannsóknin er framsýn samanburðarrannsókn og rannsóknaraðferðir megindlegar. Almennt líkamlegt og sálrænt heilsufar sjúklinganna var mælt frá því fyrir innlögn á gjörgæsludeild, við útskrift af legudeild og við þrjá, sex og tólf mánuði eftir útskrift af gjörgæsludeild. Því til viðbótar voru mæld einkenni kvíða, þunglyndis og áfallastreituröskunar frá útskrift af legudeild að tólf mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild.

 

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna ekki árangur skipulagðrar, hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu á bætt líkamlegt og sálrænt heilsufar sjúklinganna fram yfir hefðbundna þjónustu. Hins vegar höfðu sjúklingar um einu ári síðar, í hvoru tveggja tilraunahópi og samanburðarhópi, ekki náð samsvarandi heilsufari og þeir höfðu fyrir innlögn á gjörgæsludeild. Einkenni kvíða og þunglyndis voru fremur væg en sjúklingar úr báðum hópum höfðu einkenni áfallastreituröskunar frá þremur að tólf mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild.     

 

Sjúklingar sem fá bráð og alvarleg veikindi og lifa af gjörgæsludvölina virðast glíma við langvarandi afleiðingar veikindanna og gjörgæslulegunnar á líkamlegt og sálrænt heilsufar sitt. Einkenni áfallastreituröskunar eru sláandi og langvarandi hjá þessum hópi sjúklinga. Frekari rannsóknir þarf til að þróa og mæla útkomu skipulagðrar, hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu gjörgæslusjúklinga til að geta bætt líkamlegt og sálrænt heilsufar þeirra með markvissum aðgerðum. 

 

Um doktorsefnið

 

Rannveig Jóna Jónasdóttir er fædd árið 1968. Hún lauk BS-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og MS-prófi í hjúkrunarfræði frá sama skóla árið 2010. Rannveig hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi frá árinu 1994 og frá 2014 sem sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun. Rannveig er gift Robert J. Kluvers og saman eiga þau dæturnar Helgu Elínu, háskólanema og Kötlu Rut, menntaskólanema. 

Rannveig Jóna Jónasdóttir

Doktorsvörn í hjúkrunarfræði og heilbrigðisvísindum - Rannveig Jóna Jónasdóttir