Skip to main content

Doktorsvörn í hjúkrunarfræði - Margrét Guðnadóttir

Doktorsvörn í hjúkrunarfræði - Margrét Guðnadóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
23. maí 2024 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 23. maí 2024 ver Margrét Guðnadóttir doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Bætt umönnun fólks með heilabilun í heimahúsi og stuðningur við aðstandendur. Improving care at home for people living with dementia and family support.

Andmælendur eru dr. Ruth Bartlett, prófessor við VID háskólann í Ósló og dósent við University of Southampton, og Richard Ward, dósent við University of Stirling í Skotlandi.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Kristín Björnsdóttir, prófessor. Auk hennar sátu í doktorsnefnd Christine Ceci, dósent, Marit Kirkevold, prófessor og Jón Snædal, prófessor.

Helga Bragadóttir, prófessor og deildarforseti við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Vörninni verður streymt: https://vimeo.com/event/4305338

Ágrip

Í doktorsritgerðinni er lögð áhersla á að skapa aukna þekkingu á því hvernig styðja má við fjölskyldur einstaklinga með heilabilun, í daglegu amstri þeirra, og aðstoða við að gera líf þeirra og aðstæður eins góðar og mögulegt er hverju sinni. Verkefnið var mótað innan hugmyndafræði um tengsl og samhengi einstaklinga og aðstæðna þeirra (e. care collective). Doktorsverkefnið samanstendur af tveimur eigindlegum rannsóknum; viðtalsrannsókn við 20 lykilstarfsmenn um uppbyggingu veittrar þjónustu og langtímavettvangsrannsókn með tilfellasniði, þar sem átta fjölskyldum var fylgt eftir yfir tveggja ára tímabil. Allar fjölskyldurnar í rannsókninni áttu það sameiginlegt að finna þörf fyrir aukinn stuðning og kölluðu eftir að fagfólk sýndi aðstæðum þeirra áhuga. Tilfellin gáfu til kynna fjölbreyttar aðferðir fjölskyldna í að finna sér sinn eigin farveg til að komast í gegnum dagana heima með heilabiluninni á meðan beðið var eftir því að komast að í formlegum stuðningi sérhæfðrar dagþjálfunar. Gefa þarf tíma og rými í skipulagi opinberrar þjónustu fyrir fagfólk að læra af og öðlast skilning á fjölbreyttum aðferðum fjölskyldna í daglegu lífi til að bæta megi stuðning út frá forsendum og aðstæðum hverrar fjölskyldu. Niðurstöður benda á að til þess að mæta megi flóknum og ólíkum þörfum einstaklinga sem greindir hafa verið með heilabilun og fjölskyldum þeirra verður fagfólk að styrkja nálgun sína vegna heilabilunar, sérstaklega á sviði heilsugæslu og heimaþjónustu.

Abstract

This doctoral thesis focuses on knowledge related to how individuals living with dementia and their family caregivers can be better supported in making their lives at home as good as possible. The study was conducted within a relational understanding of life and the shared context surrounding a person, identified as the care collective of people and their connections. It comprised two qualitative studies: an interview study with 20 key informants on the formal service provided and a longitudinal ethnographic case study, where eight families were followed over two years. Each case study depicted families' diversity in finding ways to live with dementia at home while on a waiting list for formal support. To meet the complex needs of families, formal service providers must enhance their approach to primary care and home care. Learning from families' daily lives enables formal service providers to better meet each family's varied and specific needs.

Um doktorsefnið

Margrét Guðnadóttir er fædd árið 1976 í Reykjavík. Hún útskrifaðist af náttúrufræðibraut Menntaskólans í Reykjavík árið 1996. Margrét lauk B.Sc. prófi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 2002 og M.Sc. gráðu frá sama skóla árið 2016. Í framhaldi af því hlaut hún sérfræðileyfi frá embætti landlæknis sem sérfræðingur í heimahjúkrun. Haustið 2017 hóf Margrét vinnu við doktorsrannsókn sína. Rannsóknarverkefnið hlaut styrk frá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum og var unnið í góðri samvinnu við Minnismóttöku Landspítala. Samhliða doktorsnámi hefur Margrét sinnt kennslu í heimahjúkrun og samþættri umönnun sem aðjunkt við HÍ, ásamt því að sinna fullu starfi hjá Velferðarsviði Reykjavíkuborgar við innleiðingu SELMU, sérhæfðs teymis til styrkingar á almennri heimahjúkrun vegna þjónustu við hruma einstaklinga í heimahúsi. Foreldrar Margrétar eru Guðni Franzson og Guðrún Björg Erlingsdóttir. Eiginmaður Margrétar er Hallgrímur Arnarson og börn þeirra eru Þórður, Grímur Smári og Þóranna Guðrún.

Margrét Guðnadóttir ver doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands fimmtudaginn 23.maí

Doktorsvörn í hjúkrunarfræði - Margrét Guðnadóttir