Skip to main content

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Aðalheiður Svana Sigurðardóttir

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Aðalheiður Svana Sigurðardóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. júní 2022 9:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 24. júní ver Aðalheiður Svana Sigurðardóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Munnheilsa aldraðra einstaklinga: Lífsgæði íbúa og munnheilsuvernd á íslenskum hjúkrunarheimilum.

Andmælendur eru dr. Ásta Steinunn Thoroddsen, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, og dr. Álfheiður Ástvaldsdóttir, sérfræðingur við Háskólann í Malmö í Svíþjóð.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Inga Bergmann Árnadóttir, prófessor við Tannlæknadeild, og meðleiðbeinandi Alfons Ramel, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Ingibjörg Hjaltadóttir, prófessor, Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent og Sigurður Rúnar Sæmundsson, prófessor.

Ellen Flosadóttir, dósent og deildarforseti Tannlæknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 09:00.

Vörninni verður streymt: https://livestream.com/hi/doktorsvornadalheidursvana

Ágrip

Góð munnheilsa er mikilvæg fyrir alla aldurshópa og stuðlar að góðri almennri heilsu, vellíðan og betri lífsgæðum. Markmið verkefnisins voru annars vegar að skima tann- og munnheilsu íbúa á hjúkrunarheimilum til að skoða tengsl milli munnheilsu, lífsgæða og næringartengdra vandamála. Hins vegar að rannsaka viðhorf starfsfólks á sömu hjúkrunarheimilum til munnheilsuverndar og bera niðurstöður saman milli fagstétta. Þar var skoðað hvort jákvætt og neikvætt viðhorf starfsfólks hefði mögulega tengsl við fagleg störf þeirra við munnheilsuvernd.

Niðurstöður sýndu að munnheilsa íbúa á hjúkrunarheimilum sem tóku þátt í rannsókninni var slæm. Munnkvillar voru algengir og meirihluti íbúa þurfti á tannlæknisþjónustu að halda. Slæm tann- og munnheilsa tengdist verri lífsgæðum, lakari tyggingarfærni og næringartengdum vandamálum. Þessir þættir geta verið mikilvægur fyrirboði um aukna hættu á vannæringu.

Meðal starfsfólks var algengast að þeir sem sinntu daglegri munnhirðu íbúa væru ólíklegastir til að hafa menntun á því sviði. Starfsfólk með menntun í munnheilsuvernd og þjálfun í munnhirðu voru með jákvæðari viðhorf til munnheilbrigðisþjónustu. Jákvætt viðhorf hjá starfsfólki bendir til þess að það trúi fremur á að fagleg störf þeirra geti haft áhrif á framgöngu munnkvilla meðal íbúa.

Álykta má út frá niðurstöðum að endurskoða þurfi munnheilsuvernd á hjúkrunarheimilum. Tryggja þurfi að starfsfólk hafi sértæka þekkingu á munnheilsuvernd aldraðra og búi yfir skimunartæki í forvarnarskyni. Þannig er hægt að meta reglulega munnheilsu íbúa svo að draga megi úr sjúkdómsbyrði munnkvilla meðal þeirra.

Abstract

Good oral health is fundamental for general health, wellbeing and good quality of life for all age groups. First, this work aimed to screen oral health among residents in nursing homes and explore the association between oral health, quality of life and nutrition related problems. Second, it aimed to study oral health beliefs and attitudes to oral care among staff working in these same nursing homes and compare the results between professions, along with the association between positive and negative oral health beliefs and oral care.

The findings have identified a high prevalence of oral diseases and untreated oral health problems among residents in this sample of nursing homes. Residents with poor oral health in this study had reduced quality of life. Poor oral health was associated with less chewing ability, which was associated with nutrition-related problems, these factors could act as predictor for the risk of malnutrition. Most nursing home staff in this study had limited or no oral health education or practical training in oral care. The results show that oral health education may promote positive oral health beliefs. Further, aid staff to believe that their oral care activities can reduce oral health problems among residents.

Based on the results, it can be concluded that oral care standards should be revised in nursing homes to guarantee oral care according to individualized needs. Staff must have specific oral health education and training in geriatric oral care. Further, staff needs access to an appropriate oral health assessment tool for regular screening. That could prevent the development of oral diseases among residents and help to reduce the burden of oral diseases in this vulnerable group.

Um doktorsefnið

Aðalheiður Svana Sigurðardóttir er fædd árið 1967 í Kópavogi. Hún lauk stúdentsprófi af hagfræðabraut Menntaskólans á Ísafirði árið 1989, prófi í tannsmíði frá Tannsmiðaskóla Íslands árið 1994, meistaraprófi í tannsmíði frá VMA árið 1997, starfsréttindanámi í klínískri tannsmíði frá tannlæknadeild Háskólans í Árósum árið 2001. Kennsluréttindanámi frá Menntavísindasviði HÍ árið 2008,  viðbótarnámi til BS-prófs í tannsmíði frá tannlæknadeild HÍ árið 2010, kennslufræði háskóla árið 2011 og prófi í lýðheilsuvísindum, MPH, frá Tannlæknadeild HÍ árið 2014. Aðalheiður Svana hefur starfað sem tannsmiður og klínískur tannsmiður frá námslokum, frá 2010 sem formaður námsbrautar í tannsmíði við tannlæknadeild og unnið þar við kennslu. Foreldrar hennar eru Sólveig Margrét Óskarsdóttir sjúkraliði og Sigurður Þorvaldsson bifvélavirkjameistari, sem er látinn. Aðalheiður Svana er gift Bárði Jóni Grímssyni, umsjónarmanni útgerðar hjá Hafrannsóknastofnun, og eiga þau fjögur börn, Jóhönnu, Bjarka, Bríeti Ósk og Svanbjörn.

Aðalheiður Svana Sigurðardóttir ver doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Tannlæknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 24. júní.

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Aðalheiður Svana Sigurðardóttir