Skip to main content

Doktorsvörn í hagnýtri siðfræði: Ástríður Stefánsdóttir

Doktorsvörn í hagnýtri siðfræði: Ástríður Stefánsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
29. júní 2022 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Miðvikudaginn 29. júní 2022 fer fram doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Þá ver Ástríður Stefánsdóttir doktorsritgerð í hagnýtri siðfræði. Titill ritgerðarinnar er „Exploring the Meaning of Medicine. A Reflection Upon Three Key Examples.“

Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. (Smellið hér til að fylgjast með vörninni í streymi).

Andmælendur við vörnina verða dr. Kristin Zeiler, prófessor við Háskólann í Linköping, og dr. Rolf Ahlzén, prófessor emeritus við Háskólann í Karlstad.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Vilhjálms Árnasonar, prófessors við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Bjørn Hofmann, prófessor við NTNU og gestaprófessor við Háskólann í Osló, og dr. Stefán Hjörleifsson, dósent við Háskólann í Bergen.

Steinunn Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Í doktorsritgerð sinni rannsakar Ástríður merkingu læknisfræðinnar og beinir sjónum að siðferðilegum álitaefnum sem vakna þegar læknisfræðin fer inn á ný svið og það reynir á mörk hennar. Aðferðafræðin og rökfærslan í ritgerðinni er sett fram í tveimur hlutum. Í fyrri hluta rannsakar höfundur þrjú siðferðileg dæmi sem varpa ljósi á núverandi umræðu um mörk læknisfræðinnar. Þessi umræða er sett fram í þremur ritrýndum greinum. Í síðari hluta ritgerðar er umfjöllunin um þessi þrjú dæmi í greinunum skoðuð saman, hún yfirveguð og endurmetin. Með því að skoða sérstaklega hvað er sameiginlegt í umfjöllun um öll þrjú dæmin má setja fram fjögur þemu. Rannsókn á þeim leiðir í ljós dýpri skilning á því hvað læknisfræði er og hvað hún ætti að vera. Dæmin þrjú sem eru rannsökuð siðfræðilega eru: staðgöngumæðrun, offita og fósturgreiningar. Þessi dæmi voru valin þar sem þau hafa öll verið fyrirferðarmikil í opinberri umræðu á Íslandi og alþjóðlega síðastliðinn áratug. Þar voru þau öll skilgreind og ávörpuð sem læknisfræðileg álitamál. Í þremur ritrýndum greinum er þessi flokkun dregin í efa og jafnframt rannsakað á hvern hátt samfélagsleg öfl móta læknisfræðina og mörk hennar. Í síðari hluta ritgerðar eru ofannefndar þrjár greinar yfirvegaðar saman til að greina hvað þær eiga sameiginlegt. Þessi athugun sýnir að í öllum þremur lykildæmunum sem greinarnar fjalla um má sjá fjögur sameiginleg þemu, sem afhjúpa hvernig læknisfræðin getur leitt til þess að ákveðnir hópar verða stimplaðir og jaðarsettir.

Um doktorsnefnið

Ástríður lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og hlaut almennt lækningaleyfi árið 1989. Hún lauk B.A. prófi í heimspeki frá sama skóla árið 1992 og M.A. prófi í heimspeki frá Dalhousie University í Kanada árið 1993. Hún hefur starfað sem læknir en einnig við háskólakennslu.  Frá árinu 2008 hefur hún verið í fullu starfi dósents í hagnýtri siðfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Ástríður Stefánsdóttir

Doktorsvörn í hagnýtri siðfræði: Ástríður Stefánsdóttir