Doktorsvörn í fornleifafræði: Joe Wallace Walser III | Háskóli Íslands Skip to main content

Doktorsvörn í fornleifafræði: Joe Wallace Walser III

Doktorsvörn í fornleifafræði: Joe Wallace Walser III - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
20. maí 2021 9:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 20. maí 2021 fer fram doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Þá ver Joe Wallace Walser III doktorsritgerð sína í fornleifafræði, Hidden dangers? An investigation of volcanic and environmental impacts on human health and life in historical Iceland. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 9. Smellið hér til að fylgjast með vörninni í streymi.

Andmælendur við vörnina verða dr. Anna Kjellström, dósent í fornleifafræði við Háskólann í Stokkhólmi, og dr. Mike Church, prófessor í fornleifafræði við Durham háskóla.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Agnar Helgason, prófessor við Háskóla Íslands og dr. Rebecca Gowland, prófessor við Durham háskóla. Sverrir Jakobsson, varaforseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Eldgos geta ógnað heilsufari fólks og haft alvarleg áhrif á náttúruna, bæði meðan á þeim stendur og til langs tíma, sökum hættulegra efna og eitraðra lofttegunda sem þau losa út í umhverfið. Stór eldgos á Íslandi hafa áður verið talin hafa valdið stórfelldum búfjárdauða, hungri, breytingum á veðurfari og vatns- og loftmengun, sem hafði í kjölfarið mikil áhrif á heilsu og lífsskilyrði íbúa landsins fyrr á tíð. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hversu mikil áhrif eldsumbrotin höfðu á heilsufar fólks í gegnum aldirnar á Íslandi en um leið að skoða í sama skyni önnur mengunaráhrif í umhverfinu, til dæmis af mannavöldum (s.s. með notkun kvikasilfurs, arseniks og blýs) og vegna loftslagsbreytinga (s.s. kólnandi hitastigs á Litlu ísöld).

Í rannsókninni var margvíslegum aðferðum beitt en einkum stuðst við greiningar á beinum manna og dýra, auk jarðvegssýna. Í úrtaki hennar voru bein 186 einstaklinga frá sjö mismunandi stöðum á Íslandi sem voru í byggð allt frá 10. öld til 19. aldar. Þá voru sértækar greiningar gerðar á gögnum frá Skriðuklaustri í Fljótsdal, þar sem var klaustur og spítali á árabilinu 1493-1554, og frá Skeljastöðum í Þjórsárdal, sem lögðust í eyði í kjölfar Heklugoss árið 1104. Alls voru 36 sýni úr mannabeinum og 31 tannsýni, sem og 23 dýrabeinasýni og 13 jarðvegssýni valin til rannsóknarinnar frá Skriðuklaustri. Til samanburðar voru valin 14 beinasýni og níu jarðvegssýni frá Skeljastöðum.

Um doktorsefnið

Joe Wallace Walser III lauk BA-prófi í mannfræði við Temple University í Philadelphiu og MSc-prófi í fornmeinafræði við Durham University í Bretlandi. Hann starfar nú sem sérfræðingur við Þjóðminjasafn Íslands.

Joe Wallace Walser III

Doktorsvörn í fornleifafræði: Joe Wallace Walser III