Skip to main content

Doktorsvörn í félagsfræði - Maya Staub

Doktorsvörn í félagsfræði - Maya Staub - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
4. febrúar 2022 14:00 til 16:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 4. febrúar 2022 mun Maya Staub verja doktorsritgerð sína í félagsfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin ber heitið Starfsferilsþróun doktorsmenntaðra: Rannsókn á kynjuðu samhengi fjölskyldulífs og tekna meðal doktorsmenntaðra á Íslandi. Vörnin fer fram í Veröld – húsi Vigdísar kl. 14:00 og er öllum opin.

Ritgerðin er unnin undir leiðsögn dr. Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur, prófessors við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Auk hennar voru í doktorsnefnd dr. Thamar Melanie Heijstra, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands og dr. Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands.

Andmælendur eru dr. Nicky Le Feuvre, prófessor og deildarforseti við félags- og stjórnmálsfræðideild Lausanne University, í Sviss og dr. Erin A. Cech, dósent við félagsfræðideild University of Michigan, í Bandaríkjunum.

Doktorsvörninni stýrir dr. Jónína Einarsdóttir, deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.

Hér má finna tengil á streymið: https://livestream.com/hi/doktorsvornmayastaub 

Um doktorsefnið
Maya Staub er fædd 15. maí 1986 og er uppalin í Reykjavík. Hún lauk B.A. prófi í félagsfræði við Háskóla Íslands árið 2011. Haustið 2012 fluttist hún til Potsdam í Þýskalandi þaðan sem hún lauk M.A prófi í félagsfræði við Universität Potsdam árið 2016. Maya hóf svo doktorsnám haustið 2017 sem hluti af samnorrænu rannsóknverkefni sem kallast NORDICORE og er styrkt af NordForsk, en hún hefur jafnframt verið styrkþegi Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands frá 2020-2021.

Ágrip
Ísland hefur komið vel út í alþjóðlegum samanburði á jafnrétti kynjanna. Þrátt fyrir gott gengi og metnaðarfull markmið íslenskra stjórnvalda til þess að ná fullu kynjajafnrétti, ríkir enn kynbundinn launamunur á almennum vinnumarkaði. Því hefur verið haldið fram að aukin menntun kvenna sé lykilatriði í því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og afnema kynbundinn launamun. Menntun kvenna hefur aukist mikið hér landi og hlutfall kvenna sem lýkur doktorsprófi hefur einnig verið í stöðugum vexti. Þrátt fyrir það hafa fáar rannsóknir verið gerðar á tengslum doktorsprófs við starfs- og launaþróun kynjanna.

Markmið doktorsrannsóknarinnar er að öðlast betri skilning á starfs- og launaþróun doktorsmenntaðra einstaklinga á Íslandi, sem starfa bæði innan og utan akademíunnar, einkum með tilliti til þess hvernig kyn og fjölskyldustaða geta haft áhrif á þá þróun. Bæði megindlegum og eigindlegum aðferðum var beitt við gerð rannsóknarinnar. Til greiningar voru nýtt langtímagögn Hagstofu Íslands sem taka til doktorsmenntaðra einstaklinga, með gráður á sviði raunvísinda, tæknifræði, verkfræði og stærðfræði auk hug- og félagsvísinda, árin 1997 til 2017, en að auki voru tekin 32 viðtöl úr sama hópi einstaklinga.

Niðurstöður greiningar langtímagagnanna leiddu í ljós að þrátt fyrir orðspor Íslands sem „jafnréttisparadísar“ má finna viðvarandi kynbundinn launamun meðal doktorsmenntaðra einstaklinga á því 20 ára tímabili sem til skoðunar var, óháð námssviði eða starfsvettvangi. Niðurstöður úr greiningu viðtalsgagnanna sýndu að karlar hafa meira svigrúm en konur þegar kemur að því að stjórna sínum eigin tíma og finna jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs. Konur tjáðu sig oftar en karlar um erfiðleika við að finna slíkt jafnvægi og lýstu frekar mikilli streitu í viðleitni sinni til að nýta sundurslitinn tíma sinn í að sameina vinnu og fjölskylduábyrgð. Af niðurstöðunum má draga þá ályktun að pólitísk stefnumótun sem ætlað er að jafna hlut kynjanna á sviði atvinnulífs og á heimilum dugar ekki ein og sér til að jafna stöðu kynjanna. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða kynbundin launamun eða valdatengsl í atvinnulífinu og á heimilum. Þörf er á frekari rannsóknum á hinum djúpstæðu og innbyggðu kynjuðu gildum í samfélaginu sem stuðla að því að doktorsmenntun dugar ekki til að jafna út launamun doktormenntaðra kvenna og karla

Maya Staub mun verja doktorsritgerð sína í félagsfræði föstudaginn 4. febrúar 2022 kl. 14:00 í Veröld - húsi Vigdísar.

Doktorsvörn í félagsfræði