Skip to main content

Doktorsvörn í félagsfræði - Árdís Kristín Ingvarsdóttir

Doktorsvörn í félagsfræði - Árdís Kristín Ingvarsdóttir  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
23. maí 2019 14:00 til 17:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 23 maí, næstkomandi, ver Árdís Kristín Ingvarsdóttir doktorsritgerð sína „Karlmennskumótun á landamærum: Tengsl sjálfsverundar við manngildistefnur, réttsýni og hreyfanleika (Border masculinities: Emergent subjectivities through humanity, morality and mobility). Vörnin fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands og er öllum opin.

Andmælendur eru dr. Jeff Hearn og dr. Nancy Lindisfarne. 

Leiðbeinandi var dr. Ingólfur V. Gislaon, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands. Ásamt honum sátu í doktorsnefnd dr. Aliki Angelidou prófessor í mannfræði við Panteion háskólann í Aþenu, dr. Helga Þórey Björnsdóttir aðjúnkt í mannfræði við Háskóla Íslands og dr. Unnur Dís Skaptadóttir prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Doktorsvörn stýrir: Kristjana Stella Blöndal, varadeildarforseti og dósent í meistaranámi í Náms- og starfsráðgjöf. 

Doktorsefni

Árdís Kristín fæddist í Reykjavík árið 1970. Hún lauk námi við Fósturskóla Íslands árið 1994 og öðlaðist æfingakennaragráðu 1996. Þá hefur hún klárað eftirfarandi gráður frá Háskóla Íslands: BA prófi í mannfræði árið 2010, Diplómu í hnattrænum tengslum, fólksflutningum og fjölmenningarfræðum árið 2013, og MA prófi í mannfræði. Ennfremur hefur Árdís Kristín kennt ýmis námskeið við Háskóla Íslands í félagsfræði, mannfræði og fötlunarfræði. Þá hefur Árdís tekið þátt í vinnustofum um málefni flóttafólks víða um heim, til að mynda við Oxford háskólann árið 2016. Sem stendur vinnur Árdís að rannsókn um atvinnuþátttöku fólks með fötlun á Íslandi. Foreldrar Árdísar eru Ingvar Páll Björgvinsson og Ingibjörg Dröfn Ármannsdóttir. Bræður hennar eru Bjarki Páll og Daði Már. Ennfremur á hún einn uppkomin son, Aron Ingvar Árdísarson.

Ágrip

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á mótun kyngervis hjá ungum körlum með flóttamannabakgrun í Aþenu, Grikklandi. Sérstakur fókus var á tengsl karlanna við vinstrisinnaðar samstöðuhreyfingar í anarkistahverfinu Exarchia. Þar voru greindar staðbundar aðstæður, ráðandi kynjaímyndir og kynjagjörningar. Rannsóknin var sett í samhengi við kenningar í karlmennskufræðum sem sýna hvernig karlar eru að fást við félagslegar breytingar í tengsl við stjórnmál, vaxandi þjóðernishyggju, breytt kynjahlutverk, mannréttindi og efnahag. Ennfremur voru niðurstöður skoðaðar í ljósi rannsókna á öryggisvæðingu Evrópu þar sem ímynd karla frá Mið-Austurlöndum hefur verið stöðluð og/eða glæpavædd. Þá voru mannfræðilegar rannsóknir nýttar til að varpa ljósi á hvernig karlarnir leituðust við að skapa sér tilgang í samfélaginu og vera virkir þegnar.

Vettvangsrannsóknin stóð yfir í 16 mánuði á árunum 2014-2015, auk 8 mánaða viðveru árið 2012 þar sem frumgagna var aflað og endurtekinna heimsókna allt til 2018. Í vettvangsnótum var sérstök áhersla var á að skoða athafnir og líkamstjáningu. Í greiningu viðtala og vettvangsnóta var stuðst við umfjöllun Kathy Charmaz (2008) um grundaða kenningu og dregin fram merking þess að vera manneskja. Orðræða þeirra um manngildi var og tengd við sýnilegan stuðning við stéttabaráttu Grikkja, réttindabaráttu kvenna og tilvistarbaráttu hinsegin fólks. Í greiningarferlinu urðu til hugtökin (ó)hreyfanlegir karlar; umsetin sjálfverund; réttsýn karlmennska og réttsýnn hreyfanleiki.

Helstu niðurstöður benda til þess að staðbundnir karlar í samstöðuhreyfingunum mótuðu blendings karlmennsku (hybrid masculinities) (Demetriou, 2002) þrátt fyrir orðræðu um umlykjandi manngildi. En blendingskarlmennska mótast af því að valdi karla er viðhaldið þrátt fyrir að einhver samsömun eigi sér stað við jaðarsetta hópa. Þetta birtist einkum í þeim gjörðum sem töldust vera mikilvægastar fyrir karl í andófi gegn nýfrjálshyggju. Hins vegar tóku (ó)hreyfanlegir karlar jafnt þátt í tiltekt og ummönnun eins og konur á svæðinu, auk þess að samsama varnarleysi sitt við aðra minnihlutahópa sem eru jaðarsettir á forsendum kynhneigðar og kynjagjörnings. Þannig var hægt að greina hjá þeim verðandi karlmennsku (emergent masculinities) (Inhorn, 2012) sem leitast við, í bæði orðum og gjörðum, að styðja breytingar í átt til jafnréttis.

Fimmtudaginn 23 maí, næstkomandi, ver Árdís Kristín Ingvarsdóttir doktorsritgerð sína „Karlmennskumótun á landamærum: Tengsl sjálfsverundar við manngildistefnur, réttsýni og hreyfanleika (Border masculinities: Emergent subjectivities through humanity, morality and mobility). Vörnin fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands og er öllum opin.

Doktorsvörn í félagsfræði - Árdís Kristín Ingvarsdóttir