Skip to main content

Doktorsvörn í félagsfræði

Doktorsvörn í félagsfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
16. ágúst 2019 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 16. ágúst ver Ólöf Júlíusdóttir doktorsritgerð sína í félagsfræði. Ritgerðin ber heitið Tíminn, ástin og fyrirtækjamenning: Valdaójafnvægi kvenna og karla í stjórnendastöðum í íslensku efnahagslífi (e.Time, Love and Organisational Culture: Gender Disparity in Business Leadership in Iceland). Athöfnin er öllum opin og fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands klukkan 14:00.

Andmælendur eru dr. Mary Blair-Loy, prófessor í félagsfræði við University of California, San Diego og dr. Marjut Jyrkinen dósent í jafnrétti á vinnumarkaði og kynjafræði við Helsinki University.

Leiðbeinandi er dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd eru dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands og dr. Anna Borg, forstöðumaður rannsóknaseturs í atvinnulífsfræðum við Háskólann í Möltu.

Doktorsvörn stýrir Stefán Hrafn Jónsson, deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.

Efniságrip

Lágt hlutfall kvenna í stjórnendastöðum hefur hlotið athygli á heimsvísu. Konur eru helmingur allra á vinnufærum aldri, atvinnuþátttaka þeirra er há og menntunarstig hærra en karla í hinum vestræna heimi. Áhrifastöður kvenna í efnahagslífinu eru mikilvægar fyrir jafnrétti og ættu konur og karlar að hafa jafnan aðgang að þessum stöðum. Á Íslandi hafa verið stigin mörg skref í átt að jafnrétti kynjanna. Þrátt fyrir fjölda aðgerða sem miða að auknu jafnrétti og góðar velferðarstefnur þá eru fáar konur æðstu stjórnendur í íslensku viðskiptalífi. Með rannsókninni er leitast eftir að skýra valdaójafnvægi kvenna og karla í  framkvæmdastjórnarstöðum í íslensku efnahagslífi. Í því ljósi er sérstökum sjónum beint að samspili fjölskyldu og atvinnu sem mikilvægar skýringar á háu hlutfalli karla í áhrifastöðum.

Blönduðum rannsóknaraðferðum er beitt, megindlegum og eigindlegum. Gögnin samanstanda af spurningalista sem sendur var til 1349 stjórnenda í 249 stærstu fyrirtækjum landsins og 61 viðtali við kven- og karlkyns stjórnendur og þau greind út frá kynjuðu sjónarhorni.

Þær kenningalegu nálganir sem greininginn byggir á fjalla um tímann, valdatengsl ástarinnar (e. love power) og fyrirtækjamenningu. Helsta framlag rannsóknarinnar á einsleitni í íslensku viðskiptalífi snýr að kynjuðum hugmyndum um tímann og valdatengslum ástarinnar. Hugmyndirnar skapa rými til að viðhalda kynjuðu valdaójafnvægi inni á heimilinu og á vinnumarkaði og eiga þannig þátt í að viðhalda óbreyttu ástandi í áhrifastöðum í íslensku viðskiptalífi. Karlkyns stjórnendur hafa tímann á valdi sér á meðan tíminn þrengir frekar að konum í framkvæmdastjórnarstöðum. Að sama skapi eru karlar í betri stöðu þegar kemur að framgangi í starfi, mögulega vegna þess að valdatengsl ástarinnar eru þeim í hag á kostnað maka þeirra. Karllæg fyrirtækjamenning, formleg og óformleg samskipti og tengslanet skýrir einnig hið einsleita umhverfi sem ríkir í framkvæmdastjórnum í íslensku viðskiptalífi. Rannsóknin afhjúpar mótsagnir í norrænni hugmyndafræði í tengslum við kynjajafnrétti í áhrifastöðum.

Um doktorsefnið

Ólöf Júlíusdóttir er fædd árið 1976. Hún lauk BA prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2003, prófi í kennslufræðum til kennsluréttinda árið 2006 og MA prófi í mannfræði frá sama skóla árið 2011. Samhliða doktorsnámi hefur Ólöf sinnt kennslu við Háskóla Íslands. Ólöf er kvænt Tómasi P. Rúnarssyni, prófessor í verkfræði og börn þeirra eru Emma, Kata og Bóas.

 

Föstudaginn 16. ágúst ver Ólöf Júlíusdóttir doktorsritgerð sína í félagsfræði. Ritgerðin ber heitið Tíminn, ástin og fyrirtækjamenning: Valdaójafnvægi kvenna og karla í stjórnendastöðum í íslensku efnahagslífi (e.Time, Love and Organisational Culture: Gender Disparity in Business Leadership in Iceland). Athöfnin er öllum opin og fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands klukkan 14:00.

Dotorsvörn í félagsfræði