Skip to main content

Doktorsvörn í efnafræði - Svanur Sigurjónsson

Doktorsvörn í efnafræði - Svanur Sigurjónsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. maí 2023 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni: Svanur Sigurjónsson

Heiti ritgerðar: Efnasmíðar á mettuðum, ein- og fjölómettuðum metoxýleruðum eterlípíðum (Synthesis of saturated, mono- and polyunsaturated methoxylated ether lipids)

Leiðbeinandi: Dr. Guðmundur G. Haraldsson, prófessor við Raunvísindadeild HÍ

Einnig í doktorsnefnd: 
Dr. Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, lektor við Raunvísindadeild HÍ
Dr. Snorri Þór Sigurðsson, prófessor við Raunvísindadeild HÍ
Dr. Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild HÍ

Andmælendur: 
Dr. Trond Vidar Hansen, prófessor við Lyfjafræðideild Háskólans í Ósló
Dr. Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild HÍ

Doktorsvörn stýrir: Dr. Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar HÍ

Ágrip

Metoxýleruð eterlípíð (MEL) tilheyra undirflokki 1-O-alkýl-sn-glýseróla og finnast hvarvetna í náttúrunni í afar lágu magni, en koma fyrir í mun ríkari mæli í lifrarlýsi hákarla og annarra brjóskfiska. Þessi efni eru ekki mikið rannsökuð og virkni þeirra og tilgangur algerlega óþekktur. Þau hafa til að bera mettaðar eða ómettaðar kolvetniskeðjur (fituhalinn) settar metoxyl-hópnum, og eru þær tengdar sem eter inn á glýserólhluta sameindarinnar (hausinn). Mjög áhugaverð MEL afleiða hefur fundist og verið greind í hákarlalýsi og hefur hún sömu kolefniskeðju og hin mikilvæga ómega-3 fjölómettaða fitusýra DHA. Megináhersla þessarar ritgerðar og rannsóknanna að baki henni fól í sér efnasmíðina á þessari heillandi ómega-3 fjölómettuðu MEL afleiðu og tókst hún með miklum ágætum. Henni má skipta í tvo meginþætti. Annars vegar efnasmíðin á svokölluðum haus-hluta þessara MEL efna með tvö hendin kolefni og rúmefnafræðilegur hreinleika hans; hins vegar efnasmíði fjölómettuðu kolvetniskeðjunnar með sex tvítengi og stjórnun á cis-skipaðri rúmefnafræði þeirra. Aðferðafræðinni var beitt til efnasmíða á samtals tíu MEL afleiðum, mettuðum, einómettuðum og fjölómettuðum og hafa sex þeirra fundist í hákarlalýsi. Í ritgerðinni eru efnasmíðar á fjölómettuðum alkýn- og alkenkeðjum skoðaðar og tilraunum til smíða á slíkum efnum lýst í sögulegu samhengi.
Nokkrar rannsóknir gerðar á MEL efnablöndum framkvæmdar á áttunda áratugnum sýndu fram á margvíslega lífvirkni, á borð við krabbameinsdrepandi, bakteríudrepandi og ónæmisvekjandi áhrif. Hinn lági styrkur þessara efna í náttúrunni gerir það að verkum að erfitt er að nálgast þau á hreinu formi til að rannsaka nánar. Þessi ritgerð lýsir nýrri synþetískri nálgun sem gerir efnasmíðar á þessum efnum mögulegar í háum efna- og rúmefnafræðilegum hreinleika. Þetta hefur vonandi það í för með sér að aukinn áhugi vakni aftur á þessum athyglisverðu efnum og þau verði þá rannsökuð meira og ýtarlegar.

Um doktorsefnið

Svanur Sigurjónsson útskrifaðist með BS-gráðu í lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Árið eftir hóf hann nám til meistaragráðu í efnafræði sem hann lauk 2016. Sama ár hófst vinna við doktorsverkefni í efnafræði sem stóð til loka ársins 2020 undir handleiðslu Guðmundar G. Haraldssonar, prófessors við Raunvísindadeild. Undanfarin misseri hefur Svanur unnið að rannsóknum á sviði líftækni og efnasmíða fituefna við efnafræðistofu Raunvísindastofnunar, en á haustmánuðum 2022 hóf hann störf hjá Alvotech. Svanur er giftur Lenu Rós Jónsdóttur efnafræðingi og eiga þau tvö börn, Leilu og Val.

Svanur Sigurjónsson

Doktorsvörn í efnafræði - Svanur Sigurjónsson